Ástandið í Mið-Austurlöndum

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 15:45:51 (5085)

1996-04-22 15:45:51# 120. lþ. 124.91 fundur 260#B ástandið í Mið-Austurlöndum# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[15:45]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp og öðrum þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Mér heyrist að það sé góð samstaða um þessi mál hér á Alþingi og að það sé fullur vilji á bak við þá yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf út.

Ég vil aðeins geta þess að friðargæslu- og eftirlitssveitir Sameinuðu þjóðanna eru afar mikilvægar. Þær starfa nú á 16 stöðum í heiminum. Í þessum sveitum eru 28 þúsund manns, hermenn, lögreglumenn, eftirlitsmenn og ýmsir aðrir. Og þessir aðilar eru frá 75 ríkjum. Heildarkostnaður við þessa friðargæslu er á fjórða milljarð Bandaríkjadollara. Við borgum okkar hlut í þessum kostnaði eða 0,03% sem er á fjórða tug millj. kr. og er það allmikið framlag miðað við okkar mælikvarða.

Þrátt fyrir allt og þrátt fyrir alla fyrirstöðu, þá hefur helstu deiluaðilum í Mið-Austurlöndum hingað til tekist að halda friðarumleitunum áfram með varanlega lausn að leiðarljósi. Þetta birtist mjög áþreifanlega í sjálfsstjórn Palestínumanna á Gaza-svæðinu og umhverfis Jeríkó, friðarsamningum Ísraels og Jórdaníu og efnislegum viðræðum stjórnvalda í Ísrael og Sýrlandi um yfirráð yfir Golan-hæðum og framtíðarsamskipti ríkjanna tveggja. Aðalatriði málsins þrátt fyrir allt er að þessum viðræðum verði haldið áfram og að friðarferlið haldi áfram en það er í mjög mikilli hættu í dag. Við skulum vona að það takist að tryggja það. Og að sjálfsögðu eiga íslensk stjórnvöld og Íslendingar að leggja sitt af mörkum til þess að svo geti orðið.