Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 16:56:08 (5094)

1996-04-22 16:56:08# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[16:56]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég dreg einungis fram í umræðunni eins og ég hef reynt að gera að þetta ákvæði til bráðabirgða II er stórpólitískt mál og stórpólitískt mikilvægt efnahagslegt mál þannig að það ber að gera sérstaklega grein fyrir því í minnihlutaáliti eins og við kusum. Ég hins vegar skil mjög vel afstöðu hv. þm. Péturs Blöndals að hann kjósi að fara þá leið að skrifa undir með félögum sínum með fyrirvara og gera grein fyrir honum. Það er mjög algengt með stjórnarþingmenn en ég legg sérstaka áherslu á það að þetta mál er miklu stærra en svo, bæði pólitískt og efnahagslega, að menn hefðu getað afgreitt það á einhvern þann máta að standa að áliti með fyrirvara. Þetta mál þurfti akkúrat að leggja upp með þessum skýra hætti eins og við minnihlutamenn höfum gert í áliti okkar.