Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 21:19:11 (5101)

1996-04-22 21:19:11# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, EOK
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[21:19]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í áliti bæði meiri hluta og minni hluta með þessu frv. var mjög góð samstaða í nefndinni um að vinna að þessu máli enda samstaða um nærri allt sem þar var afgreitt og þær brtt. sem gerðar voru. Ágreiningsefnið sem er hér til umræðu núna er varðandi ákv. til brb. II, þ.e. heimildina fyrir Landsbanka Íslands að fá að hækka þá upphæð um 1 milljarð kr. sem þeir taka sem víkjandi lán. Eins og fram hefur komið í ræðum manna hér á undan var upphaflega í frv. gert ráð fyrir að þetta yrði alveg opið. Allir nefndarmenn voru sammála um að það væru mistök. Menn gætu ekki framvísað svo þessu valdi og um það var samstaða. Ég er stuðningsmaður meiri hlutans að því leyti að ég er sannfærður um að við séum að gera rétt í því að heimila Landsbankanum að auka þessi víkjandi lán um 1 milljarð kr. Eins og fram hefur komið hefur það veruleg áhrif á efnahagsumhverfi Landsbankans, þ.e. efnahagsreikning hans, það rúmlega tólffaldar hann, þannig að hér er um mikið hagsmunamál bankans að ræða. Það er rangt sem sumir vilja segja að hér sé verið að ávísa einhverju frá Alþingi. Það er alveg öfugt, við erum að gera þetta á mjög lokaðan hátt. Þetta er bundið við 1 milljarð sem bankinn hefur þá heimild til að auka sín víkjandi lán um. Ég get tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni að það væri til bóta ef í frv. stæði að þetta yrði tekið í samráði við hæstv. viðskrh. og hæstv. fjmrh. En frá mínum sjónarhóli voru rökin fyrir þessu einfaldlega þau að með því að heimila Landsbankanum þetta værum við á praktískan hátt að koma til móts við efnahagslífið í landinu. Landsbanki Íslands er langsamlega stærsti banki landsins, það vita allir. Á stórum landsvæðum eru útlán hans 60, 70, 80% af bankastarfsemi heilu héraðanna og heilu landshlutanna. Auk þess er Landsbankinn langstærsti lánardrottinn sjávarútvegsins sem er okkar grundvallarútflutningsgrein og atvinnulíf landsbyggðarinnar á stórum svæðum byggir nær eingöngu á honum. Frá mínum bæjardyrum séð er því ekki fyrst og fremst verið að hygla bankanum, heldur er verið að tryggja að hann geti haldið uppi eðlilegri lánastarfsemi til viðskiptalífsins. Eins og reglurnar eru núna bar Landsbankanum að borga niður sín víkjand lán. Eins og reglan er mundi þetta hafa veruleg áhrif á útlánagetu hans, nema við heimilum það sem fram kemur í brtt. meiri hluta efh.- og viðskn. Bankarnir og þá sérstaklega Landsbankinn hafa verið til þó nokkurrar umræðu hér í eftirmiðdag á dálítið óvenjulegan hátt verð ég að segja. Mér finnst, herra forseti, dálítið undarlegt þegar menn velja þennan ræðustól til að gefa einstökum bankastjórum einkunn. Ég held að einhver annar vettvangur hljóti að vera mun viðkunnanlegri til þess.

En það er ástæða til að tala aðeins um bankana. Ég lít þannig á að útlánatöp bankanna séu ekki meginvandamálið sem við erum að fjalla um í dag. Þau eru tiltölulega lítil miðað við það skelfilega efnahagsumhverfi sem bankar og sparisjóðir hafa mátt búa við á Íslandi þar til nú fyrir nokkrum árum. Miðað við það er ekki svo skrýtið þótt um veruleg töp hefði verið að ræða. Ég lít þannig á, herra forseti, að vandamál bankanna sé allt annað. Það er staðreynd að það er hefð, löggróinn vani á Íslandi að bankastofnanir kosta allt of miklu til síns rekstrar. Þeir eru miklu dýrari stofnanir hér en sambærilegar stofnanir erlendis. Þetta er vandamál sem kannski tilheyrir umræðunni sem átti sér stað hér í síðustu viku þegar við vorum að tala um samkeppnishæfni Íslands. Þessi dýra bankastarfsemi er að skaða samkeppnishæfni Íslands. Ég lít þannig á að þótt uppi séu góð áform um að breyta rekstrarformi bankanna þá erum við ekki þar með komin út úr þessum vandræðum. Þetta á við alla peningastarfsemi á Íslandi. Sparisjóðirnir eru sannarlega ódýrari í rekstri en bankarnir, það má sýna fram á það. En það má líka sýna fram á að íslenskir sparisjóðir eru þrátt fyrir allt dýrari í rekstri en sparisjóðir á Norðurlöndum. Það vandamál okkar að ná niður rekstrarkostnaði bankanna held ég að verði mjög erfitt viðureignar. En við verðum að keppast mjög við á næstu árum og reyna að vinda ofan af þeirri vitleysu sem einhvern veginn hefur þróast í gegnum áratugi. Það má ekki kosta svona mikið að versla með peninga og það er vandamálið.

Hins vegar held ég að þessi brtt. okkar í meiri hluta efh.- og viðskn. sé viðskiptalífinu til góðs. Hún er nauðsynleg og það er mikil þörf á því að þessi stærsti banki hafi þau umsvif sem viðbótin veitir honum. Þess vegna er ég flutningsmaður að þessari breytingu.