Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 21:39:48 (5105)

1996-04-22 21:39:48# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[21:39]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er svo að þetta frv. er nú meira en bara þetta ákvæði til bráðabirgða II sem öll umræðan hefur reyndar snúist um. Það mátti svo sem alveg búast við því vegna þess að um frv. er að öðru leyti tiltölulega góð sátt. Mér finnst best að byrja á að svara þeim spurningum sem fyrir mig hafa verið lagðar er snúa að málinu.

Fyrst vil ég segja nokkur orð um þetta ákvæði til bráðabirgða varðandi endurfjármögnunina sem hér er verið að opna heimild fyrir upp á 1 milljarð kr. Þá verða menn að hafa í huga að þarna er ekki um nýja fjármuni að ræða, það er ekki um nýtt fjármagn inn í bankakerfið að ræða heldur endurfjármögnun á því sem áður hefur verið greitt.

Hv. þm. Svavar Gestsson og fleiri hv. þm. hafa spurt hvort þessi heimild til Landsbankans sé undirbúningur að formbreytingu bankanna? Það er ekki og er í engum tengslum við þá fyrirhuguðu formbreytingu. Hins vegar er búist við að breytingar geti orðið á alþjóðlegum reglum er snúa að eiginfjárhlutfalli bankans, svokölluðum BIS-reglum sem er í dag 8% með breytingum á því hvernig atvinnuhúsnæði er reiknað gæti það haft einhver áhrif almennt á bankakerfið séð. Hins vegar er BIS-hlutfall Landsbankans vel yfir þessum 8% eða rúmlega 9% þannig að það er ekki af þeirri ástæðu að bankinn þurfi á fyrirgreiðslu að halda hvað þetta snertir. Bankinn hefur hins vegar endurgreitt 750 millj. kr. af þeim 4.250 millj. kr. sem hann fékk vilyrði um sem fyrirgreiðslu og af því voru 1.000 millj. kr. frá Tryggingarsjóði viðskiptabanka og 1.250 millj. kr. frá Seðlabanka Íslands. Af seðlabankaláninu hefur Landsbankinn greitt 750 millj. kr. Þegar samningurinn var gerður eftir að þessi fyrirgreiðsla til Landsbankans hafði verið heimiluð var gerð rekstrarheimild fyrir bankann sem gerði ráð fyrir því að að meðaltali yrði fyrir skatta og aðra óreglulega starfsemi hagnaður af bankanum upp á 929 millj. kr. Þær áætlanir hafa hins vegar ekki gengið eftir og er hagnaðurinn að meðaltali á ári 475 millj. kr. minni en menn áætluðu að meðaltali á árunum 1993--1995. Þar sem bankinn hefur verið að endurgreiða 750 millj. kr. af þeirri fyrirgreiðslu sem hann fékk á sínum tíma og hagnaður sem átti að verða til að byggja upp eiginfjárstöðu bankans hefur verið 475 millj. kr. minni en menn bjuggust við og áætluðu að hagnaðurinn og þar af leiðandi betri eiginfjárstaða yrði. Það er af þeirri ástæðu sem bankinn þarf núna á endurfjármögnun að halda á því sem hann hefur verið að greiða til baka af þeim lánum sem hann fékk í upphafi. Þetta er meginástæðan fyrir því að það er komið með þessa ósk fram um að bankinn þurfi á þessari aðstoð að halda, sem er ekki aðstoð umfram það sem hann hefur áður fengið heldur endurfjármögnun á þeim fjármunum sem hann hefur greitt. Það er mergurinn málsins.

Fyrir utan það, og það kom fram hér hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, verður bankinn betur í stakk búinn til að veita atvinnulífinu betri þjónustu og einstaklingum betri þjónustu hafi hann sterkari eiginfjárstöðu. Menn geta ekki gert lítið úr því.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði hvort ekki væri rétt að ef þessi heimild yrði veitt frá þinginu að það yrði ekki gert nema með samþykki fjmrh. og viðskrh. Sá samningur var gerður um bankana á sínum tíma í kjölfar þessarar fyrirgreiðslu árið 1993. Hafa ráðuneytisstjórar viðskrn. og fjmrn. í samvinnu við Seðlabankann fylgst mjög nákvæmlega með hver framvindan hefur verið á undanförnum mánuðum og missirum. Það er því vitað hver staða þess er á hverjum tíma. Fyrir utan það að öllum líkindum mun Landsbankinn taka að láni þessa endurfjármögnun þennan milljarð til endurfjármögnunar hjá Tryggingarsjóði viðskiptabanka og í stjórn þess banka eru fulltrúar viðskrh. og fjmrh. Ég er því þeirrar skoðunar að það sé ekki ástæða til að setja enn þrengri skorður hvað þetta snertir.

Hv. þm. Ágúst Einarsson spurði hvað liði undirbúningi að formbreytingu ríkisviðskiptabankanna. Það er alveg ljóst og er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að það er áformað að breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög. Ég gat um það í andsvari áðan hvernig þeim undirbúningi hefur verið háttað og ég ætla ekki að endurtaka það. Í því er sérstök þriggja manna framkvæmdanefnd sem hefur unnið í mjög nánu samstarfi og samráði við bankastjóra beggja ríkisviðskiptabankanna og bankaráð og starfsmannafélög beggja ríkisviðskiptabankanna. Það er vitað hvernig sú nefnd er skipuð. Hins vegar eru aðeins fáir dagar eftir af þinginu og það er ljóst að frv. um formbreytingu ríkisviðskiptabankanna munu ekki verða lögð fram á þinginu. Það þýðir ekki að fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um formbreytingu hafi verið lagðar til hliðar, síður en svo. Vegferðin var áætluð sú að á vorþinginu yrðu þessi frv. um formbreytinguna lögð fram og hlutafélagabankar í eigu ríkisins gætu tekið til starfa um áramótin 1996--1997. Áformin eru því þessi: Að leggja fram strax í upphafi haustþings frumvörp um formbreytingu ríkisviðskiptabankanna sem geti tekið gildi um næstu áramót þannig að þótt það tefjist að leggja fram frumvörp um formbreytinguna, munu hlutafélagabankar í eigu ríkisins geta tekið til starfa um næstu áramót. Ég vonast til að þetta svari spurningu hv. þm.

[21:45]

Í öðru lagi spurði hv. þm. hvernig hafi gengið að framfylgja samningnum um Landsbankann sem gerður var á sínum tíma. Ég ætla að rekja í örfáum orðum hvað í þessum samningi fólst. Samningurinn var gerður í kjölfar þess að ríkissjóður lagði Landsbankanum til 2.000 millj. kr. í eiginfjárframlag, Tryggingarsjóður viðskiptabanka veitir bankanum víkjandi lán að upphæð 1 milljarð króna. Seðlabankinn veitti bankanum víkjandi lán að upphæð 1 milljarð 250 millj. kr. Samtals var þarna um að ræða fyrirgreiðslu til Landsbankans upp á 4.250 millj. kr. en ekki 4,5 milljarða eins og menn hafa haldið fram í þessari umræðu. Af þessum 4.250 millj. kr. hafa verið, eins og ég sagði hér áðan, endurgreiddar 750 millj. Það er af þeirri ástæðu m.a. sem bankinn þarf nú á endurfjármögnun upp á 1 milljarð kr. að halda af því að hagnaðurinn hefur ekki orðið eins og menn áætluðu í upphafi.

Í tengslum við fyrrgreindan samning unnu fulltrúar Seðlabankans og Landsbankans að greinargerð um aðgerðir til að bæta rekstrarafkomu bankans sem gerð var 4. maí 1992. Helstu efnisatriði þeirrar greinargerðar eru:

1. Hagræðing í útibúaneti bankanna. Útibúum verði fækkað a.m.k. um þrjú og afgreiðslutími styttur.

2. Gert verði sérstakt átak til að draga úr launakostnaði einkum með fækkum stöðugilda og samdrætti í yfirvinnu.

3. Unnið verði að lækkun annars rekstrarkostnaðar bankans.

4. Farið verði yfir lífeyrisskuldbindingar bankans.

5. Kannaðir verði möguleikar á að minnka efnahagsreikning bankans t.d. með því að færa hluta af erlendum endurlánum til annarra lánastofnana svo sem Fiskveiðasjóðs. Jafnframt er bent á sölu fasteigna sem bankinn hefur eignast svo og sölu á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum.

Flest af þessu hefur komið fram við þessa umræðu. Þá er auðvitað rétt að líta á það hvernig til hefur tekist. Gerð var áætlun í kjölfar þessa um afkomu bankans fyrir árið 1993--1995 og var áætlað að hreinar fjármunatekjur bankans yrðu 4.030 millj. kr. Samkvæmt rekstursreikningi að meðaltali fyrir þessi ár, 1993, 1994 og 1995, urðu rekstrartekjurnar 4.120 millj. kr. eða 90 millj. kr. meiri en gert var ráð fyrir í áætluninni.

Aðrar tekjur urðu minni eða sem nam 38 millj. kr. Laun og launatengd gjöld voru áætluð 2.267 millj. kr. en urðu samkvæmt rekstursreikningi --- það er rétt að taka fram að þetta er á verðlagi ársins 1995 --- 2.253 millj. eða 14 millj. kr. lægri en menn áætluðu. Annar rekstrarkostnaður, 1.664 millj. kr., varð 1.537 millj., 127 millj. kr. lægri. Þegar upp er staðið er það sem skiptir mestu máli að framlög í afskriftareikning útlána voru áætluð 1.060 millj. kr. á ári en urðu 1.875 millj. kr. Það er þetta sem hefur úrslitaþýðingu um það að afkoma bankans er verri en menn áætluðu samkvæmt þeim samningi sem gerður var á sínum tíma og munar þar 815 millj. kr. Því er það svo að hagnaður fyrir skatta sem áætlaður var 929 millj. kr. varð ekki nema 454 millj. Það er enn ein ástæðan fyrir því að bankinn þarf á þessari heimild til aðstoðar og endurfjármögnunar að halda.

Eins og ég sagði áðan er gert ráð fyrir að fylgst sé mjög reglulega með því hvernig við þennan samning er staðið. Það gerir Seðlabankinn og með samningnum fylgjast síðan ráðuneytisstjórar bæði í fjmrn. og viðskrn.

Nýjasta greinargerð bankaeftirlitsins um framkvæmd samningsins við Landsbankann er dagsett 31. okt. sl. Þar eru bornar saman áætlunartölur úr greinargerðinni frá 1993 og væntanleg afkoma bankans, eins og ég lýsti áðan. Meðal þess sem ekki hefur gengið eftir í hagræðingaraðgerðum bankans er sparnaður í útibúarekstri eins og áætlað var að gæti orðið. Útibúum hefur ekki fækkað eins og til stóð heldur hefur þeim því miður fjölgað um eitt. Það útibú er hér í Reykjavík. Einhver hagræðing hefur náðst með fækkun starfsfólks og breyttum afgreiðslutíma útibúanna. Annað sem ekki hefur náð fram að ganga er að draga saman efnahagsreikning bankans.

Nú liggur fyrir endurskoðaður reikningur bankans fyrir árið 1995. Afkoman er nokkuð betri en áætlanir gerðu ráð fyrir á því ári. En í heild má segja, þegar menn horfa á þessar tölur, að það sem aðallega hefur farið úrskeiðis er að rekstrartöpin, afskriftirnar, hafa verið mun meiri en menn áætluðu í fyrstu og koma þar kannski fyrst og fremst til þau vandamál sem að atvinnulífinu hafa steðjað á þessum tíma.

Hv. þm. Ágúst Einarsson spurði hvernig samræmi væri í vaxtastefnu Landsbankans og ríkisstjórnarinnar. Ég held að það sé tiltölulega gott samræmi í vaxtastefnu Landsbankans og ríkisstjórnarinnar. Ég vil segja um það örfá orð. Þegar þessi ríkisstjórn tók við hafði ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa verið haldið í 5% í nokkurn tíma þótt vitað væri að ávöxtunarkrafan væri orðin talsvert hærri. Um það leyti sem ríkisstjórnin var að taka við var á þessu slakað, eða strax í kjölfar kosninganna. Þess vegna fór ávöxtunarkrafan upp í tæp 5,8% og fór síðan smátt og smátt hækkandi þar til í júlí 1995 og stóð síðan í stað út sumarið. Af þessu mátti sjá að ef ríkisstjórninni tækist að takast á við þann halla sem verið hafði á ríkisbúskapnum væri hægt að ná fram vaxtalækkun. Þegar svo frv. til fjárlaga, það fyrsta sem þessi ríkisstjórn lagði fram í október sl., var lagt fram í þinginu brást markaðurinn sýnilega þannig við að vextir lækkuðu mjög á ríkisskuldabréfum eða úr tæpum 5,95% niður í 5,55%. Það voru skilaboð frá markaðnum um að markaðurinn hefði trú á fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar. Þessir lágu vextir héldust þar til um mánaðamótin nóvember--desember. Þá varð ákveðinn órói á vinnumarkaði sem leiddi til þess að hér urðu ákveðnar launahækkanir, kjarabætur, sem er auðvitað af hinu góða. En um leið brást peningamarkaðurinn þannig við að vextir hækkuðu vegna þess að verðbólguspárnar fóru af stað og menn spáðu mun meiri verðbólgu en síðan hefur mælst. Þetta vaxtastig, eða í kringum 5,85%--5,9%, hélst síðan þar til um miðjan febrúar þegar ljóst var að allar efnahagslegar forsendur væru til þess að vextir færu lækkandi. Verðbólga var minni en menn höfðu spáð. Það var minni eftirspurn eftir lánafyrirgreiðslu ríkissjóðs, það var stöðugleiki á vinnumarkaði og ljóst að sá stöðugleiki yrði út árið 1996. Öll efnahagsleg skilyrði voru því til þess að vextir gætu farið lækkandi. Ríkisstjórnin átti fund með Seðlabankanum og lýsti þessum skoðunum sínum. Í kjölfar þess lækkaði Seðlabankinn sína vexti og í reynd fylgdu síðan viðskiptabankarnir á eftir. Það er hins vegar rétt að þeir hikstuðu örlitla stund í Landsbankanum og ég held að það sé rétt að títtnefndur landsbankastjóri lét hafa það eftir sér í hinu víðlesna blaði alþýðunnar, Alþýðublaðinu, að það væri eins og að éta óðsmanns skít að elta vaxtalækkun Íslandsbanka sem þá hafði komið fram. Það liðu hins vegar ekki nema tveir dagar frá því að þessi merka yfirlýsing kom þar til Landsbankinn ákvað að lækka sína vexti og það nákvæmlega í það sama og Íslandsbanki hafði lækkað. Það er kannski ekki allt að marka sem þaðan kemur og menn eru oft dálítið fljótir til. Oft borgar sig að doka við örlitla stund og sjá hver framvindan verður. Þetta hefur síðan leitt til þess að vextir hafa sífellt farið lækkandi og stærsta skrefið var einmitt tekið af Seðlabankanum nú fyrir fáum dögum þegar vextir af ríkisvíxlum lækkuðu um 0,75%. Núna eru viðskiptabankarnir að fylgja þessari vaxtalækkun eftir og ríkisskuldabréfamarkaðurinn fylgir henni líka eftir. Sem svar við spurningu hv. þm. Ágústs Einarssonar tel ég að vaxtastefna Landsbankans og vaxtastefna ríkisstjórnarinnar fari ágætlega saman hvað þetta snertir. Svo framarlega sem menn hiksta ekki aftur held ég að þetta geti gengið og þarna eigi menn ákveðna samleið.

Þá held ég að ég hafi svarað flestum þeim spurningum sem hv. þm. Ágúst Einarsson beindi til mín. Hv. þm. Svavar Gestsson spurði hins vegar hver væri afstaða mín til þess sem kom fram hjá hv. þm. Gunnlaugi Sigmundssyni fyrr við þessa umræðu. Því er til að svara að hefði ég ekki trúað Landsbankanum fyrir þeim fjármunum sem hér er lagt til í þessu frv. þá hefði ég ekki lagt frv. fram í þinginu. Nú veit ég ekki í hversu góðu jafnvægi einstakir bankastjórar Landsbankans eru á hverjum tíma. Það eru sjálfsagt aðrir í miklu betra sambandi við þá en ég og ekki hvað síst við þann sem hér hefur oftast verið nefndur, Sverri Hermannsson bankastjóra. Ég hef ekki lagt mig fram við að elta ólar við þær yfirlýsingar sem hér hafa komið fram varðandi mig sem viðskrh. eða aðra ráðherra í ríkisstjórninni. Ég held að við ættum að hlífa bæði þinginu og þjóðinni við því.