Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 21:58:48 (5106)

1996-04-22 21:58:48# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[21:58]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sátt við þá skoðun hæstv. viðskrh. að það þurfi ekki að breyta þessu ákvæði til bráðabirgða II eins og það er orðað hér. Í mínum huga erum við ekki að ræða hér spurningu um eftirlit með Landsbankanum og hvernig eða hvenær hann notar þessa heimild heldur fyrst og fremst um framsal valds. Við erum að ræða það að Alþingi er ekki að framselja vald eins og því ber til framkvæmdarvaldsins heldur beint til undirstofnunar í ríkiskerfinu eða hvað maður á nú að kalla það. Ég set stórt spurningarmerki við þessa framsetningu eins og hún er hér. Það er ekki verið að veita þessa heimild til fjmrh. eins og venja er að gera í lögum heldur er þetta bara beint til bankanna. Jafnframt er verið að veita þessa heimild til eins og hálfs árs. Ég áskil mér allan rétt til að skoða þessa framsetningu nánar. Mér finnst þetta ekki vera eðlileg, þingleg meðferð. Ég dreg hins vegar ekki í efa að menn viti hvað hér er á ferð. Fyrir mér er þetta fyrst og fremst lagatæknilegt atriði þannig að Alþingi sé ekki að framselja vald til ákveðinnar ríkisstofnunar með óeðlilegum hætti.