Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 22:14:18 (5115)

1996-04-22 22:14:18# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[22:14]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það þjónar einhverjum tilgangi að endurtaka þau svör sem ég gaf hv. þm. Svavari Gestssyni áðan. Ég taldi þau alveg skýr. Í fyrsta lagi er það svo að þessi aðstoð, endurfjármögnunarheimild sem Landsbankinn er að fá, og nú bið ég hv. þm. um að taka vel eftir hafi hann ekki gert það þegar ég ítrekaði svar mitt við spurningu hans, tengist á engan hátt þeirri fyrirhuguðu formbreytingu sem ríkisstjórnin ætlar að gera á ríkisviðskiptabönkunum. (ÁE: Það var öðruvísi í efh.- og viðskn.) Í öðru lagi til að svara seinni spurningu hv. þm. er um stjfrv. að ræða. Stjfrv. gerir ráð fyrir því að þessar heimildir séu veittar til til stjórnenda Landsbankans. Það er ekkert annað en skýr skilaboð um það að bankanum sé treystandi til þess að fara með þessa fjármuni. Nú veit ég ekki hvort að hv. þm. skilur þetta eða ekki en ég treysti mér því miður ekki til að skýra þetta betur.