Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 22:17:35 (5118)

1996-04-22 22:17:35# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[22:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. viðskrh. að þetta mál er að verða mjög alvarlegt en það er ekki málflutningur okkar stjórnarandstæðinga sem er að gera það alvarlegt heldur er það hvernig hæstv. ríkisstjórn og meiri hlutinn hefur unnið að málinu. Ég ætla að endurtaka það sem hv. þm. Ágúst Einarsson sagði að við höfum verið leynd upplýsingum í efh.- og viðskn. Það er alveg bersýnilegt. Það hafa komið fram mjög misvísandi skýringar á því hvers vegna þetta ákvæði sé flutt, fyrst í frv. og síðan í brtt. meiri hlutans. Þrenns konar skýringar hafa á mismunandi tímum hafa verið gefnar á því hvers vegna nauðsynlegt sé að taka undir þetta tæknilega frv. um EES-reglur, þetta ákvæði sem varðar eiginfjárstöðu Landsbankans.

Í fyrsta lagi var í efh.- og viðskn. sagt berum orðum, um það eru mörg vitni og það er vonandi ekki borið til baka hér, að þetta væri hluti af undirbúningi undir ,,háeffun`` bankanna. Þetta var sagt í efh.- og viðskn. Ég veit það að nefndarmenn geta staðfest að það var okkar skoðun. Við töldum okkur hafa þær upplýsingar að þetta tengdist því.

Í öðru lagi var svo á öðrum tíma gefin sú skýring og hún var nefnd í dag í umræðum að þetta tengdist hugsanlegum eða væntanlegum breytingum á grunni BIS-reglna sem gæti haft áhrif á eiginfjárstöðu Landsbankans í framtíðinni. Þegar búið væri að endurmeta áhættu í sambandi við útlán vegna atvinnuhúsnæðis og fleiri þátta gæti það rýrt grunninn sem miðað er við þannig að af þeim sökum væri nauðsynlegt fyrir Landsbankann að geta leita endurfjármögnunar á þessum hluta víkjandi lánanna sem hann hefur greitt upp.

Seint og um síðir kemur svo þriðji þátturinn sem er ósköp einfaldlega mun lakari afkoma Landsbankans en plönin frá 1993 gerðu ráð fyrir sem nemur 400--500 millj. á ári á þessum þremur árum eða 1,5 milljörðum. Þá loksins skýtur það upp kollinum vegna þess að bankinn er áfram að greiða niður fyrirgreiðslu frá 1993 að hann þurfi nú á þessari endurfjármögnun að halda. Auðvitað er það nýtt fé, hæstv. viðskrh., miðað við þær áætlanir sem lagðar voru til grundvallar og kröfur um afkomu í bankanum í kjölfar þeirrar miklu innspýtingar á fé sem hann fékk á sínum tíma. Það er alveg ljóst að þetta er nýtt fé miðað við þær áætlanir sem þá voru lagðar til grundvallar þegar þessi myndarlega aðstoð, ef svo má að orði komast á árinu 1993, átti að gjörbreyta stöðu bankans til þess að bæta rekstur sinn og koma þeim hlutum í lag. Ég get ekki orðað þetta öðruvísi, herra forseti, en það hafi farið fram feluleikur um þetta mál, mjög sérkennilegur feluleikur. Þá eru það ekki við, sem erum loksins að draga fram upplýsingar um þetta mál, sem erum sökudólgar í því heldur þeir menn sem leggja málið ekki rétt og kinnroðalaust fyrir. Ég fullyrði að menn hafa almennt þá ábyrgðartilfinningu gagnvart viðkvæmum og vandasömum málum af þessu tagi að þeir gera þau ekki að umræðuefni að ástæðulausu og tilefnislausu. Það er væntanlega öllum ljóst að það er viðkvæmt mál að vera að ræða mikið um veika eiginfjárstöðu mikilvægasta viðskiptabanka þjóðarinnar. Það er a.m.k. öllum ljóst sem gengu í gegnum umræðuna 1993 og menn muna vel þá panik sem farin var að grípa um sig þá, m.a. vegna óróleika sem gerði vart við sig erlendis í kjölfar umræðunnar heima um fyrirgreiðsluna til Landsbankans þá. Hér var reyndar nefnt að send hefðu verið skeyti út um dali og hóla til að fullvissa menn um að þeir væru nú samt sem áður ekki komnir á hausinn og þetta væri allt í lagi og Landsbankinn héti áfram Landsbankinn o.s.frv.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kom inn á þetta með vissum hætti í sinni ræðu og hann sagði: Ég styð þetta svona vegna þess að ég er viss um að það er gott fyrir Landsbankann og íslenskt atvinnulíf. Ég held að þetta mál sé ekki að verða mjög gott fyrir Landsbankann. Satt best að segja er að verða allt of mikið klúður út af allt of litlu máli vegna þess að þetta er þrátt fyrir allt ekki mjög stór tala í samhenginu Landsbanki Íslands, eigið fé hans og útlánagrunnur eða BIS-reglna grunnur. Ég held að menn séu að baka sér allt of mikla erfiðleika út af ekki stærra máli en þessu vegna þess að það er ekki rétt fram borið og ekki rétt fram lagt.

Í þessu máli hefur átt sér stað mjög sérkennilegur feluleikur. Frv. eins og það var lagt fram var alveg dæmalaust. Hvað er lagt til í 2. gr. þess? Það er lagt til að skilyrðið um að leita samþykkis Alþingis fyrir víkjandi lántökum ríkisviðskiptabankanna almennt sé fellt út þannig að þeir geti eftir það tekið víkjandi lán eins og þeim sýnist. Þannig var frv. Það var svo dæmalaust. Með öðrum orðum, Landsbankinn hefði þá getað tekið einhverja 2 milljarða eða 5 milljarða eða 8 milljarða eða Búnaðarbankinn 20 milljarða þess vegna ef honum sýndist svo og stækka svo efnahagsreikning sinn sem því nam, 12 sinnum það eða hvað það nú er. Góðir menn í prósentureikningi geta fundið út úr því. Þetta er það sem málið snýst um. Með því að taka víkjandi lán innan þeirra marka sem þau mega leggjast við eigið fé bankans, A, B og C, samkvæmt skilgreiningu, geta menn síðan aukið umfang viðskipta bankans og þetta er ríkisviðskiptabanki.

Rökstuðningurinn í grg. er einnig furðulegur. Þar er sagt að af því að ríkisbankarnir megi taka lán með margs konar hætti án heimildar Alþingis þá sé náttúrlega engin ástæða til að halda aftur af þeim í að taka víkjandi lán. Munurinn er bara sá að víkjandi lánin mega leggjast við eigið fé bankans og þar af leiðandi geta þau stækkað efnahagsreikning hans með þessum hætti. Þarna er auðvitað feluleikur á ferðinni. Landsbankinn er ekki nefndur á nafn, ekki í lagagreininni, ekki í umsögn um lagagreinina, ekki í grg. og það þurfti að draga það út með töngum að þarna væri í raun og veru Landsbankinn á ferðinni. Og hvernig er svo brtt. orðuð? Þar heldur feluleikurinn áfram á þann hjákátlega máta að það er ekki talað um Landsbankann. Í staflið b, tölulið 13 í breytingartillöguskjalinu segir: ,,Ríkisviðskiptabanka er fram til 31. des. 1997 heimilt að taka víkjandi lán ...`` Ríkisviðskiptabanka, ekki Landsbankanum. Hvað eru þeir margir? Þeir eru tveir. Hinn er Búnaðarbankinn. Hann hefur aldrei tekið nein víkjandi lán á grundvelli fyrirgreiðslna frá 1992. Það er því bara átt við Landsbankann. Lagaákvæðið er þannig úr garði gert að það getur ekki tekið til neins nema Landsbankans en það er ekki sagt. Það er talað um ríkisviðskiptabanka og svo er klykkt út með því að segja: ,,Hámarksheimild samkvæmt þessu ákvæði miðast við þá fjárhæð sem slík lán námu 1. jan. 1994.`` Hvaða ríkisviðskiptabankar höfðu víkjandi lán á grundvelli fyrirgreiðslna frá 1993 1. jan. 1994? Svar: Bara Landsbankinn en það má ekki segja það að hér sé verið að tala um að endurfjármagna víkjandi lántökuheimildir Landsbankans á þessum tíma. Það er áfram verið í þessum feluleik. Í staðinn fyrir að leggja málið fyrir eins og átti að gera í sérstöku frv. í samræmi við hefðina frá 1993 þar sem farið var fram á tiltekna, afmarkaða uppfærslu á lántökuheimild Landsbankans er þessi skollaleikur valinn og haldið áfram í þessum feluleik til hinstu stundar. Fyrir liggur að það er engan veginn forsvaranlegt hvernig málið hefur t.d. verið lagt fyrir efh.- og viðskn. Af hverju er verið að vitna í skýrslur sem hafa ekki komið á borð nefndarinnar o.s.frv. nú loks seint á kvöldi þessarar umræðu? Ég held að þetta sé engum til framdráttar hvernig að þessu hefur verið staðið.

Ég ætla ekki að fara að elta ólar við það sem hér hefur blandast inn í umræðuna, sérkennileg orðaskipti einkavæðingarformannsins, hv. þm. Gunnlaugs Sigmundssonar, og hins víðfræga bankastjóra Landsbankans, Sverris Hermannssonar, en ekki eykur það í mínum huga trúverðugleik umræðunnar og þessa máls að svoleiðis hlutir séu hér uppi á borðum og blandist inn í þetta og þau orðaskipti öll og þær einkunnagjafir á víxl, hvort sem það á við kunnáttu hæstv. ráðherra á vaxtamálum eða aðra slíka hluti. Mér finnst menn satt best að segja ekki taka þessi mál mjög alvarlega og ekki vanda sig þegar vinnubrögðin eru með þessum hætti.

Herra forseti. Ég tel að það séu komnar fram algjörlega fullnægjandi málsforsendur til að krefjast þess að brtt. sé kölluð aftur, 13. tölul., og efh.- og viðskn. taki a.m.k. þennan hluta málsins til sín á nýjan leik. Ég krefst þess að haldinn verði fundur í efh.- og viðskn. þar sem við getum kallað til okkar öll gögn um þetta mál úr því sem komið er. Það er ekki boðlegt að standa frammi fyrir því að feluleikur af þessu tagi hafi verið hafður í frammi. Menn áttu að koma til dyranna eins og þeir voru klæddir með þetta mál frá byrjun og segja: Þetta snýst um að við viljum fá uppfærslu á heimildum Landsbankans frá 1993. Þær hafa ekki dugað, afkoma bankans hefur hvergi nærri orðið í samræmi við áætlanirnar sem voru lagðar til grundvallar 1993 og þess vegna er ekki um annað að ræða en að fá þarna tiltekna viðbótarheimild. Málið lá skýrt og klárt fyrir og ég er sannfærður um að eftir vandlega skoðun í nefnd hefði það getað farið í gegnum þingið í samkomulagi, hef ég ástæðu til að ætla, án nokkurrar umtalsverðrar umræðu. Málið snýst ekki um það að einhver ágreiningur sé um það að nauðsynlegt sé að eiginfjárstaða Landsbankans þurfi að vera fullnægjandi í hvaða tilviki sem það er. Málið snýst ekki um það. Ríkið, eigandi bankans, hlýtur að sjálfsögðu að koma þar til skjalanna og mundi gera jafnvel þó það væri ekki eigandi hans vegna þess að það er alveg augljóst mál að þó að Landsbankinn væri einkabanki þá mundi íslenska ríkið ekki láta þann banka eins og staða hans er í íslensku efnahagslífi lenda í vandræðum af neinu tagi gagnvart BIS-reglum. Það liggur bara þannig. Ég get ekki ímyndað mér að um það mál hefði þurft að verða nokkur minnsti ágreiningur eða nokkurt vesen ef menn hefðu bara staðið heiðarlega að því að bera málið hér fram.

Herra forseti. Mér er eiginlega skapi næst að óska eftir að þessari umræðu verði frestað og 2. umr. ljúki ekki fyrr en efh.- og viðskn. hefur getað farið aftur yfir málið en til vara geri ég þá kröfu að meiri hlutinn kalli þá 13. tölul. eða ákvæði til bráðabirgða II til baka og við fáum kost á því að fara rækilega yfir það á nýjan leik í efh.- og viðskn. Ég tel að það sé ekki forsvaranlegt að afgreiða málið eins og nú er komið í ljósi þeirra upplýsinga sem hér eru komnar fram og ég spyr menn að því hvaða svipur sé á því. Hvaða svipur er á því að sulla afgreiðslu á þessu í gegn í ljósi þess sem hér hefur verið að dragast upp í umræðuna? Hann er ekki góður þannig að ég held að það væri öllum fyrir bestu að stöðva nú málið og fara yfir það með þessum hætti í hv. nefnd.