Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 22:42:08 (5124)

1996-04-22 22:42:08# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, JBH
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[22:42]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég held að menn hafi almennt gert sér grein fyrir því eftir umfjöllun þessa máls í nefnd að þessi umræða gæti orðið vandasöm. Þess vegna er það að menn hafa tekið það trúanlegt og hamrað á því í umræðunum, hver á fætur öðrum, að niðurstöður efnahagsreiknings Landsbankans um seinustu áramót og þar með talin eiginfjárstaða bankans væri viðunandi samkvæmt alþjóðlegum viðmiðunarreglum og að Landsbankinn þyrfti því ekki á sérstökum björgunarleiðangri að halda. Við erum hér að ræða fyrir opnum tjöldum úr ræðustól á Alþingi fjárhagsgrundvöll helstu fjármálastofnunar þjóðarinnar og í raun og veru hefði verið afar varasamt að ræða þessi mál hér á hinu háa Alþingi nema vegna þess að fyrir lá að þessi niðurstaða var svona. Við höfum að sjálfsögðu gagnrýnt allan tímann hvers vegna verið er að læða þessu heimildarákvæði til ríkisbanka, eins og það er orðað, til þess að taka víkjandi lán inn í frv. sem er þessu alls óskylt. Við erum að fjalla um frv. sem er tæknilegt frv. vegna aðlögunar löggjafarinnar um viðskiptabanka og sparisjóði að Evrópusambandsreglum og þetta er alls óskylt mál og það er fullkomlega réttmæt gagnrýni. En meginatriðið er að sú forsenda var á hreinu að Landsbankinn þyrfti ekki á neinni sérstakri viðbótarfyrirgreiðslu að halda. Hæstv. viðskrh. vísar reyndar til þess að þetta sé ekki ný viðbótarfjármögnun. Því hefur þegar verið svarað. Með vísan til þess hvað víkjandi lán eru og áhrifa þeirra til stækkunar á efnahagsreikningi og aukinnar útlánagetu, er það í besta falli álitamál.

Þess vegna er það, herra forseti, að það kemur að sumu leyti á óvart á hvern veg þessi umræða hefur þróast. Það væri í alla staði eðlilegt að spyrja, með tilliti til forsögunnar og björgunaráðstafana árið 1993, hvernig tekist hefði í framkvæmd að standa við þau skilyrði sem þá voru sett og hvernig áætlanir hefðu gengið eftir til dagsins í dag. Hæstv. viðskrh. hefur svarað því og sannleikurinn er sá að reynslan af því er vægast sagt ekki góð. Hæstv. ráðherra dró enga dul á það. Hann sagði að bankinn hefði í raun og veru ekki fullnægt þeim skilyrðum sem þá voru sett og að áætlun sem gerð var á árunum 1993--1995 um rekstur og afkomu hefðu ekki gengið eftir í mjög veigamiklum atriðum.

[22:45]

Ég spurði sérstaklega eftir þessu í minni ræðu af þeirri einföldu ástæðu að mér er mjög minnisstætt hversu digrar yfirlýsingar voru gefnar á sínum tíma af hálfu bankans um það að þetta væri einstök aðgerð sem þá var beðið um og að ekki yrði leitað aftur sambærilegrar fyrirgreiðslu. Jafnframt var því tekið vel þegar sett voru þau skilyrði sem hæstv. viðskrh. tíundaði og gerði grein fyrir. Það er staðreynd að í ljósi þeirra upplýsinga að þetta hefur ekki gengið eftir er verið að leita eftir endurfjármögnun á aðstoðinni frá 1993, að sögn hæstv. viðskrh. Áætlunin var gerð og skilyrði voru sett um að bankinn brygðist við t.d. með fækkun útibúa. Það hefur ekki gengið eftir. Þvert á móti, útibúum hefur fjölgað.

Í annan stað voru sett skilyrði um að bankinn minnkaði efnahagsreikning sinn, m.a. með sölu eigna í öðrum rekstri. Það hefur heldur ekki gengið eftir. En hæstv. ráðherra lagði á það megináherslu að það sem síst hefði gengið eftir væri að upphæðir sem lagðar hafa verið inn á afskriftareikning vegna útlánatapa eru verulega hærri en ráð var fyrir gert. Heildarniðurstaðan er því sú að afkoma bankans, hagnaður bankans, er 1,5 milljörðum lakari en lagt var upp með.

Það er eðlilegt að menn setji stórt spurningarmerki við það hvort þetta sé raunverulega skýringin. Við höfum lagt upp með það sem grundvallarforsendu að hvað sem sem öðru liði gæfi afkoma bankans um seinustu áramót ekki tilefni til þess að ætla að hann þyrfti einhverja sérstaka fjárhagslega fyrirgreiðslu. Þvert á móti var sagt að brtt. væri í því fólgin að setja fremur þak á þá fyrirgreiðslu sem upphaflega var farið fram á. En það lá alltaf að baki umræðunnar að ef á það reyndi á næstunni að breytt yrði um rekstrarform þannig að bankinn yrði gerður að hlutafélagi, þá kynni að vera að tilteknar eignir hans yrðu lækkaðar í verði þannig að þetta væru nánast varúðarráðstafanir gagnvart ókominni tíð.

Nú tók ég sérstaklega eftir því að í máli viðskrh. kom fram að hann vísaði því algerlega á bug að skýringin á þessari beiðni og þessari tillögu væri í nokkrum tengslum við breytingar á rekstrarformi bankans. Hann vísaði til þess að þess væri að vænta að það yrðu breytingar á hinum alþjóðlegu BIS-reglum svokölluðu sem gætu haft þær afleiðingar í för með sér að mat á eignum í efnahagsreikningi bankans kynnu að lækka. Það er ástæða til þess að spyrja: Er eitthvað fast í hendi um það hvenær þessar alþjóðlegu viðmiðunarreglur taka gildi? Liggur eitthvað fyrir um það að þær hafi svo stórvægileg áhrif að af þeim ástæðum þurfi hugsanlega að endurfjármagna fyrirgreiðsluna við bankann frá árinu 1993? Eru það staðreyndir málsins eða er það einfaldlega skýring sem gefin er vegna þess að menn vilja ekki slá því föstu að þetta sé afleiðing af áformunum um breytingu á rekstrarformi? Hvað svo sem því líður beini ég því til hæstv. ráðherra og til hv. formanns efh.- og viðskn. að þeir leggi við hlustir og taki það alvarlega þegar talsmaður minni hlutans í þessu máli, hv. þm. Ágúst Einarsson, segir: ,,Mér finnst að ég hafi verið blekktur í þessu máli. Mér finnst að það hafi ekki verið komið beint framan að mönnum og það hafi ekki verið settar fram í nefndinni þær skýringar sem nú eru smám saman að koma á daginn.`` Þær eru að vegna þess að áætlunin frá 1993 gekk ekki eftir er raunveruleg þörf fyrir hendi. Og, nota bene, þetta er alltaf í því formi að þetta sé heimildarákvæði til ríkisbankanna en ekki bundið nafni annars þeirra.

Ég verð að segja fyrir mig, virðulegi forseti, að ég tel að það sé af öllum ástæðum skynsamlegt þegar hér er komið sögu að það verði bundinn endir á þessa umræðu. Ég held að hún þjóni ekki tilgangi lengur. Ég teldi að það væri afar óskynsamlegt að skiljast við málið eins og það er nú statt. Ég er einfaldlega að taka eindregið undir þær ábendingar og þær óskir sem fram komu hjá talsmanni minni hlutans, hv. þm. Ágústi Einarssyni, að nú verði gert hlé á þessari umræðu, þessu máli verði vísað aftur til efh.- og viðskn., það skoðað að nýju og þess freistað að ná niðurstöðu. Ég segi alveg það sama og hv. þm. Ágúst Einarsson. Ef þær upplýsingar sem nú liggja fyrir hefðu legið fyrir skýrt og klárt í umfjöllun nefndarinnar vil ég ekki útiloka að ég hefði fremur kosið að málið yrði leyst með sameiginlegri niðurstöðu í nefndinni heldur en það yrði tekið út til almennrar umræðu í þingsal undir þeim formerkjum sem nú eru komin á daginn. Ég beini þessum tilmælum til þeirra sem ábyrgð bera á málinu í mikilli vinsemd og bendi þeim á að ég sé ekki fram á það að þessi umræða geti gagnast okkur mikið lengur. Ég held að það hljóti öllum að koma saman um að æskilegast væri að málið yrði leyst með niðurstöðu sem gæfi ekki tilefni til tortryggni eða vantrúar að því er varðar þessa mikilvægu fjármálastofnun. Ég tel þess vegna skynsamlegt að hæstv. ráðherra og þeir sameiginlega, ráðherra og hv. formaður efh.- og viðskn., fallist á að ljúka þessari umræðu ekki núna heldur fari málið aftur til nefndar þar sem það verður skoðað upp á nýtt og farið ofan í saumana á þeim upplýsingum öllum sem hér liggja fyrir. Svo má láta á það reyna hvort unnt er að ná sameiginlegri niðurstöðu. Ég held að það mundi þjóna best hagsmunum allra sem hér eiga hlut að máli.