Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 22:53:25 (5125)

1996-04-22 22:53:25# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[22:53]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eftir ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan fór hann fram á það í svari við andsvari mínu að nefndin hittist milli 2. og 3. umr. til að fara yfir málið. Ég taldi það eðlilega ósk og í rauninni væri það sjálfsagt mál. Ég tel að málið liggi í sjálfu sér alveg fyrir. Það var kynnt með þeim hætti í nefndinni að ég taldi að henni væri ekkert að vanbúnaði að taka á þessu máli og samþykkja að Landsbankinn hefði möguleika á ákveðinni endurfjármögnun á þeim víkjandi lánum sem á honum hvíldu. Að minnsta kosti taldi ég að ég hefði fengið allar þær upplýsingar sem ég þurfti til að geta staðið að því. Það getur vel verið að það hafi komið fram frekari upplýsingar eftir að nefndin afgreiddi málið. Það hefur nokkur tími liðið á milli þess að afgreiðsla fór fram og þessarar umræðu. Það er alveg sjálfsagt að fara yfir þær upplýsingar. Ég tel hins vegar að þær upplýsingar eins og þær hafa verið kynntar í þessari umræðu og sú samantekt sem hefur farið fram á afkomu Landsbankans yfir lengra tímabil geri ekkert annað en staðfesta það enn frekar sem nefndin leggur til. Af öllum þessum ástæðum tel ég heppilegast að þessari umræðu ljúki sem fyrst þannig að bankinn fái starfsfrið. Menn geta þá einbeitt sér að því á þeim bæ að vinna eins og heppilegast er fyrir stofnunina sjálfa, eigendur bankans og viðskiptavini.