Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 22:57:04 (5127)

1996-04-22 22:57:04# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[22:57]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alls ekki fallist á að það sé verið að leika hér einhvern blekkingaleik og þannig hafi verið staðið að málinu frá upphafi. Það var flutt hér stjfrv. og það var kynnt. Í stjfrv. var lagt til að ríkisviðskiptabankar fengju almenna heimild án afskipta Alþingis til þess að taka þau víkjandi lán sem þeim er heimilt samkvæmt reglum um viðskiptabanka og sparisjóði almennt. Ég vek athygli á því að Íslandsbanki tók á sínum tíma víkjandi lán og ekki kom Alþingi að því. Það er hins vegar ekki í stíl við starfshætti hér að veita ótakmarkaðar eða lítt takmarkaðar ábyrgðir á skuldbindingum ríkisstofnana eins og það hefði falið í sér. Allt starf nefndarinnar fólst í því að fara yfir þetta mál gagnvart Landsbankanum og kanna með hvaða hætti væri eðlilegt að takmarka þær heimildir sem lagðar voru til í frv. ríkisstjórnarinnar, það duldist engum sem um það mál fjallaði.

Á grundvelli þeirra upplýsinga sem ég fékk í nefndinni og allir hv. þingmenn sem í henni störfuðu fengu á sínum tíma sannfærðist ég um að það væri ástæða til að veita bankanum standandi heimild til að endurfjármagna víkjandi lán sem á honum hafa hvílt upp að vissu marki. Með því er ekki verið að taka neina nýja ákvörðun um eiginfjárstöðu bankans heldur einungis að gera honum kleift að gegna betur sínum hlutverki eða búa sig undir þá breytingu sem verður á BIS-reglunum frá næsta ári þar sem atvinnuhúsnæði verður endurmetið. Það getur haft ákveðnar afleiðingar fyrir eiginfjárstöðu bankans. Ég skil satt að segja ekki alveg þann áhuga sem sumir hv. þingmenn í þessari umræðu hafa á því að vera að hringla frekar með þetta mál.