Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 23:43:20 (5138)

1996-04-22 23:43:20# 120. lþ. 124.15 fundur 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, Frsm. minni hluta SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[23:43]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hluta sjútvn. um frv. til laga, um breytingu á lögum um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands, nr. 13/1992. Þetta er 308. mál þingsins á þskj. 549. Eins og fram hefur komið tengist þetta frv. frv. ríkisstjórnarinnar um breyting á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991. Það frv. hefur nú verið afgreitt frá efh.- og viðskn. með brtt. og var mælt fyrir þeim hér á undan. Eins og þar kom fram hafði nefndin jafnframt til umfjöllunar tvö önnur þingmál, 242. og 307. mál, sem bæði fjölluðu um það að leyfa beina fjárfestingu í afmörkuðum mæli í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Niðurstaða meiri hluta nefndarinnar varð eigi að síður sú að heimila einungis óbeina eignaraðild þó þannig að útlendingar geti átt allt að 62% í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.

Þar sem um viðurkenningu er að ræða á því að útlendingar séu eignaraðilar í íslensku sjávarútvegsfyrirtæki þarf að breyta lögunum um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands þannig að fyrirtæki, sem geta verið allt að 62% í eigu útlendinga, geti áfram stefnt skipum sínum til veiða í landhelginni. Því er það frv. um breytingu á nefndum lögum komið fram.

Meiri hluti sjútvn. hefur nú afgreitt frv. með hliðstæðri breytingu þeirri sem meiri hluti efh.- og viðskn. gerði við frv. ríkisstjórnarinnar um óbeina eignaraðild.

Undirrituð standa ekki að þeirri afgreiðslu frekar en fulltrúar þeirra flokka sem þau eru fulltrúar fyrir í efh.- og viðskn., enda sannfærð um að óbein eignaraðild, að hluta staðfesting á því ástandi sem nú þrífst ólöglega, sé ekki sú breyting sem íslenskur sjávarútvegur þarfnast helst og gildi þá einu hvort prósentan hentar núverandi stöðu allra fyrirtækja. Allra síst hefur þessi breyting gildi fyrir fiskvinnsluna sem eins og hér hefur komið fram ætti að vera skilgreind sem iðnaður og fá sem slík að njóta þeirra kosta sem kunna að felast í beinni eignaraðild erlendra aðila eins og annar iðnaður í landinu.

Undir þetta álit skrifa Svanfríður Jónasdóttir og Sighvatur Björgvinsson.