Iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 14:01:09 (5147)

1996-04-23 14:01:09# 120. lþ. 125.91 fundur 265#B iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[14:01]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Það er ánægjuleg tilbreyting að ræða hér um uppsveiflu í sjávarútvegi og reyndar iðnaði einnig því að á undanförnum árum hafa umræður á Alþingi um þessar atvinnugreinar einkum snúist um erfiðleika og vandamál. Eins og kom fram hjá hv. 4. þm. Vestf. þá greip síðasta ríkisstjórn til margháttaðra aðgerða við mjög erfið ytri skilyrði til þess að rétta hag þessara greina. Þessar aðgerðir hafa heppnast mjög vel, reyndar framúrskarandi vel. Á fundi iðnn. með Samtökum iðnaðarins í vetur kom það fram að síðasta ár er eitthvert það besta sem menn muna á þeim bæ.

Heiti þessarar umræðu er iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi. Ég ætla ekki að ræða um veiðileyfagjald eins og hv. frummælandi, enda finnst mér hugmyndir um slíkt gjald fráleitar. Ég ætla hins vegar að fara nokkrum orðum um tengsl iðnaðar og sjávarútvegs. Þær tegundir hefðbundins iðnaðar sem mest tengjast sjávarútvegi eru skipa-, veiðarfæra-, umbúða- og matvælaiðnaður svo og framleiðsla á tækjum og búnaði til sjávarútvegs. Í öllum þessum greinum hefur verið mikill vöxtur að undanförnu eftir mörg mögur ár, en því miður ber nú á skorti á iðnaðarmönnum vegna þess að fyrirtækin treystu sér ekki til þess að taka iðnnema þegar verst gekk en hlutfall rekstrartekna í iðnaðargreinum féll úr 20% af tekjum sjávarútvegs árið 1987 í 15% árið 1991. En öll þessi ár streymdu verkefni úr landi fyrir marga milljarða á hverju ári vegna gylliboða og niðurgreiðslna í samkeppnislöndum okkar. Á þessu hefur sem betur fer orðið mikil breyting og nú er góð verkefnastaða hjá flestum fyrirtækjum í þessum greinum.

Útflutningur á iðnaðarvörum til sjávarútvegs hefur aukist mjög og verið ákveðinn vaxtarbroddur í íslenskum iðnaði. Þar eigum við marga möguleika og skörum reyndar fram úr á mörgum sviðum vegna þekkingar og skilnings á mikilvægi sjávarútvegs. Við eigum að sækja aukin verkefni og viðskipti til þess flota sem er á veiðum á hafinu í kringum Ísland. Við eigum að setja markið hátt og gera Ísland að sjávarútvegsmiðstöð Norður-Atlantshafsins. En til þess að það geti orðið þurfum við að breyta lögum sem takmarka þessum flota aðgang að íslenskum höfnum. En umfram allt þurfum við að tryggja rekstrarumhverfi sjávarútvegs og iðnaðar og það gerum við best með því að standa vörð um þann stöðugleika í efnahagsmálum sem við höfum búið við að undanförnu.