Iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 14:03:41 (5148)

1996-04-23 14:03:41# 120. lþ. 125.91 fundur 265#B iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[14:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Því miður, herra forseti, held ég að fréttir af væntanlegu óviðráðanlegu góðæri í sjávarútvegi á kostnað iðnaðarins séu stórlega ýktar ekki síður en fréttir af andláti Mark Twains rithöfundar forðum. (Gripið fram í: Er hann dáinn?) Aðstaðan í dag er sú að ýmsar greinar útflutnings- og samkeppnisiðnaðar blómstra eins og ágætlega kom fram í máli hæstv. iðnrh. áðan, enda er raungengi mjög lágt. Í sjávarútvegi er hins vegar staðan þannig að það er mikið tap á hefðbundinni fiskvinnslu og hefðbundin landvinnsla á í bullandi erfiðleikum um þessar mundir. Skuldir sjávarútvegsins eru yfir 100 milljarðar kr. þrátt fyrir þokkalega afkomu í ýmsum greinum eins og rækjuiðnaði og veiðum uppsjávarfiska. Það bíður gríðarleg endurnýjunar- og fjárfestingarþörf í íslenska sjávarútveginum sem menn hafa ekki getað ráðist í vegna afkomunnar undanfarin ár og meðalaldur íslenska fiskiskipaflotans segir allt sem segja þarf um það mál.

Við skulum heldur ekki gleyma því að íslenskur sjávarútvegur er að keppa við ríkisstyrktar fiskvinnslur í nágrannalöndunum á sama tíma og iðnaðurinn að slepptum kannski skipaiðnaðinum, skipasmíðunum, býr við þokkalegar óbjagaðar samkeppnisforsendur. Svo er reyndar komið að rækjuverð er á niðurleið og birgðasöfnun í gangi og aukning í þorskkvóta eða veiðum er sýnd veiði en ekki gefin, a.m.k. í skilningi aukinna verðmæta inn í íslenska þjóðarbúið því margir óttast að verðfall og jafnvel sölutregða geti komið í kjörlfarið.

Mín niðurstaða, herra forseti, er sú að þessi umræða sé algerlega ótímabær. Það er langt í land að þær aðstæður séu að skapast í íslenskum sjávarútvegi að þar bóli á einhverju óviðráðanlegu góðæri sem koma verði böndum yfir til þess að iðnaðurinn fari ekki á hausinn. Þetta snýr þveröfugt. Það eru þvert á móti vissar greinar íslensks sjávarútvegs sem eiga núna í hvað mestum erfiðleikum. Ég tel a.m.k. að þeim þyki þessi umræða sérkennileg og ótímabær, forstöðumönnum fiskvinnslustöðvanna og frystihúsanna hringinn í kringum landið sem eru akkúrat þessar vikurnar að velta því fyrir sér hvort þeir eigi að loka húsunum vegna taprekstrar og segja fólkinu upp.