Iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 14:08:46 (5150)

1996-04-23 14:08:46# 120. lþ. 125.91 fundur 265#B iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[14:08]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það er mikilvægt að hugsa nokkuð til framtíðar þótt ýmsum þingmönnum reynist það býsna erfitt. Þorskaflaaukning um 50 þúsund tonn á næstu árum þýðir um 7 milljarða í viðbótarútflutningstekjur. Það eru tæp 10% af okkar útflutningi. Það er mjög mikilvægt að áhrif þessa búhnykks valdi því ekki að vaxtarbroddur t.d. iðnaðar sé kæfður með hækkandi raungengi eins og margoft hefur gerst í íslenskri hagsögu. Við verðum að hafa í huga að við breyttum efnahagsstefnunni 1990 en við höfum ekki breytt langtímahugsun okkar í efnahagsmálum í kjölfar þess. Það kom skýrt fram hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni sem dró upp lausnir gærdagsins við vandamálum framtíðarinnar og nákvæmlega þetta sama sjónarmið kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Ég harma stöðnunarhyggju þessara hv. þm. sem kemur hér svo skýrt í ljós. Það er mjög mikilvægt að hugsa til framtíðar. Veiðileyfagjald er ein aðferðafræði við það að reyna að mæta nýjum aðstæðum í hagstjórn sem er afleiðing af þjóðarsáttarsamningunum 1990. Við verðum að hafa það í huga að málið snýst um það að bæta hag sjávarútvegs og iðnaðar.

Vitaskuld á hagur sjávarútvegsfyrirtækja að batna og það verður að vera. En hérna er verið að gera tilraun bæði í þessari umræðu og m.a. með ábendingum iðnaðarins, að reyna að rífa menn út úr efnahagsstefnu fortíðarinnar. En það virðist ganga býsna seint.

Það kemur líka skýrt fram í þessari umræðu að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarþingmennirnir búa ekki yfir sýn eða hugmyndum til lengri tíma og það er miður.