Iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 14:12:35 (5152)

1996-04-23 14:12:35# 120. lþ. 125.91 fundur 265#B iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[14:12]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Sjávarútvegurinn hefur allt of oft og allt of lengi búið við óviðunandi rekstrarskilyrði. Skuldasöfnun í greininni er þess vegna fyrir löngu komin á hættulegt stig. Þess vegna er það mjög sérkennilegt að hlusta á umræður eins og þessar þegar menn loksins sjá út við sjónarrönd von um að það kunni að aukast aflaheimildir, að þá sé strax farið að reyna að skipta væntanlegu herfangi. Málið er einfaldlega þannig núna að það liggur ekki fyrir hverjar aflaheimildirnar verða á næsta ári. Samt sem áður eru menn farnir að tala um það hvernig eigi að skipta hugsanlegri tekjuaukningu í sjávarútvegi áður en það liggur fyrir hverjar aflaheimildirnar verða og löngu áður en farið er að reyna að veiða þennan fisk. Þetta er óskaplega sérkennileg umræða.

Það er þannig í sjávarútveginum í dag, að þrátt fyrir það að vonandi stefni í að aflaheimildirnar aukist, eru miklir erfiðleikar í stórum þáttum sjávarútvegsins svo sem í bolfiskvinnslunni. Menn þurfa ekki annað en hlusta á þær fréttir sem hafa verið að berast frá aðalfundum fyrirtækja sem hafa verið að vinna á þeim sviðum til þess að sjá það að þessir erfiðleikar eru því miður fráleitt að baki.

Menn hafa verið að vitna í mikla uppsveiflu í rækjuiðnaði og sem betur fer hefur hún átt sér stað. En aðeins fyrir örfáum árum bjó sú atvinnugrein við mikla erfiðleika og fram undan eru í þeirri atvinnugrein erfiðleikar vegna þess að verðlag hefur lækkað og birgðasöfnun er til staðar. Og birgðasöfnun og verðlækkun er líka að eiga sér stað á öðrum sviðum eins og t.d. í saltfiskverkun þar sem hefur þó verið um dálitla uppsveiflu að ræða. Sjávarútveginum veitir ekki af því að fá alla þá uppsveiflu og alla þá tekjuaukningu sem möguleg er til að geta greitt niður skuldir sem hafa safnast á greinina og taka þátt í því að auka fjárfestinguna sem allir hafa verið sammála um fram að þessu að þyrfti að aukast í þjóðfélaginu. Þess vegna er mjög undarlegt að hefja umræðu um það hvernig eigi að skipta hugsanlegri tekjuaukningu sjávarútvegsins án þess að hún komi til sjávarútvegsins sjálfs og tala um það sem sérstakt vandamál að tekjurnar geti hugsanlega aukist einhvern tíma í framtíðinni ofan í þá miklu erfiðleika sem hafa verið í sjávarútveginum. Ég mótmæli þess vegna hugmyndum um veiðileyfagjald og vek athygli á því að við erum núna að sigla vonandi út úr einhverri lengstu og verstu efnahagslægð sem við höfum farið inn í á þessari öld.