Iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 14:14:58 (5153)

1996-04-23 14:14:58# 120. lþ. 125.91 fundur 265#B iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[14:14]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Það er einhver versta sögufölsun sem hægt er að koma með þegar það er í síbylju endurtekið að sjávarútvegur Íslands hafi rústað iðnaðinum. Þetta er náttúrlega algerlega úr lausu lofti gripið. Það er eyðsluvandamál Íslendinga sem hefur rústað framleiðslunni og útflutningsgreinunum hvað eftir annað.

Mesta iðnaðarframleiðsla Íslands byggist á sjávarútvegi, þ.e. frysting og söltun sjávarafurða. Það er aðaliðnaður Íslands, það er bara ekki kallaður iðnaður. Það er sök sér þó maður verði að hlusta á ýmsa talsmenn iðnaðarins eða réttara sagt menn sem eru þar ráðnir til starfa, halda þessari síbylju og þessum ranghugmyndum fram, bæði í ræðum og riti. En það tekur steininn úr þegar þessi sjónarmið eiga fulltrúa á Alþingi sem koma og segja að mesta hagsmunamál Íslands og iðnaðarins sé að skattleggja héruðin, skattleggja byggðirnar sem lifa eingöngu á sjávarútveginum. Það er mikil misskipting á afkomu í sjávarútvegi. Engin hefur farið verr út úr þessari efnahagslægð en þeir sem byggja líf sitt allt á afkomu veiða og vinnslu á bolfiski. Það er stórkostlegt tap á þessum greinum, 5--6% tap, þannig að það liggur við auðn í þessum rekstri og það ógnar tilveru byggðanna. Nú hillir undir það að magnið aukist. Þá kemur hv. 4. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, og telur það mesta hagsmunamálið að fara nú að skattleggja þann landshluta sem er út af að deyja vegna þeirra aðstæðna sem hann lifir við. Það er ömurlegt og mætti halda að allt verði okkur að ógagni þegar við eigum slíka málsvara. (Gripið fram í: Þetta er bara útúrsnúningur.)