Iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 14:17:04 (5154)

1996-04-23 14:17:04# 120. lþ. 125.91 fundur 265#B iðnaður og uppsveifla í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[14:17]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er fjarri því að hér hafi menn verið að tala um það sem vandamál þótt uppsveifla verði í sjávarútvegi. Það eru útúrsnúningar hjá þeim sem það gera. Það sem verið er að biðja um er annars konar efnahagsstjórnum en sú sem hér hefur verið lýst og því miður er staðreynd að hefur rústað iðnaðinn reglulega. Það er staðreynd sem ekki verður umflúin, það segir sagan okkur. Við erum að biðja um annars konar efnahagsstjórnun. Við erum að biðja um fyrirhyggju og það að hér verði málum háttað þannig að atvinnugreinarnar fái þrifist hlið við hlið. Við viljum standa vörð um stöðugleikann.

Það er talað um að hefðbundin fiskvinnsla eigi í erfiðleikum og af því að hún eigi í erfiðleikum þá megi ekki leggja á veiðileyfagjald. En það er einu sinni svo að hefðbundin fiskvinnsla er auðvitað iðnaður og á þar heima og um það munum við ræða hér síðar í dag þegar einmitt skerst í odda með þeirri sem hér stendur og þeim sem mest tala um að ekki megi skattleggja sjávarútveginn en vilja flokka sjávarútveg sem iðnað. Það kemur að því síðar í umræðunni á hinu háa Alþingi.

Það er svo að menn vilja standa vörð um stöðugleikann og menn vilja umbuna því launafólki sem tók þátt í þjóðarsáttinni fyrir sex árum með betra atvinnulífi, fjölbreyttara atvinnulífi og með nýjum kostum í atvinnulífinu. Við viljum líka bæta atvinnulíf okkar og bæta lífsskilyrðin til að halda í unga fólkið í landinu. Það gerum við ekki með gamaldags efnahagsstjórnun, þeirri efnahagsstjórn sem því miður er völd að því að lífskjör á Íslandi eru í dag ekki merkilegri en þau eru.

Mér finnst að hæstv. iðnrh. hafi ekki komið með þau skilaboð til iðnaðarins sem ég hefi vænst. Hann segir það skoðun sína að hófleg aukning sjávarafla sé þannig að hægt sé að takast á við hana án sveiflujöfnunar. Þetta er ekki skoðun þeirra talsmanna iðnaðarins sem hér hafa verið að biðja um nýja sýn og hafa verið að biðja um nýja hagstjórn. Ég vænti þess að þrátt fyrir allt hafi hæstv. ráðherrann betri skilning á þessu máli en áðan kom fram í umræðunni.