Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 14:58:16 (5158)

1996-04-23 14:58:16# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[14:58]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá yfirlitsræðu sem hann hefur flutt við umræðuna. Þó að ég hafi ýmislegt við innihald hennar og efni að athuga þá tel ég þýðingarmikið að við höldum þeim sið að ræða utanríkismálin a.m.k. tvisvar á vetri eins og nú hefur verið tekið upp. En ég vil jafnframt gera athugasemd við að ekki skuli lengur vera lagðar fram skýrslur af hálfu utanrrn. um utanríkismál eins og var regla fyrir nokkrum árum eða fram til hausts 1993, þingsins 1993--1994, að hætt var þessari góðu venju. Ég hvet hæstv. utanrrh. til þess að taka það upp á nýjan leik að flytja þinginu slíka árlega skýrslu fyrir utan skýrslu sem varðar brýn málefni eða málefni sem koma upp ný á sviði utanríkismála. Ég held að hér hafi í rauninni orðið mistök af hálfu þings og framkvæmdarvalds að hætta þessari góðu venju. Það segir sig sjálft að hæstv. ráðherra getur ekki gert skil nema að takmörkuðu leyti því víðfeðma sviði sem honum er ætlað að fara yfir í ræðu og þýðingarmikið að þingið hafi aðgang að ítarlegri upplýsingum og gögnum þegar utanríkismálin eru til umræðu.

[15:00]

Ég vil nefna það að haustið 1991 þegar þessi mál voru rædd og þessi slæma breyting var gerð, þá var jafnframt um það rætt að fram yrðu lagðar skýrslur af hálfu utanrrn. um einstök efni og þær ræddar innan þingsins. En á því hafa ekki orðið efndir í reynd því að það eru aðeins tvær skýrslur frá þeim tíma sem síðan er liðinn, báðar lagðar fram í mars 1994, samkvæmt upplýsingum skrifstofu þingsins. Ég tel þetta vera þýðingarmikið mál og það er líka athugandi að taka það upp í þingsköpum að það verði fastur háttur á þessu að því er varðar skýrslugjöf um svo þýðingarmikinn þátt sem utanríkismálin eru.

Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að tengja þetta jafnframt ósk um að það verði athugað að hafa svipaðan hátt á að því er varðar umhverfismálin. Vissulega snerta umhverfismálin mjög náið utanríkisstefnu Íslendinga, þá á ég við umhverfismál í alþjóðlegu samhengi, og það er mjög nauðsynlegt að þau efni séu rædd skipulega á Alþingi og fylgst með því sem er að gerast. Ég vil jafnframt beina þessari ósk minni til hæstv. umhvrh. og bið þá virðulegan forseta að taka það til íhugunar í samvinnu við rétta aðila. Það er í þessu tilviki hæstv. umhvrh.

Í ræðu sinni stiklaði hæstv. utanrrh. á mörgum þáttum varðandi utanríkismál í 30 tölusettum liðum. Ég verð þó að segja að þrátt fyrir þessa yfirferð er stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að ýmsu leyti óljós. Ég mun takmarka mig við þrjá þætti aðallega á þeim tíma sem ég hef til umráða, þ.e. stefnuna gagnvart Evrópusambandinu og samskipti okkar við Evrópusambandið og tengd samtök, samvinnu okkar og samstarf á hernaðarsviði innan Atlantshafsbandalagsins og með hernaðarsamningnum við Bandaríkin sem nýlega hefur verið endurnýjaður og í síðasta lagi nokkur atriði um umhverfismálin sem ég nefndi hér áðan.

Það verður að segjast að í ræðu hæstv. utanrrh. er margt sem bendir til þess að hugur hans stefni að því að Ísland geti innan ekki langs tíma gerst aðili að Evrópusambandinu. Þetta segi ég þrátt fyrir það að hæstv. ráðherra segir í ræðu sinni að það mál sé ekki á dagskrá. En það er ljóst af þessari ræðu hæstv. ráðherra og fjölmörgum öðrum ummælum að ráðherrann telur það æskilegt markmið ef hægt er að ryðja því sem kallað er hindrun úr vegi þess að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Í þessu sambandi er þá einkum minnst á sjávarútvegsmálin sem sérstaka hindrun. Ég er algerlega ósammála þessu viðhorfi. Ég tel að það skipti afar miklu máli að menn tali skýrt í þessum efnum og ég er ekki að finna að því að hæstv. utanrrh. hefur talað býsna skýrt ef marka má þær útleggingar sem ég hef haft uppi um afstöðu hans.

Ég vek jafnframt athygli á því að af hálfu forustu ríkisstjórnarinnar, af hálfu hæstv. forsrh., kveður við allt annan tón, bæði varðandi mat á Evrópusambandinu og samrunaþróun þess og spurningunni um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég vil vekja athygli á kafla í ræðu hæstv. utanrrh. í þessu sambandi þar sem hann fjallar um stækkun Evrópusambandsins og segir, með leyfi forseta:

,,Stækkun Evrópusambandsins er í rökréttu samhengi við sögulega þróun þess og verður það ferli hvorki stöðvað né því snúið við. Evrópusambandið býr sig nú undir hugsanlega inngöngu nýrra aðildarríkja í Suður-, Mið- og Austur-Evrópu. Stækkun ESB hlýtur að stuðla enn frekar að friði, velmegun, öryggi og stöðugleika í álfunni. Við hljótum því að styðja þessa viðleitni eftir því sem okkur er unnt enda mun hún hafa áhrif á stöðu okkar í Evrópu framtíðarinnar. Mikilvægt er að Evrópusambandið gegni áfram leiðandi hlutverki í eflingu alþjóðlegrar fríverslunar.``

Þetta er mat hæstv. utanrrh. Íslands á Evrópusambandinu og samrunaferli þess og eins og menn sjá er það söguleg og æskileg þróun sem er þarna á ferðinni og hæstv. ráðherra hefur fullan hug á því að gerast þátttakandi í þessu fyrir Íslands hönd sé hægt að ýta hindrunum úr vegi sem hann telur að standi gegn því að við gerumst þar aðilar.

Ég vek athygli á því sem fram kemur hins vegar hjá hæstv. forsrh. í sunnudagsblaði Morgunblaðsins þann 14. apríl sl. þar sem hæstv. forsrh. ítrekar fyrri sjónarmið sín með mjög ákvarðandi hætti, mjög mikla gagnrýni á samrunaferli Evrópusambandsins eins og hann metur það og mjög ramma andstöðu gegn þeirri hugsun að Ísland gerist þar þátttakandi. Þarna er sem sagt uppi, virðulegur forseti, afar ólíkt mat á æskilegri þróun í þessu efni milli hæstv. utanrrh. annars vegar og hins vegar hæstv. forsrh. Ég gæti vitnað í þetta viðtal við hæstv. forsrh. en tel það raunar þarflaust þar sem það er nýlega fram komið og hefur verið rætt verulega. En hæstv. forsrh. talar þar einmitt um að ekki sé ástæða til að takmarka, eins og hann orðar það, okkar fullveldi enn frekar en orðið er með inngöngu í Evrópusambandið og missa yfirráð yfir okkar sjávarútvegi og margt fleira sem þar fylgir.

Ég vil einnig nefna í þessu sambandi aðildina að Schengen-samstarfinu þó að hún hafi verið rædd nýlega í þinginu. Það hefur komið fram og kemur fram í skýrslu ráðherra og hefur áður komið fram hjá hæstv. utanrrh. og er ítrekað hér, að hann er eindreginn stuðningsmaður þess enda hefur ríkisstjórnin og ákveðið svonefnda áheyrnaraðild. Það er hins vegar dregin fjöður yfir það hve náið þetta samstarf þó milliríkjasamstarf sé kallað, innviðum Evrópusambandsins og reglum þess. Þetta var dregið fram með mjög skýrum hætti m.a. af fréttaritara sjónvarpsins sem situr í Brussel, á þeim tíma sem ráðherrafundur Schengen stóð þar yfir. Þar var undirstrikað það mat fréttamannsins að með áheyrnaraðild að Schengen og samningi við Schengen, þá sé Ísland að gerast mun frekar en orðið var þátttakandi í samrunaferlinu í Evrópu, því eins og það var orðað í fréttaviðtali: Þótt sáttmálinn sé ekki hluti af Maastricht-sáttmála Evrópusambandsins um samruna aðildarríkjanna, þá einskorðast hann við þau og er í raun afar mikilvægur áfangi í samrunaferlinu og markmiðunum um landamæralausan innri markað. Þetta samstarf sem þarna er verið að leiða Íslendinga inn í til þess að viðhalda norræna vegabréfasambandinu eins og það er kallað, hefur fjölmarga annmarka í för með sér sem ég dró fram þegar rædd var skýrsla hæstv. dómsmrh. og utanrrh. hér nýlega á Alþingi. Þó að hæstv. utanrrh. telji að vel sé gengið frá stöðu Íslands í þessu samstarfi, þá sjá menn hver staðan er ef Schengen-ríkjunum hentar --- og Ísland er ekki eitt af þeim --- ef Schengen-ríkjunum hentar að taka ákvarðanir sem eru mótdrægar okkur Íslendingum, þá eigum við aðeins um tvo kosti að velja: Að samþykkja nauðugir eða segja okkur frá. Og þá er allt fyrir gýg unnið að því er varðar vegabréfafrelsið rómaða. En hin atriðin sem tengjast þessu máli, þar á meðal hin mikla persónuupplýsingasöfnun sem á að koma í staðinn fyrir innri landamæri og landamæraeftirlit með persónum á landamærum Schengen-samstarfsríkjanna, eru kafli út af fyrir sig sem ég ætla ekki að gera frekar hér að umræðuefni.

Einn þáttur þessa máls er kostnaðarþátturinn og þar blasir það við að um afar losaralegt mat er að ræða enn sem komið er á kostnaði Íslendinga við þetta samstarf þannig að munar margföldun. Það hafa komið fram tölur sem gera ráð fyrir einum milljarði og það hefur verið reiknað niður í 150 millj. að því er varðar breytingar í flugstöðinni í Keflavík sem þurfa að koma til vegna þessa samstarfs. Ég held að það sé varlegt að treysta þessum útreikningum öllum sem þarna eru uppi. Og ég hef fyrir því orð starfsmanna innan flugstöðvarinnar í Keflavík að í rauninni þori menn ekki þar að segja hug sinn til þeirra hugmynda sem þarna eru uppi af ótta við afleiðingar vegna starfa sinna og stöðu og það er eitt út af fyrir sig auðvitað áhyggjuefni þegar aðstæður eru þannig. Ég hvet þingið til þess að vera vakandi í þessum málum og fara ofan í þetta Schengen-mál með gagnrýnum huga því að þar er sannarlega ekki allt sem sýnist.

Virðulegur forseti. Evrópusambandinu fylgja fjölmargir stórir þættir sem hver út af fyrir sig kallaði á umræðu á Alþingi, jafnsamtvinnaðir og við erum orðnir þessu samstarfi í gegnum samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Þetta samstarf innan Evrópusambandsins er á fullri ferð og hafin er ríkjaráðstefna þátttökuríkja, aðildarríkja þess og þaðan getur verið stórra tíðinda að vænta. Með Maastricht-sáttmálanum voru teknar ákvarðanir um efnahags- og myntsamband á vegum Evrópusambandsins sem á að ganga í gildi þegar árið 1999. Það setur hroll að fjölmörgum stjórnmálamönnum álfunnar þegar þeir hugsa til þess dags er þetta efnahags- og myntsamband gengur í gildi með þeim afleiðingum sem það hefur fyrir viðkomandi ríki. Það er mjög sérkennilegt að lesa það m.a. í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins þann 14. apríl sl. að það hljóti að koma mjög til álita fyrir okkur Íslendinga hvort við getum staðið utan við ramma Evrópusambandsins þegar að því kemur að gengið verði frá þessu efnahags- og myntsamstarfi og það gangi fram fyrir aldamót.

Ég held að við Íslendingar þurfum að endurskoða alla okkar siglingu og samstarf að því er varðar tengslin við Evrópusambandið og alveg sérstaklega að ræða þau stórkostlegu álitamál sem uppi eru varðandi frekari þátttöku okkar í þessu samrunaferli. Evrópusambandið er að verða eins konar atvinnuleysissamband sem kunnugt er. Þar hefur atvinnuleysi farið vaxandi ár frá ári á undanförnum áratug og nú er svo komið að að meðaltali er atvinnuleysi innan Evrópusambandsins nálægt 11% eða um 20 millj. atvinnulausra. Það er misjafnt eftir löndum, alls staðar allmikið en auðvitað hvað mest á Spáni og í fleiri ríkjum þar sem atvinnuleysið er nálægt 20% og hjá ungu fólki mældist það hvorki meira né minna en 22% á árinu 1994.

Efnahags- og myntbandalag eða samband mun enn auka á atvinnuleysið. Þar greinir sérfræðinga og hagfræðinga tæpast á að þau markmið sem þátttökuríkjunum er ætlað að uppfylla með þessu samstarfi munu draga úr möguleikum þátttökuríkjanna til þess að vinna gegn atvinnuleysinu. Hér er um að ræða stórkostlegan vágest og mikla hættu fyrir öryggi Evrópu í reynd því að það þarf ekki að eyða mörgum orðum að því að atvinnuleysi í þeim hæðum sem hér um ræðir hlýtur að veikja alla innviði samstarfs í Evrópu. Þurfa menn ekki annað en líta til þess sem var að gerast í Frakklandi í desembermánuði sl. þegar upp úr sauð þar á vinnumarkaði. Það er kannski aðeins lítið sýnishorn af því sem vænta má vegna þeirrar þróunar sem þarna er orðin og þar sem ekki eru neinar vísbendingar um það að aftur verði snúið. Yfirlýsingar sem koma frá jafnt forráðamönnum Evrópusambandsins sjálfs sem og einstökum forustumönnum ríkja, stjórnmálamönnum, virðast í reynd vera innantóm orð. Á þessu, virðulegur forseti, er nauðsynlegt að vekja athygli þegar hér liggur fyrir það mjög svo jákvæða mat sem hæstv. utanrrh. dregur upp af þróun Evrópusambandsins og útilokar engan veginn að Ísland geti slegist í þann hóp.

Virðulegur forseti. Nokkur orð um svokölluð öryggismál og samstarf Íslands innan Atlantshafsbandalagsins og hernaðarsamvinnuna við Bandaríkin. Hér fór fram sl. föstudag afar fróðleg umræða vegna frv. sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ásamt sjö öðrum þingmönnum hefur lagt fram um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við kjarnorkuknúnum farartækjum.

[15:15]

Í hópi flutningsmanna þessa máls eru ekki andstæðingar að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu nema að hluta til. Þar er að finna m.a. tvo þingmenn Alþfl., þá hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson sem eru meðal meðflutningsmanna og hafa mér vitanlega ekki verið taldir upp á síðkastið a.m.k. í hópi andstæðinga NATO. En nú kemur hæstv. utanrrh. og kveður upp úr um það sl. föstudag að samþykkt þessa máls og að greiða götu þess hér jafngildi það að Ísland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu, úrsögn úr NATO. Það eru skilaboð hæstv. ráðherra við frv. þar sem voru meðal meðflm. fyrir fáum árum formaður hans eigin flokks, Steingrímur Hermannsson, og núverandi hæstv. félmrh. Páll Pétursson. Það eru þeir sem fá þessar kveðjur. Þeir hafa látið veðdraga sig til þess inn á flutning máls sem felur þetta í sér að mati hæstv. utanrrh. Ég vek athygli á þessu vegna þess að mér sýnist að hæstv. utanrrh. gerist í raun kaþólskari en páfinn í þessum efnum. Hann gengur fram fyrir skjöldu með dómsuppkvaðningar að því leyti að Ísland geti ekki markað stefnu eins og felst í þessu frv., að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum, því það stangast á við aðildina að Atlantshafsbandalaginu.

Nú er það vissulega rétt hjá hæstv. ráðherra að Atlantshafsbandalagið byggir sína hernaðarstefnu á kjarnorkuvopnum og fælingarstefnu sem svo er kölluð sem áskilur bandalaginu að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Og það er þessi stefna sem Alþb. er og hefur verið andvígt. Friður verður ekki tryggður með því að halda á vopni og halda áfram að veifa ógnarvopnum, einnig eftir að samið hefur verið um víðtæka afvopnun og óvinurinn er það víðs fjarri að Atlantshafsbandalagið hefur verið í vandræðum með að finna hann síðan 1990.

Ég held líka að hið sama gildi um hernaðarsamstarf Íslands við Bandaríkin. Nú hefur hæstv. utanrrh. fyrir hönd ríkisstjórnar framlengt þennan herstöðvasamning til fimm ára, herstöðvasamning sem felur í sér að viðhaldið er hernaðarmætti að vissu marki í Keflavíkurherstöðinni samkvæmt sérstökum óskum Íslands. Samkvæmt sérstökum óskum Íslands skal þar vera orrustuflugsveit og annar viðbúnaður og hér eiga að fara fram heræfingar ekki síður en áður var meðan kalda stríðið var í fullum gangi, Northen Viking eða hvað það heitir, og það á að tengja þetta í auknum mæli við innlendar stofnanir. Þessa stefnu gagnrýni ég harðlega og tel hana í engu samræmi við þá þróun sem verið hefur á alþjóðavettvangi. Það sem er hér á ferðinni er raunverulega að Íslendingar verða áfram með betlistafinn að ganga lengra en Bandaríkin kjósa í sambandi við viðbúnað í Keflavík í efnahagslegum tilgangi fyrst og fremst. Það er því miður ekki bara í þessu efni þar sem betlistafurinn er á lofti því að einnig í sambandi við kostnaðinn af Schengen-þátttöku hafa þingmenn Framsfl. orðað það hvort ekki væri hægt að fá einhverja til að borga fyrir okkur eins og hv. 4. þm. Reykn. orðaði það á ráðstefnu í Keflavík 23. febrúar sl. Þetta sjónarmið er víðar að finna innan Framsfl. en hjá hæstv. utanrrh.

Virðulegur forseti. Ég ætla að lokum að víkja fáeinum orðum að umhverfismálunum, stöðu þeirra og aðild okkar Íslendinga að þeim þýðingarmiklu málum á alþjóðavettvangi. Það eru sannarlega fjölmargar blikur á lofti að því er varðar framtíð mannkynsins á þessari jörð og framtíð alls lífs á þessari jörð vegna þeirrar þróunar sem er í umhverfismálum. En það er varla eytt orði að þessum málum í ræðu hæstv. ráðherra. Út af fyrir sig má finna skýringar á því vegna knapps tíma þessarar umræðu. En eftir að Ríó-ráðstefnan var haldin 1992 vöknuðu vonir um það að heimsbyggðin mundi taka við sér í sambandi við þá váboða sem uppi eru en þess sjást því miður sáralítil merki í reynd. Váboðarnir halda áfram að hlaðast upp og ríkisstjórnir draga við sig að taka undir og framkvæma ákvæði þeirra sáttmála sem þær þó undirgengust í Rio de Janeiro. Hér eru engin gamanmál á ferðinni. Hér eru engin mál sem menn geta í eiginhagsmunaskyni dregið við sig vegna þess að einhverjir aðrir leysi þau fyrir okkur. Menn fá þetta yfir sig, mannkynið í heild, umhverfi jarðar í heild ef svo heldur fram sem horfir.

Váboðunum er stöðugt að fjölga. Ég nefni aðeins eitt atriði sem er nýlega komið fram í bók sem heitir ,,Our Stolen Future`` og var að koma út með formála eftir Al Gore, núverandi varaforseta Bandaríkjanna. Þar er að finna vísbendingar um það að vegna þrávirkra efna sé að draga úr viðgangsmöguleikum manna frá ári til árs, framleiðsla karla á sæðisfrumum hafi minnkað um 50% á tilteknu tímabili og haldi áfram að minnka um 2% frá ári til árs og krabbamein í innkirtlum fari vaxandi að líkindum af sömu ástæðum. Ég nefni þetta hér sem eitt dæmi, nýtt dæmi sem komið er inn í umræðuna um þann hrikalega voða sem við erum að safna að höfði okkar vegna andvaraleysis í umhverfismálum.

Virðulegur forseti. Ráðandi hagstjórn í heiminum stefnir umhverfinu og framtíð mannkyns í voða. Hinn efnahagslegi hagvöxtur sem meginleiðarljós og neysla á neyslu ofan og samkeppni sem gengur út yfir allt tillit við umhverfið, samkeppni í vöruframleiðslu og vörudreifingu sem bitnar á umhverfinu, náttúruauðlindum og svo er mengun sífellt að bætast við. Það er þetta sem veldur því að það er svart fram undan ef svo heldur fram sem horfir. Þar er mannkynið allt undir og þar eigum við allt í húfi sem byggjum þessa jörð að ekki sé talað um afkomendur okkar.

Virðulegur forseti. Ég hefði viljað ræða mun ítarlegar um þessi efni og ekki síst þennan síðasta þátt, en tími minn er þrotinn. Ég tek e.t.v. þátt í þessari umræðu síðar og hef hér komið á framfæri nokkrum ábendingum sem ég tel að við þurfum að ræða í tengslum við utanríkismál á þessari stundu.