Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 17:13:12 (5167)

1996-04-23 17:13:12# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[17:13]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er nú alls ekki þannig að ég sé að snupra hæstv. forsrh. Ég las hins vegar þetta Morgunblaðsviðtal og sá þar að hæstv. forsrh. er mjög neikvæður gagnvart aðild að Evrópusambandinu. Hann verður að hafa sínar skoðanir á því en ég er alls ekki að snupra hann fyrir skoðanir hans. Fólk má hafa sínar skoðanir í friði.

Ég tel að við eigum að skoða kosti og galla Evrópusambandsins vel. Ég hef verið að reyna að gera það sjálf eftir bestu getu. Ég er hins vegar ekki komin svo langt í mótun minnar skoðunar að ég geti kveðið upp úr með það hér og nú hvort við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu og hvenær það ætti að vera. Ég vil sjá hvernig ríkjaráðstefnan þróast. Ég bind ákveðnar vonir við hana. Ef hún verður til þess að Evrópusambandið verður lýðræðislegra finnst mér verulega ástæða til þess að við skoðum hugsanlega aðildarumsókn.

Varðandi öryggi í Evrópu tel ég auðvitað mikilvægast að austantjaldslöndin og Mið-Evrópulöndin fari í Evrópusambandið. Þar er einmitt mesta óöryggið. Ég held að það mundi ekki breyta mjög örygginu í Evrópu þótt Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu.

Varðandi norska embættismenn gætti nokkurs misskilnings í spurningu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Ég var þar að vitna til Evrópuráðstefnu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn en ekki til ráðstefnunnar í Torino. Ég veit því miður ekki hvað Norðmenn eru með marga embættismenn í Torino þannig að ég get ekki tjáð mig neitt um það. En það var mjög áberandi á þessari ráðstefnu í Kaupmannahöfn hvað Norðmenn voru þar með marga embættismenn. Það er auðvitað stutt fyrir þá að fara en maður fær sterklega á tilfinninguna að hugsanlega kunni þá innst inni að svíða að hafa ekki gerst aðilar að Evrópusambandinu.