Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 17:20:36 (5170)

1996-04-23 17:20:36# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[17:20]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér var spurt: Tryggja varnir landsins gegn hverjum? Það er að minnsta kosti ljóst að hv. þm. hefur aldrei heyrt minnst á neitt sem heitir Sovétríkin og Rússland. Við vitum ekkert hvernig mál þar þróast í framtíðinni. Það er alveg hugsanlegt að okkur standi ógn af því svæði, það er alveg hugsanlegt þannig að ég tel Rússland ... (Gripið fram í.) ég vona að hv. þingmenn sperri eyrun og hlusti.

Varðandi atvinnumál á Suðurnesjunum sagði ég í ræðu minni að það þyrfti að skoða þau mál vegna afnáms einkaleyfis Íslenskra aðalverktaka og Keflavíkurverktaka á framkvæmdum. Ég sagði frá hvað markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Suðurnesja væri að gera jákvæða hluti. Það voru mín orð þannig að það hefur gætt einhvers misskilnings í skilningi hv. þm. á orðum mínum áðan.

Vegna Schengen-málsins er það alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að ég var óviss í upphafi um það mál vegna þess að kostnaðurinn átti að vera um það bil milljarður. Það kom mér verulega á óvart hvað það átti að vera kostnaðarsamt að byggja upp Keflavíkurflugvöll einungis vegna Schengen. En síðan þegar farið var að skoða þær teikningar eða þær kröfur sem þar voru gerðar, þá var hægt að lækka þennan kostnað verulega þannig að nú er ljóst að kostnaðurinn er um 250 millj. Ég get að sjálfsögðu ekki svarað því hvort sá kostnaður verður hærri á endanum og hef engar forsendur til þess. En sú faglega ráðgöf sem við höfum þó fengið hingað til hljóðar upp á að þetta muni kosta um það bil 250 millj. og þess vegna er ég mun jákvæðari gegnvart aðild að Schengen eftir að hafa heyrt þá tölu.