Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 17:22:51 (5171)

1996-04-23 17:22:51# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[17:22]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Spurningin um aðildina að Schengen er greinilega peningamál í huga hv. þm. Ég tel að þetta sé fyrst og fremst pólitískt mál, spurningin um pólitísk tengsl og hvernig á þeim er haldið og hvernig innviðir þessa Schengen-samstarfs eru. En það er skynsamlegt hjá hv. þm. að hafa varnagla varðandi upphæðina því að þar eru áreiðanlega ekki kurl komin til grafar.

En varðandi varnirnar sem hv. þm. formaður Framsfl. reyndi að aðstoða þingmann sinn Siv Friðleifsdóttur að finna botn í, þá kom fram hjá hv. þm. að þar lifir Rússagrýla góðu lífi í huga hv. þm. löngu eftir að aðalandstæðingurinn, risaveldið í vestri, hefur lýst því yfir að frá Rússlandi stafi engin hætta að þeirra mati. En hv. þm. heldur því fram sem meginrökum fyrir því að haldið er uppi hernaðarviðbúnaði í Keflavík séu Sovétríkin eins og hv. þm. sagði, væntanlega þá afturgengin, eða Rússland.

Hér komum við, virðulegur forseti, einmitt inn á það sem býr í huga margra sem sakna kalda stríðsins, stuðningsmanna Atlantshafsbandalagsins og herstöðvarinnar í Keflavík og eru ekki eins hreinskilnir eins og Bandaríkjamenn en eru enn þá að leita að óvininum og grípa þá í gamla hálmstráið alveg burt séð frá því hvað hefur gerst á þeim tíma sem liðinn er. Þetta er mjög athyglisvert en hitt kann líka að vera að það verði niðurstaðan að byggt verði upp nýtt járntjald í Evrópu fyrir tilverknað Atlantshafsbandalagsins og þeirra sem þar bíta í skjaldarrendur með því að króa Rússland af í stað þess að reyna að treysta böndin og koma í veg fyrir að Evrópa skiptist á nýjan leik upp í tvær hagsmunaheildir þar sem hernaðarátök eru ekki útilokuð í framtíðinni.