Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 17:25:15 (5172)

1996-04-23 17:25:15# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[17:25]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alls ekki þannig að ég sakni kalda stríðsins. Ég tók Rússland einungis sem dæmi. Ég tel að það sé eðlilegt að við höfum varnir á Íslandi. Við höfum ekki her. Við höfum samning við Bandaríkjamenn um okkar varnir þannig að ég fagna þeim samningi sem utanrrh. okkar hefur náð fyrir okkar hönd til fimm ára og tel hann eðlilegan.

Varðandi Schengen-málið er ekki rétt að ég telji þetta einungis peningamál, alls ekki. Þetta er að sjálfsögðu líka pólitískt mál. Hins vegar finnst mér í ljósi þess hvernig fjárhagsstaða okkar er á Íslandi í dag að milljarður í uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli vegna Schengen fannst mér vera nokkuð há upphæð sem olli því að mér fannst óvíst hvort við ættum að fara út í Schengen vegna kostnaðar. Hins vegar aftók ég það aldrei að þótt við hefðum þurft að borga milljarð að við færum í Schengen. En það skiptir verulegu máli. Við erum í vissum aðhaldsaðgerðum í fjárlögum ríkisins þannig að milljarður vegna Schengen fannst mér sjokkerandi há upphæð.