Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 17:44:39 (5175)

1996-04-23 17:44:39# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[17:44]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. segir að áhuginn á því að hafa hér herinn sé ekki eingöngu íslenskur heldur sé þetta almenn skoðun innan Atlantshafsbandalagsins. Sem sagt: Hér skal vera her þótt enginn finnist óvinurinn. Nú er hins vegar vitað að t.d. innan Bandaríkjahers eru mjög skiptar skoðanir um það hvort það þurfi yfir höfuð að vera að hafa hér her og herstöð. Ég læt mér nægja að vitna þar í hinar frægu fréttir Morgunblaðsins, sem sendi fremsta rannsóknarblaðamann sinn, Agnesi Bragadóttur, til Bandaríkjanna og birti miklar fréttir af því að ákveðnar deildir Bandaríkjahers væru orðnar þeirrar skoðunar að það væri bara peningasóun að vera að reka þessa herstöð uppi á Íslandi.

[17:45]

Það kann að vera að eftir sem áður séu ákveðin öfl innan Bandaríkjanna sem vilja halda hér í einhvern viðbúnað. En margir fræðimenn á þessu sviði telja að áhugi Bandaríkjahers og NATO eins og komið er standi fyrst og fremst til þess að hér sé tiltæk ákveðin aðstaða. Menn sjái í sjálfu sér enga sérstaka þörf á því að halda hér úti her eða hafa hér árásarvopn geymd á hverjum tíma. Það liggur fyrir að áhersla íslenskra aðila á það að hér séu orrustuþotur, er í og með sprottin af því að þeim fylgja björgunarþyrlur og ákveðinn annar viðbúnaður. Það er ljóst að ef Bandaríkjamenn hefðu stigið skrefið til fulls og sent síðustu orrustuþoturnar heim eins og fréttir komu um að vestan að væri áhugi á, þá hefði ýmis annar viðbúnaður farið með. Þetta birtist mönnum þannig að það hafi verið það sem Íslendingar hafi verið að reyna að koma í veg fyrir með sendiferðum sínum vestur um haf og samningaumleitunum. Að það samrýmist ekki veru okkar í NATO að friðlýsa Ísland, þó að hér séu ekki kjarnorkuvopn og eigi aldrei að verða, er þversögn sem hæstv. utanrrh. þarf að útskýra betur fyrir okkur. Og líka þá það hvort að NATO eigi að ráða þessu. Er það þá þannig að Íslendingar hafi með aðild sinni að NATO afsalað sér sjálfstæði t.d. varðandi þætti eins og að friðlýsa sína lögsögu? Hvar liggur það? Í hverju felst það? Er það þá þrátt fyrir allt þannig að enn sé uppi á borðinu sú stefna NATO sem við erum nauðbeygðir til að undirgangast og felur í sér að NATO megi gera sín stríðsplön miðað við það að nota einnig íslenskt yfirráðasvæði hvað kjarnorkuvígbúnað snertir, eða hvað?