Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 17:49:49 (5177)

1996-04-23 17:49:49# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[17:49]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Skyldu þau nú ekki hafa veitt þeim öryggi á sínum tíma í Bosníu, öll vopnin sem þar voru? Ætli sagan kenni okkur ekki að það er ekki endilega þannig sem menn verða öruggastir og lifa helst af, að hrúga utan um sig vopnum og vígtólum? Ef það er eitthvað sem hægt er að læra af gangi mannkynssögunnar þá held ég að það sé fyrst og fremst það að vopn hafa á endanum tilhneigingu til þess að þau séu notuð. Það er bara þannig enda liggur það í eðli málsins að þannig er. Sjálf hugsunin á bak við þau hlýtur að fela það í sér að það er tilgangslaust að vera með þau nema jafnframt fylgi vilji til að nota þau. Ég er ekkert að mæla fyrir því að Íslendingar hafi ekki lögreglu eða einhvern viðbúnað til að gæta t.d. landamæra sinna á þessum eina millilandaflugvelli sem við höfum og einu höfn þar sem koma farþegaskip. Það er nú ekki mjög flókið mál satt best að segja. Það má aðeins á milli vera hvort hér er samningsbundið að séu t.d. fjórar F-16 orrustuþotur hið minnsta sem geta borið hin fjölbreytilegustu vígtól eða hins að hér sé haldið uppi einhverri öryggisgæslu og eftirliti, hér sé lögregla og annað því um líkt sem á að geta tekið við því sem að gæti steðjað og ekki flokkast undir meiri háttar árásir eða hernað.

Varðandi trú á löggjöf þá held ég að það sé alveg augljóst mál að friðlýsing með löggjöf, víðtækri löggjöf gæfi stöðu Íslands í þessu efni allt annan svip en sú einfalda þingsályktun sem fyrir liggur og er í raun og veru eina opinbera samþykktin um það að hér skuli ekki vera kjarnorkuvopn. Ágæt sem sú samþykkt er þá er auðvitað augljóst mál að ef þetta væri fest í lög og helst í stjórnarskrá sem ég vildi sjá að gerðist, að í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins kæmu ákvæði sem bönnuðu hér um aldur og ævi og alltaf kjarnorkuvopn og eiturefnavopn, umferð kjarnorkuknúinna farartækja og annað því um líkt, þá er það allt annar frágangur á málinu hvað sem menn svo segja um stöðuna út á við og möguleika okkar til þess að fá aðra til að bera virðingu fyrir slíkum samþykktum. Við munum sem smáþjóð hvort sem er ekkert ráða neinu í þeim efnum og það má alveg færa fyrir því rök að okkar sterkasta vörn sé sú að reyna jafnan að tefla fram friðsamlegum aðferðum og lausnum í deilumálum en ekki ofbeldinu og valdinu, vegna þess að þar hljótum við alltaf að verða undir. Þar verða smáþjóðirnar undir, það er svo einfalt mál. Þess vegna ber þeim að vera boðberar friðsamlegra lausna í deilumálum þjóða umfram öllum öðrum.