Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 17:53:13 (5178)

1996-04-23 17:53:13# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[17:53]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég má til í upphafi máls míns að lýsa yfir sérstakri ánægju minni með að yngstu konurnar á Alþingi hafa verið virkar í þessari umræðu. Það er athyglisvert að báðar fengu þær andsvör við ræðum sínum, einmitt vegna viðhorfa um Evrópusamstarf. Ég verð að segja eins og er að þessar ungu konur hafa þorað að setja fram persónulega skoðun sína og sannfæringu og ég vil sérstaklega þakka þeim fyrir þessar ræður. Mér finnst felast styrkur í því á hvern hátt þær fóru í umræðuna. Ég minnist daga í umræðum um utanríkismál á Alþingi þegar afar fáar konur tóku þátt í umræðunum. Sem betur fer hefur umræðan breikkað og þátttaka kvenna í henni aukist. Sjálf ætla ég ekki að fjalla um Evrópusambandið en ég hef sömu skoðun og annar þessara ungu þingmanna sem ég er að vísa til, nefnilega að við eigum að láta reyna á það með umsókn hvað er í boði fyrir okkur og taka síðan afstöðu.

Virðulegi forseti. Það er stiklað á stóru í þessari skýrslu. Það er víða komið við og þess vegna hægt að fara inn á mörg ólík svið í utanríkismálum og einmitt vegna eðlis umræðunnar, að við fáum afmarkaðan tíma hvert og eitt, þá er hætt við að í samfellu fari umræðan nokkuð út um víðan völl þar sem frá einum ræðumanni til annars er farið inn á gjörólík svið. Ég hefði e.t.v. valið að fara að einhverju leyti í umræðu um Norðurlandaráð. Ég ætla ekki að gera það. Það hafa verið gerðar mjög miklar skipulagsbreytingar á starfsemi ráðsins og ég bíð átekta eftir því hvernig þau mál munu þróast. Ég var ekki svo afskaplega bjartsýn á að það væri rétta leiðin að gera breytingar á Norðurlandaráði en ætla mér ekki að setja fram neina frekari skoðun á því hér og nú. En mig langar að fara örfáum orðum um samstarf sem Norðurlandaráð hefur beitt sér fyrir og var upprunalega tillaga hæstv. utanrrh., en það er samstarf á heimskautasvæðum. Nú hafa tvær ráðstefnur verið haldnar um þetta mál. Sú fyrri í Reykjavík og sú síðari í Kanada í Yellowknife. Ég bind miklar vonir við þetta samstarf og tel að það muni hafa þýðingu fyrir okkur. Þar sem ég sat báðar þessar ráðstefnur vil ég sérstaklega geta þess að það var alveg ljóst að það var hlustað á ráðstefnunni í Yellowknife á rödd Íslands og afstöðu Íslands og að formaður Norðurlandanefndarinnar sem undirbjó ráðstefnuna, Geir H. Haarde, var okkur mjög styrkur fulltrúi.

Ég veit ekki hvort það hefur komið fram í umræðunni fyrr í dag að Rússland bauð til þingmannafundar í Salekhard, minnir mig, í síðasta lagi árið 1998 og það er mikill vilji fyrir því að þingmenn hittist áfram þó að það sé í raun og veru eingöngu verið að tala um ríkisstjórnarsamstarf þegar verið er að tala um heimskautaráð. Það ríkisstjórnarsamstarf var staðfest í Inuvik skömmu eftir fundinn í Yellowknife. Það er alveg ljóst að þingmannafundurinn vill þingmannastarf og nána samvinnu milli fastanefndar Norðurlandaráðs og heimskautaráðsins fyrirhugaða. Það var mjög slæmt á þessari ráðstefnu að fulltrúi Bandaríkjanna mætti ekki. Það voru boðuð forföll en ég held að viðstaddir hafi talið að það væri ekki forföll heldur ekki vilji til að vera með.

Það er enginn vafi á því að það eru miklir hagsmunir okkar að fá öflugt samstarf á norðurslóð. Vísindarannsóknir í þessum heimshluta eru mikilvægar hvort heldur er til lands eða sjávar. Það er líka athyglisvert fyrir okkur að hlusta á raddir fulltrúa frumbyggja frá hverju landi og þeirrar reynslu sem þetta fólk miðlaði um afleiðingu mengunar. Þar kom fram að neysluvenjur þessa fólks eru mjög ólíkar neysluvenjum okkar og þau eru hætt að geta nýtt margar afurðir vegna mengunar. Einnig kom það fram að bæði land- og sjávardýr eru að hverfa af ákveðnum svæðum.

Ég vil líka sérstaklega geta þess af því í umræðunni hér er getið um alþjóðasamninga og þátt kvenna, að eitt af fjölmörgum atriðum sem samþykkt voru á þessum fundi var að í samvinnu við frumbyggja frá ýmsum svæðum heimskautasvæðisins verði þróuð margvísleg samstarfsverkefni og starfsemi á menningar- og sögulegu sviði og stuðlað að réttindum sem byggja á mannlegu gildi og fræðslu og eflingu félagslegra og efnahagslegra aðstæðna frumbyggja með sérstakri áherslu á þátttöku og framlagi kvenna. Þetta skiptir frumbyggjakonurnar miklu.

Virðulegi forseti. Ég mun í minni umfjöllun um utanríkismál fyrst og fremst huga að mannréttindamálunum og ég legg áherslu á að þó ég víki að ákveðnum löndum þá eigum við vissulega að láta í okkur heyra og til okkar taka alls staðar þar sem mannréttindi eru fótum troðin. Í skýrslunni er getið um friðar- og uppbyggingarstarf í Bosníu og þar segir að þjóðir leggist á eitt við að reisa Bosníu úr rústum eftir ófriðinn og gera henni kleift að taka sæti sem eitt af sjálfstæðum ríkjum Evrópu. Við tökum öll undir það. En það vekur mann til umhugsunar um hlut Íslands. Það er mjög gott að veita 110 millj. til uppbyggingarinnar. Við erum þá sambærileg við aðrar þjóðir. En mig langar að spyrja um annan stuðning. Við fjöllum allt of sjaldan um flóttamannavandamálið. Í tíð fyrrv. ríkisstjórnar var sett á laggir flóttamannaráð og það var endurnýjað að einhverju leyti með nýju fólki á vegum núverandi ríkisstjórnar. Þetta flóttamannaráð átti að hafa alhliða verkefni. Ákveðin stefnumörkun hafði verið sett fram um að taka árlega á móti 15--25 flóttamönnum.

[18:00]

Á sl. hausti setti flóttamannaráð fram tillögu í tveimur liðum. Í fyrsta lagi átti að taka á móti 15--25 manns á ári, svona 4--6 fjölskyldum og einhverjum einstaklingum, og í öðru lagi átti vegna vanda Bosníu að taka á móti allt að 30 manns svo fljótt sem auðið yrði. Ég minnist þess að hafa heyrt félmrh. koma fram með tillögu um að það kæmu allt að 25 Bosníubúar hingað og færu e.t.v. allir til Ísafjarðar. Ég hef ekki heyrt hvort ríkisstjórnin hefur sett fram stefnumörkun um árlegan kvóta og ég spyr utanrrh. hvort ríkisstjórnin ætli að bjóða upp á árlegan kvóta hingað.

Félmrh. hefur lýst því yfir að á meðan hann er í þessu embætti muni hann sjá til þess að hingað komi viss fjöldi árlega. En hvað með ríkisstjórnina? Það væri áhugavert að heyra um áform ríkisstjórnarinnar fyrir þetta kjörtímabil og hvernig á að standa að flóttamannamálunum, t.d. varðandi Rauða krossinn. Verður honum áfram falið að sjá um móttöku þessa fólks eða á að fela Ísfirðingum þetta mál? Það hef ég líka heyrt. Aðstoð við flóttafólk hefur hingað til verið af hálfu Rauða krossins þegar fólk hefur komið til búsetu og það hefur verið gott form. Rauði krossinn tók að sér afar mikilvægan þátt þegar Víetnamflóttafólkið kom um árið og skapaði sér ný heimkynni hér á Íslandi. Þá komu sjálfboðaliðar til liðs við Rauða krossinn til að mæta félagslegum og oft tilfinningalegum þörfum fjölskyldna og einstaklinga sem komin voru svo langt frá ættjörð sinni. Þá var stofnað til vináttu sem hefur staðið til fjölda ára í mörgum tilfellum. Ég hef átt viðræður við fólk sem starfar hjá Rauða krossinum og því sýnist að það sé óljóst núna hvernig staðið verði að málum. Svæðisskrifstofa Rauða krossins á Norðurlöndum, staðsett í Svíþjóð, hefur unnið gott starf og hefði gjarnan haft milligöngu um að fólk kæmi hingað frá Bosníu. Það var ekki notuð sú leið heldur var ákveðið að fara í gegnum Genf og á málinu hefur orðið mikil töf. Ég veit að það hefur verið rekið eftir því hjá Rauða krossinum að aðilar í Svíþjóð reyndu að ýta á þessi mál og þeir segja að það sé mjög mikil þörf þar, sérstaklega fyrir fólk í blönduðum hjónaböndum. Mér finnst mjög mikilvægt að frjáls félagasamtök og fólkið í landinu liðsinni við það þegar flóttamenn koma og ég spyr utanrrh. hver áform hans séu.

Ég batt mjög miklar vonir við stefnumörkun fyrrverandi ríkisstjórnar og fannst flóttamannaráðið fara vel af stað. Og ég tel að við eigum að taka á móti ákveðnum hópi fólks í nauðum á hverju einasta ári. Mig langar gjarnan að víkja að málum sem Amnesty-samtökin hafa lagt áhersu á og möguleika Íslands til að beita sér þar sem landið á aðild að alþjóðasamstarfi. Ég nefni dauðarefsingu en það er mikilvægt að berjast fyrir afnámi dauðarefsingar hvar sem er í heiminum og við allar aðstæður. Þar finnst mér að Íslendingar eigi að beita sér á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og í viðræðum við fulltrúa allra ríkja sem enn beita dauðarefsingu. Ísland er eitt fárra ríkja sem hefur ákvæði í stjórnarskrá um algert bann við dauðarefsingu og Íslendingar eiga að vísa til þess ákvæðis í umræðum á alþjóðavettvangi. Ég vil geta þess að tölur um dauðarefsingar eru hrikalegar og af því að við höfum nýlega verið að fjalla um Kína þá var það þannig að þar voru aðeins 20 brot sem vörðuðu dauðarefsingu árið 1980. Nú varða 68 brot dauðarefsingu. Í fyrra fóru þar fram tæplega 3.000 aftökur.

Víst er áhugavert að heyra hverju er ábótavant í okkar málum varðandi stöðu flóttamanna en ef við lítum á mannréttindamál og mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna þá virðist sem Íslendingar hafi ekki nýtt sér þá nefnd nægilega. Þeir eiga að taka virkan þátt í störfum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, hvort heldur sem þeir eru fulltrúar í nefndinni eða eiga þar áheyrn. Þeir geta beitt sér á þessum vettvangi fyrir bættri stöðu mannréttinda í samvinnu við mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Varðandi yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um baráttu fyrir mannréttindum held ég að Íslendingar gætu í krafti smæðar sinnar og lýðræðisþróunar beitt sér afar vel í þessum málum. Ég hvet líka til þess að Íslendingar styðji stofnun alþjóðlegs glæpadómstóls á vegum Sameinuðu þjóðanna og beiti sér í því efni.

Virðulegi forseti. Þegar fjallað er um mannréttindabrot hvarflar hugurinn til ákveðinna landsvæða og þjóða og þar langar mig að nefna bæði Tsjetsjeníu og Kúrda. Tyrkir, sem eiga aðild að NATO, hafa ofsótt Kúrda hrikalega. Auðvitað hafa sömu ofsóknir gilt af hálfu Íraks og Írans en fyrir okkur skiptir máli að Tyrkland er NATO-ríki. Þarna er fótum troðið bæði lýðræði og mannréttindi. Staðreyndin er sú að þingmenn Kúrda á tyrkneska þinginu hafa bæði verið dæmdir og fangelsaðir. Sömuleiðis þekktir rithöfundar. Lítið er að gert til að beita sér gegn því að mannréttindi séu fótum troðin á þennan hátt. Þessir aðilar hafa eingöngu brotið það af sér að berjast fyrir rétti Kúrda. Þúsundir Kúrda hafa verið drepnir og það varðar við fangelsun að vinna að þeirra málum og krefjast lágmarksréttinda fyrir þá.

Kúrdar eru merk menningarþjóð sem berst fyrir tilveru sinni og hæstv. utanrrh. var spurður um það í haust hvort hann ætlaði að beita sér til hjálpar fangelsuðum kollegum sínum. Ég held að hann hafi ekki svarað þeirri spurningu og nú endurtek ég þessa spurningu: Mun ráðherra beita sér í þessum málum?

Við höfum í fjölmiðlum fylgst mjög vel með því sem er að gerast í Tsjetsjeníu og herferð Rússa inn í Tsjetsjeníu hefur frá upphafi einkennst af hrikalegum afleik eftir afleik. Tugir þúsunda óbreyttra borgara hafa látið lífið. Þarna hefur orðið gífurlegt eignatjón og gríðarleg eyðilegging. Her Rússa, sem heimamenn töldu mjög öflugan, hefur farið skammar- og sneypuför inn í Tsjetsjeníu og skoðanakannanir sýna að þetta hefur gengið nærri rússnesku þjóðinni. Venjulegir Rússar líta á það sem forgangsréttindi að stöðva stríðið við Tsjetsjeníu og þess vegna hefur Jeltsín forseti gefið út yfirlýsingu um að herinn verði dreginn til baka. Því miður eru þetta enn orðin tóm og engin pólitísk lausn í sjónmáli. Aðför Rússa í Tsjetsjeníu er ekkert annað en þjóðarmorð að mínu mati.

Forseti. Ég hefði kosið að fara einhverjum orðum um Mið-Austurlönd en í gær vorum við með utandagskrárumræður um það mál. Það hefði verið efni í langa utandagskrárumræðu að fjalla um þær hörmungar og það ofbeldi sem þar ríkir. Ég ætla að sleppa því.

Í lokin ætla ég að koma inn á það að mannréttindi eru kvenréttindi á sama hátt og kvenréttindi eru mannréttindi. Ég hef áður í utanríkisumræðu fjallað um mikilvægi stuðnings við konur í þróunarlöndunum. Það er staðreynd að 60% af fátækum til sveita í heiminum, sem er u.þ.b. 1 milljarður, eru konur. Tveir þriðju af ólæsu fólki í heiminum eru konur. Þeim hugmyndum vinnst alls staðar fylgi að það eigi að stuðla að svokölluðu tvenndarlýðræði í löndum heims. Það er alveg ljóst og flestir eru að komast á þá skoðun að því eingöngu verði lýðræði virkt í raun að svokallað tvenndarlýðræði komist á og þetta á við bæði heima og heiman. Þetta hugtak kom fram hjá mörgum ræðumönnum á félagsmálaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn fyrir ári síðan.

Virðulegi forseti. Þótt seint gangi að koma því jafnréttishugtaki í framkvæmd við okkar landstjórn geri ég það að lokaorðum mínum að Ísland styðji sérstaklega við bakið á konum í þróunarlöndum í uppbyggingarstarfi sem þar fer fram.