Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 18:17:03 (5182)

1996-04-23 18:17:03# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[18:17]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef enga burði til þess að hafa uppi gagnrýni á fulltrúa Íslands í mannréttindanefndinni. Ég upplýsti að ég hefði fengið þær upplýsingar því auðvitað er spáð í þessa nefnd og á þeim stað er fólk sem er að vinna að mannréttindamálum að skoða hvað kemur frá hverjum á Norðurlöndum. Ég benti á að mér hefði verið tjáð að fulltrúar okkar hefðu ekki nýtt sér þann rétt að koma á framfæri athugasemdum Íslands og þarna er vettvangur. Það er áhersla mín. Ég hef ekki gagnrýnt kvennapólitík í umræðu minni. Ég hef hins vegar sagt að ég hef áður í utanríkisumræðu fjallað um mikilvægi stuðnings við konur í þróunarlöndum. Ég hef gert það í hvert einasta skipti sem ég hef tekið þátt í umræðu hér og þetta er bara hlutur sem þarf að huga að alltaf og alls staðar vegna þess að það er viðurkennt að stuðningur við konur í þróunarlöndum er besti stuðningur við þróunarlönd. Ég sagði í lokaorðum mínum að þó seint gangi að koma því jafnréttishugtaki í framkvæmd við landstjórn okkar að svokallað tvenndarlýðræði ríki sem þýðir í raun og veru jafnrétti kynjanna við stjórnun lands, þá geri ég það að lokaorðum mínum að Ísland styðji sérstaklega við bakið á konum í þróunarlöndum í uppbyggingarstarfi. Það er ekki rétt að ég hafi gagnrýnt hér. Ég hef hvatt minn ráðherra þegar hann var í forustu fyrir utanríkismálum einmitt til þess að taka á þessum málum og er ófeimin að halda því fram að þá hafi verið gerðir mjög góðir hlutir á vettvangi utanríkismála hvað þetta varðar.