Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 18:37:00 (5185)

1996-04-23 18:37:00# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[18:37]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vitnaði áðan í ræðu minni til umræðnanna sem hér fóru fram sl. mánudag þar sem m.a. var lesið upp úr bréfi Flugleiða þar sem þeir lýstu áhyggjum sínum yfir þessu. Ef málið virðist vera að leysast eða hæstv. utanrrh. sér ekki þessi vandræði sem lýst var í þessu bréfi og þessi forráðamaður Flugleiða endurtók við mig að stæðu eftir, ef þetta er ekki rétt þá fagna ég því. Ég heyri að hæstv. utanrrh. er sér meðvitaður um þessa umræðu eins og bera ber, enda hefur verið þarna samráð og samtöl á milli.

Ég varð ekki vitni að því hér í umræðunni að þessu væri neitt svarað, að það kæmi neitt fram að menn hefðu áhyggjur yfir þessu máli. Þess vegna vildi ég reifa þetta hér. Auðvitað er það rétt hjá hæstv. utanrrh. að eitt fyrirtæki á auðvitað ekki að ráða stefnunni í þessum málum. En það vill svo til að þetta er eitt af stærstu og mikilvægustu fyrirtækjum okkar Íslendinga. Samgöngur hér við land skipta mjög miklu máli og hvers virði verður þetta samkomulag ef flugsamgöngur hér lenda í miklum vandræðum. Atlantshafsflugið er bundið því eða loftferðasamningurinn er bundinn því að hér verði millilent. Ég spyr hæstv. utanrrh.: Er það tryggt að Flugleiðir geti haldið starfsemi sinni óbreyttri og að þeirra kerfi hrynji ekki? Við Íslendingar verðum heldur betur í vandræðum og einangrun ef þetta stóra fyrirtæki hrynur eða lendir í miklum vandræðum.