Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 19:00:48 (5190)

1996-04-23 19:00:48# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[19:00]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýr svör hans að því er varðaði flóttamennina. Mér þykja það góð tíðindi sem hann flytur hér, að innan skamms munum við væntanlega taka við þeim hópi sem við höfðum áður lofað að veita hér hæli.

Herra forseti. Ég vil síðan rifja það upp að fyrr í vetur, þegar ég innti hæstv. utanrrh. eftir afstöðu hans og ríkisstjórnarinnar til umsóknar Eystrasaltsríkjanna um aðild að NATO, þá sagði hann: ,,Það er verið að vinna í þessu máli og það er gert með eftirfarandi hætti. Nú eiga sér stað viðræður við alla þá sem hafa sótt um. Ég fer í júní á ráðherrafund NATO í Berlín og þá verður málið rætt og skýrslan um það lögð fram. Síðan verður annar ráðherrafundur í haust,`` sagði hæstv. utanrrh. og þá verða væntanlega teknar ákvarðanir. Með öðrum orðum það er núna sem það ríður á. Ef við ætlum að veita einhverjum fulltingi eða liðsinni og styðja umsókn einhverra sérstakra þá er tíminn núna. Það er þess vegna sem ég inni hæstv. utanrrh. eftir því hvort hann kýs ekki að beita sér innan NATO til að aðstoða þessi ríki við að koma þar inn vegna þess að þau vilja það sjálf.