Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 19:03:26 (5192)

1996-04-23 19:03:26# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[19:03]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það getur vel verið að hæstv. utanrrh. sé þeirrar skoðunar að Eystrasaltslöndin geri sér grein fyrir þessari stöðu. Eigi að síður eru þau sífellt að knýja á dyr okkar. Þau eru að æskja aðstoðar. Ég minni hæstv. utanrrh. á að það eru tæplega tvö ár síðan þáv. utanríkisráðherra Rússa lýsti því hreinlega yfir að það kynni að koma til þess að það þyrfti að senda rússneskt herlið inn í þessi lönd til að vernda rússneska minni hlutann þar. Í grein sem birtist 11. þessa mánaðar í tímaritinu Nesjavisímaja gaséta eftir herfræðinga, Valerí Dementjev og Anton Súríkov segir, með leyfi forseta:

,,Eystrasaltssvæðið er sprengifimasta svæðið þegar menn íhuga möguleikana á þróun sem gæti leitt til nýrra átaka með þátttöku hersveita rússneska sambandsríkisins.`` Í framhaldi af þessu, herra forseti, er farið út í herfræðilegar vangaveltur um það hvernig Rússar ættu að haga slíkum hernaði, lýst hvernig flughernaði yrði fyrst beitt á þessi ríki, síðan hinum frægu spetsnas-sveitum og að lokum þá endi hernaðaraðgerðirnar með því sem í ensku þýðingunni er kallað ,,local cleansing``. Þetta er framtíðarsýnin, herra forseti. Og þegar ég spyr um afstöðu hæstv. utanrrh. þá er spurt um þetta: Ætlum við að hafa frumkvæði eða á Ísland bara að vera partur af farteskinu? Í tíð síðustu ríkisstjórnar sýndi Ísland frumkvæði og ég fer fram á það í fullri vinsemd að hæstv. utanrrh. taki málin í sínar hendur og sýni svipað frumkvæði og forveri hans í embætti varðandi þessi ríki.