Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 20:30:54 (5197)

1996-04-23 20:30:54# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[20:30]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Hér hafa spunnist út af ræðu sem hæstv. utanrrh. hélt um utanríkismál á Alþingi umræður um viðhorf ríkisstjórnarinnar til þróunar Evrópusambandsins. Hefur hér nokkuð verið rætt um meintan ágreining milli ríkisstjórnarflokkanna um afstöðuna til þróunar Evrópusambandsins. Annars vegar hefur verið veist að ríkisstjórninni af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni sem hefur mjög ákveðna skoðun í afstöðu sinni til ESB og er afar mótfallinn því að hugleiða aðild að sambandinu. Hins vegar hafa nokkrir þingmenn, einkum og sér í lagi hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og hv. þm. Össur Skarphéðinsson talið að lítið væri að gerast á vettvangi ríkisstjórnarinnar í sambandi við málefni Evrópusambandsins, þar væri ekki sýnilegt hvert ferðinni væri heitið og væri ríkisstjórnin aðgerðalaus í því máli. Á sama tíma hafa spunnist umræður um það að einhver ágreiningur væri milli hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar, og hæstv. utanrrh., Halldórs Ásgrímssonar, um þessi mál.

Það sem segir í ræðu hæstv. utanrrh. um Evrópusambandsmálin er að vísu í nokkrum véfréttastíl og það er raunar hægt að segja að það gildi einnig um það sem hann segir sérstaklega um myntsamruna Evrópusambandsins. Þar er farið mjög varlega í að skilgreina þróunina og farið nokkuð almennum orðum um þetta. Í raun og veru má kannski lýsa afstöðu ríkisstjórnarinnar þannig að menn vilji bíða átekta. Þá vaknar sú spurning hvort sú afstaða er skynsamleg eða ekki. Það er óhjákvæmilegt að spyrja hv. þm. Hjörleif Guttormsson, sem ekki er nú hér í þingsalnum nú, að því hvort afstaða hans til Evrópusambandsins sé sú, að burt séð frá þróun sambandsins sé hv. þm. Hjörleifur Guttormsson andsnúinn því að Íslendingar hugleiði aðild að Evrópusambandinu. Á sama hátt er ekki hægt annað en að velta því fyrir sér þegar tónninn í ræðum þingmanna Alþfl. er veginn og metinn hvort þeir hafa afstöðu til Evrópusambandsins í raun burt séð frá því hvernig sambandið þróast hugsanlega.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson veittist að þingmönnum Framsfl. fyrir að vera heldur aftarlega á evrópumerinni eins og hann orðaði það. Sjálfur vill hann örugglega sitja nokkuð framarlega á því hrossi en með öllu að því er virðist án tillits til þess hvert merin stefnir. Í raun má segja sem svo að það sé ekki óskynsamleg afstaða til Evrópumálefnanna að bíða átekta. Hvers vegna er það í sjálfu sér skynsamleg afstaða? Það má segja að frá því að Sovétríkin hrundu hafi stefnan innan Evrópusambandsins, þ.e. vilji ráðandi manna í Evrópusambandinu til að setja sér skýr markmið, ekki komið vel fram. Það er erfitt að vega það og meta hvert Evrópusambandið stefnir og það hefur komið kannski óvenjulega skýrt í ljós í aðdraganda og undirbúningi að ríkjaráðstefnunni svokölluðu.

Ég ætla að nefna sérstaklega tvo þætti í þróun Evrópusambandsins sem koma til með að hafa áhrif á það hvort það er yfir höfuð álitlegur kostur fyrir Íslendinga að hugleiða aðildarumsókn í framtíðinni eða ekki, burt séð frá sjávarútvegsmálunum sem venjulega eru þau mál sem almennt er rætt um hér í þingsölum þegar Evrópusambandið ber á góma. Annars vegar vil ég færa í tal það sem má kalla bilið á milli framkvæmdarvaldsins í Evrópusambandinu og fólksins. En þetta atriði verður sérstaklega rætt á ríkjaráðstefnunni. Hins vegar er það sameiginlega myntin og áhrif hugsjónarinnar um sameiginlega mynt á stöðu Íslands og þróun Evrópumálanna og velta því dálítið fyrir mér hvers vegna menn sækja svo fast þrátt fyrir alla erfiðleikana að ná saman um sameiginlega mynt.

Virðulegur forseti. Fyrir það fyrsta þá held ég að það sé rétt að við gerum okkur grein fyrir því að það hefur orðið áberandi mikill aðskilnaður framkvæmdarvaldsins sem fer með framkvæmdar- og löggjafarvaldið í ESB --- ég endurtek að framkvæmdarvaldið fer með löggjafarvaldið í ESB --- og svo annars vegar almennings og í raun og veru kjörinna fulltrúa hans, þ.e. þingmanna eða löggjafasamkundunnar. Uppspretta hugmynda innan Evrópusambandsins er ekki hjá fólkinu. Hún verður ekki til hjá grasrótinni eða fólkinu. Hún verður ekki til hjá kjósendum. Það verða í raun og veru engar hugmyndir til í þessu merkilega sambandi í grasrótinni, meðal fólksins. Ekki heldur meðal hins óbreytta flokksmanns í flokkapólitíkinni í Evrópu. Farvegi hugmyndanna hefur verið að þessu leyti nokkuð breytt. Uppspretta hugmyndanna er sköpunarverk sem kemur ofan frá. Hún kemur frá sérfræðingum og hugmyndabönkum þeirra. Hún kemur úr hugmyndafræðilegum útungunarvélum framkvæmdarvaldsins og sérfræðinga þess. Hlutverk löggjafans hefur orðið mjög rýrt við þessa þróun, nánast á tíðum orðið eins konar skoðanakönnun og það hefur einnig dregið verulega úr eftirlits- og aðhaldshlutverki þjóðþinganna, löggjafarþinganna. Staða þjóðþinganna til að sinna þessum eftirlitshlutverkum hefur orðið mjög veik. Þjóðþingin eru oft og tíðum afar háð ríkisstjórnunum sem þau eiga að veita aðhald og þetta er atriði sem sumar þjóðir gera mikið úr og hafa lagt áherslu á að verði tekið fyrir á ríkjaráðstefnunni en hugmyndirnar sem liggja þar til grundvallar eru afar mótsagnakenndar svo ekki sé meira sagt.

Ef við lítum á okkar stöðu að því er varðar þetta atriði þá er ljóst að löggjafarsamkunda okkar er líka veik gagnvart þeirri lagasetningu sem verður til í Evrópusambandinu. Ég ætla að nefna eitt dæmi um þetta því það er mjög sláandi þetta eina dæmi. Það er hugsanlegt að Alþingi Íslendinga hafi verið att út í mun viðameiri löggjöf á grundvelli tilskipana ESB en t.d. sum af stofnríkjum Evrópusambandsins hafa talið sér skylt að ráðast í. Ég nefni þetta sérstaklega í sambandi við lög um vörumerkingar þar sem við höfum leitt í lög ákvæði sem fjölmargar Evrópuþjóðir og þar á meðal ein þjóð sem var ein af stofnþjóðum Evrópusambandsins kannast ekki við að séu reglur sem þeim beri að virða. Þetta gerir það að verkum að Íslendingar sem hafa leitt þessar reglur í lög hjá sér hafa verri samkeppnisstöðu en eitt af stofnríkjum Evrópusambandsins að því er varðar vörumerkingar. Þeir þurfa að beita innflytjendur varnings frá Bandaríkjunum harðari reglum en ein af stofnþjóðum Evrópusambandsins svo dæmi sé tekið. Þess vegna held ég að það væri ástæða til að kanna það skipulega að hve miklu leyti Íslendingar hafa leiðst út í nákvæmari lagasetningu á grundvelli tilskipana og reglna Evrópusambandsins en jafnvel sumar af stofnþjóðum þess. Ég bendi á þetta sérstaklega vegna þess að þjóðþingin hafa þó ekki komið að þessum lögum nema að mjög litlu leyti vegna þess að ég held að það sé rétt munað hjá mér að um 85% af reglum Evrópusambandsins séu innleiddar í gegnum reglugerðir en ekki lagasetningar. Þá sjá menn hvað þjóðþingin hafa litlu hlutverki að gegna í Evrópusambandi nútímans.

Þetta er atriði sem menn hafa viljað taka til athugunar á ríkjaráðstefnunni en hugmyndir manna um það hvernig eigi að taka á þessu eru með öllu óljósar. Það er með öllu óljóst hvert Evrópusambandið stefnir að því er þetta varðar. Menn tala um hallarekstur lýðræðisins innan Evrópusambandsins en það er með öllu óljóst hvert Evrópusambandið mun stefna í þessum efnum. Þeir sem mæla nú með aðildarumsókn eru að mæla með aðildarumsókn að sambandi sem þeir hafa ekki hugmynd um hvert stefnir í þessum efnum því hugmyndir þar að lútandi innan Evrópusambandsins eru mjög á reiki.

Í ræðu hæstv. utanrrh. er vikið að myntsamstarfi Evrópusambandsins og myntsamrunanum sem er eitt af markmiðum Evrópusambandsins og er reiknað með því að það komist á fyrir lok aldarinnar. Ég verð að segja að þó ég hafi ekki haft sérstakan áhuga á því, hæstv. forseti, að á þessari stundu sé íhugað að sækja um aðild að Evrópusambandinu, þá hef ég alltaf haft vissan skilning á þeirri hugsjón Evrópuþjóðanna að koma sér upp sameiginlegri mynt. Ég hef alltaf haft ákveðinn skilning á því og ég hef litið svo á að sú hugsjón væri óháð samrunaferlinu sjálfu. Við gætum verulega styrkt efnahagssamvinnu Evrópuþjóðanna með sameiginlegri mynt óháð samrunaþróuninni, óháð ríkjasambandinu sem sumir vilja koma á í Evrópusambandinu. Hvers vegna er það mikið áhugamál Evrópuþjóðanna að koma á sameiginlegri mynt? Þetta mál tengist náið umræðunni í Evrópu um eitt stærsta þjóðfélagslega vandamálið sem nú hrjáir Evrópuríkin og þá ekki síst Evrópusambandsríkin. Hvert er þetta vandamál? Þetta vandamál er atvinnuleysi. Óreiða í gengismálum hefur orðið til þess að atvinna hefur flust til innan Evrópusambandsins í stórum stíl. Þjóðirnar, og þá einkum og sér í lagi kannski nú upp á síðkastið Ítalir, Spánverjar, Englendingar og Svíar sem eru nýgengnir í Evrópusambandið, hafa iðkað gengisfellingarleið til þess eins að auka samkeppnishæfni þessara þjóða gagnvart öðrum þjóðum Evrópusambandsins. Ég tek sem dæmi um þetta mál að ítalska líran hefur verið felld gagnvart franska frankanum, frá 1992 um 40%. Þeir hafa ekki bætt sér þetta allt saman upp í verðhækkunum. Verðvísitalan milli þessara tveggja landa hefur aðeins hækkað um 7% þannig að viðskiptastaða Ítala gagnvart Frökkum hefur batnað um 33% á þessum örstutta tíma. Með öðrum orðum hafa gengisfellingarnar verið notaðar markvisst til þess að bæta samkeppnisstöðu þeirra þjóða sem hafa fellt gengið á kostnað hinna. Þetta hefur skapað gífurlegan glundroða og það þarf enginn að ganga að því gruflandi að auðvitað hefur þetta skapað okkur Íslendingum erfiðleika líka. Við mundum græða mikið á því ef að myntsamstarf mundi verða í Evrópu, ekki endilega með því að ganga í það heldur með því að fá þannig treystan ákveðinn stöðugleika í gjaldmiðilsþróun Evrópu. En þó að ég hafi mikinn skilning á þessari hugsjón Evrópusambandsríkjanna og jafnvel áhuga á því að þetta samstarf komist á, þá hef ég ekki séð neinar skýringar á því, virðulegi forseti, hvernig menn ætla sér að vinna að þessu samstarfi.

Ég sé að tími minn er útrunninn en ég hefði áhuga á því að heyra nokkra umfjöllun um þetta mál því það verður að segjast eins og er að það er erfitt að taka afstöðu til þessa máls, þ.e. myntsamruna Evrópuríkjanna þegar ekki liggur fyrir á hvern hátt menn ætla sér að reyna að tryggja þetta samstarf öðruvísi en með víðtæku sjóðakerfi.