Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 21:05:32 (5200)

1996-04-23 21:05:32# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[21:05]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. utanrrh. verður auðvitað að meta það fyrir sig hvort um sé að ræða ágreining í ríkisstjórn eða ekki um þetta efni. Ég vil ekki tala fyrir hans hönd eða gagnrýna það mat hans að þar ríki góður friður. En við sem fylgjumst með málflutningi forustumanna ríkisstjórnarinnar og þeirra tveggja flokka sem að henni standa tökum auðvitað eftir því að það ríkir allt annað mat hjá hæstv. forsrh. en hæstv. utanrrh. á eðli og inntaki Evrópusambandsins. Það ríkir allt annað mat og ekki langt að leita í tíma til þess að finna stað fyrir því.

Það fer síðan að sjálfsögðu eftir mati á innihaldi og mati á þróun Evrópusambandsins, æskilegri þróun eða hvað menn vilja sjá, hvernig menn haga orðum sínum við stjórnmálamenn í öðrum ríkjum sem eru að hugsa um að sækja um aðild. Ekki er víst að sá sem telur að margt sé tvísýnt í þróun Evrópusambandsins, m.a. varðandi lýðræðislegt innihald sambandsins, sé að hvetja menn til þess að sækja um. Það væri frekar að hann mundi leggja inn varnaðarorð eins og ég hygg að t.d. járnfrúin breska, Margrét Thatcher, hafi gert þegar hún ræddi á sínum tíma við forustumenn sem gengu á fund hennar og það er þarna sem skilur á milli. Það er ekkert eitt uppi varðandi ferð Evrópusambandsins. Það eru stórar spurningar uppi: Hvert stefnir, hvers konar Evrópusamband? Hvers konar Evrópusamband vill hæstv. utanrrh. sjá sem á að tryggja það öryggi í Evrópu sem hann telur að sé hugmynd þeirra að styrkja?

Ég vil líka minna á stöðu Dana og sögu Dana sem þátttakenda í Evrópusambandinu. Það vill svo til að eftir þann langa tíma sem liðinn er og Danir hafa verið aðilar að Efnahagsbandalagi Evrópu og nú Evrópusambandinu, þá er ekki ljóst hvort það er meiri hluti fyrir þátttöku í þessu sambandi eða ekki í nágrannaríki okkar, Danmörku, og ætli það segi ekki sitthvað um stöðuna. Nú engjast Danir út af spurningunni um það, í hvaða átt þetta samstarf þróast.