Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 21:08:24 (5201)

1996-04-23 21:08:24# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[21:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég endurtek það sem ég sagði í ræðu minni að þjóðríkið og hagsmunir þess hljóta að vera forsenda fyrir starfi Íslands í alþjóðlegu samhengi. Ég sagði jafnframt að það væri ekki hægt að varðveita þjóðareinkenni og gæta hagsmuna landsins ef þjóðríkið er ekki grunneining í alþjóðastarfi. Ég vænti þess að þessi setning segi allmikið um þróun Evrópusambandsins því að það eru uppi þær skoðanir hjá ýmsum að Evrópusambandið eigi fyrst og fremst að verða einhvers konar bandaríki Evrópu. Það er staða sem ég vil ekki sjá. En ég hlýt að treysta því að þjóðir Austur-Evrópu geti metið þessa stöðu sjálfar.

Ég er ekki í stakk búinn til þess að flytja einhver sérstök varnaðarorð umfram framtíðarþróun Evrópusambandsins. Ég sé það ekki fyrir. En það eru ýmsar blikur á lofti eins og hv. þm. tók fram og við höfum ekki séð fyrir endann á því. Við vitum ekki hvað kemur út úr ríkjaráðstefnunni. Þar getur ýmislegt breyst og það er mikil hætta á því að lítil ríki eins og Norðurlöndin muni í framtíðinni hafa mun minni áhrif í Evrópusambandi framtíðarinnar en þau hafa í dag. Þessi ríki óttast þessa stöðu, þar á meðal þau ríki sem nýlega hafa gengið inn eins og Finnland og Svíþjóð. Þetta er allt saman á réttum stað en það hlýtur að vera skylda okkar að fylgjast með þessari þróun og meta stöðu okkar í ljósi breyttra aðstæðna þegar þar að kemur og vera þá tilbúin til að bregðast við þeirri stöðu sem kemur upp með hvaða hætti sem það verður.