Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 21:28:46 (5204)

1996-04-23 21:28:46# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[21:28]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Það hefur verið gagnrýnt hér að þetta sé ekki rétta formið. Það er sjálfsagt að taka það til endurskoðunar og athuga með hvaða hætti þessari umræðu verður best fyrir komið og hvernig skýrslugjöf til Alþingis af hálfu utanrrn. verður best háttað. Við höfum tekið upp þann sið að auka upplýsingar til utanrmn. um hin ýmsu mál sem unnið er að í ráðuneytinu og vona ég að það hafi verið til bóta. En það er að sjálfsögðu erfitt fyrir utanrrh. á hverjum tíma að taka þátt í þessari umræðu með því að hafa nánast sama tíma og aðrir þingmenn, 30 mínútur í framsögu á móti 25 mínútum hjá öðrum og 15 mínútur í síðari umræðu, eða það sama og aðrir þingmenn hafa. Það er mjög erfitt að ætlast til þess að utanrrh., hver svo sem hann er, geti komið að öllum þeim málum sem ástæða hefði verið til að koma að. Það hefur verið mjög kvartað yfir því í dag af nánast öllum þingmönnum að í þessari ræðu hafi ég ekki komið að þessu eða hinu, að ég hafi sagt nokkur orð um eitt mál og enn færri um önnur. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kvartaði yfir því að ég hefði talað allt of lítið um Vestur-Evrópusambandið. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson kvartaði aftur á móti yfir því að ég hefði talað allt of lítið um hafréttarmál og allt of lítið um Evrópumál o.s.frv.

Ég er að sjálfsögðu tilbúinn til að hlusta á þessa gagnrýni og taka þetta til endurmats og mér finnst eðlilegt að það sé gert í samvinnu við utanrmn. En það er ekki hægt að ætlast til að öllum málum séu gerð jafngóð skil og minn vilji stendur til. Við þurfum að finna það form sem hentar okkar þingræði og ég hef ekki talið það vera í mínum verkahring að láta uppi miklar skoðanir um það hvernig þetta eigi nákvæmlega að vera. En ég held að það sé ljóst að í framhaldi af þessari umræðu sé nauðsynlegt að taka það til endurmats. Það væri að mínu mati miklu heppilegra að reyna að afmarka þessi mál meira, t.d. að taka sérstaka umræðu um hafréttarmál, sérstaka umræðu um Evrópumál o.s.frv. En til þess þarf góðan tíma og ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort sá knappi tími sem er til starfa á Alþingi leyfir það.

Ég vildi fyrst koma aðeins að Evrópumálunum. Það hefur verið gagnrýnt af ýmsum að núv. ríkisstjórn sé ekkert að gera, hún sé ekki að vinna okkar málum skilning, hún sé ekki að undirbúa jarðveg og sé nánast aðgerðalaus á þessu sviði, bíði og nánast sofi. Ég vil mótmæla þessu. Hitt er svo annað mál að núverandi ríkisstjórn er ekki að reyna að lýsa þessu máli með allt of mörgum lýsingarorðum eða lýsa því að menn bíði eftir okkur í Evrópusambandinu og það sé ekkert mál að komast þar inn á okkar forsendum. Það er að mínu mati ekki staðan. Ég hef reynt að afla okkar sjónarmiðum skilnings, ég hef reynt að lýsa okkar aðstæðum, m.a. með það í huga að það geti nýst okkur síðar meir ef annað mat verður á stöðunni hver sem svo verður í ríkisstjórn á þeim tíma. Það má vel vera að það verði hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. Ég vil a.m.k. ekki að það ríki neinn misskilningur um það hvað það er sem við leggjum áherslu á.

Ég geri mér vel grein fyrir því, þótt ég sé ekki hrifinn af öllu hjá Evrópusambandinu, að við munum ekki ráða einu og öllu um það hvernig þar verður umhorfs, hvernig stjórnkerfi þess verður byggt upp, hvernig lýðræðið verður innan Evrópusambandsins. Ef Íslendingar vilja ganga í Evrópusambandið einhvern tíma í framtíðinni, er það nánast ekkert annað en ganga inn í það kerfi sem þá er fyrir hendi. Þetta er það sem þjóðir Austur-Evrópu eru núna að taka ákvarðanir um. Ég hef hins vegar gert mér vonir um að það væri hægt að semja um einhverja aðra tilhögun í sjávarútvegsmálum. Ég er ekki þeirrar skoðunar að sú staða liggi fyrir í dag. Það má vel vera að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sé tilbúinn til að senda inn umsókn og haldi að það sé hægt að semja um það á tiltölulega fáum mánuðum. Ég tel það rangt mat á stöðunni. Ég tel að umsókn núna um aðild Íslands að Evrópusambandinu mundi ekkert gera annað en að skemma þá stöðu sem við erum í í þessu sambandi. Ætla menn að fara út í það að sækja um og segja svo bara á eftir: Ja, við meintum nú ekkert með þessu. Það er alveg ljóst að um leið og menn sækja um gera menn það í fullri alvöru og ætla sér þangað inn. Menn gera það ekki eins og einhverja æfingu í barnaskóla. Hér er full alvara á ferð og það er rétt að gera sér grein fyrir því hvað menn eru að gera. Hv. þingmenn lýsa því yfir að það sé ekkert annað að gera en sækja bara um og láta á það reyna, það sé eina leiðin. Gæti ekki verið að það sé rétt að athuga hver væri hugsanlega niðurstaðan? Er líklegt að við fengjum þar einhverja niðurstöðu aðra en Norðmenn fengu? Það má vel vera að við fengjum eitthvað betri niðurstöðu í dag, en að mínu mati enga fullnægjandi niðurstöðu. Þetta verða forsvarsmenn Evrópusambandsins og forsvarsmenn þeirra ríkja sem þar ráða málum að skilja. Þennan jarðveg þarf að undirbúa ef einhvern tíma kemur að því að menn vilja fara út í þetta.

Ég er ekki tilbúinn til þess að lýsa því yfir að við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég met stöðuna þannig að við fengjum ekki fram okkar mikilvægustu hagsmunamál. Ég hef hins vegar ekki gengið um meðal ríkja Evrópusambandsins og haldið langar ræður um það hvað þeir séu vondir menn og þeir ættu að reyna að haga sér með einhverjum öðrum hætti. Eða varað ríki Austur-Evrópu við því að ganga í þetta samband. Það hef ég ekki gert og tel mig ekki hafa neitt umboð til þess frá íslensku þjóðinni. Ég teldi mig ekki vera að gæta hagsmuna hennar ef ég kæmi fram með þeim hætti. En ég tel það skyldu mína að meta þessa stöðu, halda dyrum opnum ef Íslendingar einhvern tíma verða þeirrar skoðunar að það beri að gera einhverja nýja hluti, jafnvel að sækja um aðild. Menn verða þá að vera bærilega undirbúnir undir það. Ekki meira um það. Ég vænti þess að það sé ekki verið að oftúlka skoðanir mínar í þessu sambandi og tel algeran óþarfa af hv. þingmönnum að gefa í skyn að ég sé þeirrar skoðunar að við eigum að ganga þarna inn. Svo er alls ekki. Ég get ekki glatt Alþfl. með því. Ég vil hins vegar halda augunum opnum og átta mig á því hvað er að gerast í kringum mig. Ég tel að það felist í starfi utanrrh. á hverjum tíma að fylgjast með og reyna að meta og átta sig á aðstæðum og segja heiðarlega frá því.

Varðandi hafréttarmálin, hæstv. forseti, er það rétt að ég hef notað orðið sanngirni. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrv. utanrrh., notar orðið heildarlausn sem lykilorð. Annaðhvort semji menn um allt eða ekkert. Er það reynsla hans og reynsla okkar í málum að menn eigi aðeins að semja um allt eða ekkert? Ég nefni að við höfum samið um karfann á Reykjaneshrygg og ég tel það vera árangur. Ég tel mikilvægast af öllu að semja um síldarmálin. Ég hef hingað til borið þá von í brjósti að það gæti tekist. Þær fréttir sem við fáum núna um að það sé búið að ákveða veiðar úr þessum stofni upp á 1,4 millj. tonn eru í reynd skelfilegar fréttir fyrir Íslendinga. Það getur enginn hrósað sér af því að þetta ástand skuli koma upp vegna þess að Íslendingar hafa mestra hagsmuna að gæta af öllum vaðandi það að þessi veiði verði minnkuð. Framtíðarhagsmunir okkar felast í því að það verði hægt að byggja upp þennan stofn en ekki veiða hann upp. Við hljótum að vera tilbúnir til þess að leggja mikið á okkur til að svo geti orðið. Ég segi fyrir mig að ég er tilbúinn til þess að ganga til samninga um það, jafnvel þótt málið í Barentshafi leysist ekki. Ég hef ekki viljað tengja þau mál þannig saman að ef við ættum kost á því að gera samning um síldina, sem þjónar okkar hagsmunum, þá neituðum við slíkum samningi vegna þess að það væri ekki hægt að ná saman um Barentshafið. Ég tel það ranga stefnu. Það væri hins vegar betra að leysa bæði málin og komast út úr þessu vegna þess að samningar þjóna okkar hagsmunum. En þeir geta tekið nokkurn tíma og ég minni á að við vorum tíu ár að ná samningum í loðnumálinu. En við náðum niðurstöðu og ég tel að það hafi verið mikilvægt fyrir okkur Íslendinga.

Við munum vinna áfram að þessum málum á grundvelli sanngirni og við teljum að okkur hafi ekki verið sýnd sanngirni enn þann dag í dag í þessum málum. Við höfum skapað okkur þokkalega stöðu að mínu mati í síldarmálinu vegna þess að við vorum fljótir til í fyrra þegar upp úr slitnaði í þessum samningum. Við sömdum við Færeyinga að nóttu til og gengum frá því á nokkrum klukkutímum. Það var þess vegna sem við höfðum stöðu til að veiða jafnmikið af síld og við gerðum á sl. sumri. Það er hins vegar afar mikilvægt að geta veitt þessa síld á stærra svæði og geta skipulagt veiðarnar betur. Það er óskynsamlegt að skófla þessari síld upp á skömmum tíma án þess að gera úr henni það verðmæti sem hægt er að gera úr síldinni. Það þjónar ekki okkar hagsmunum að ganga þannig fram. Að mínu mati getum við því sætt okkur við minni veiðar en við höfum nú ákveðið ef það gæti orðið til að ná niðurstðu og heildarmagnið færi nær 1 millj. tonnum. Það versta af öllu fyrir okkur er að veiðin skuli vera orðin svona mikil.

Herra forseti. Það hefur verið spurt um margt í þessari umræðu og ég get því miður ekki svarað því öllu þótt ég gjarnan vildi. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom með margar ágætar spurningar í ágætri ræðu sinni sem var afar málefnaleg. Hún spurði um þær áherslur sem eru uppi af hálfu ríkisstjórnarinnar í viðræðum við Evrópusambandið og aðildarþjóðir þess. Ég tel rétt að ræða það í utanrmn. þar sem ekki er tími til þess hér og er tilbúinn til þess að gera grein fyrir því. Hún spurði hvernig stæði á því að við værum orðnir aðilar að ályktunum ESB í utanríkismálum. Ástæðan er sú að það hefur verið aukið hið pólitíska samráð sem hefur gert það að verkum að við höfum getað gerst aðilar að nokkrum ályktunum í utanríkismálum og almennt séð erum við sammála Evrópusambandinu í mörgum utanríkismálum og líka Norðmenn. Evrópusambandið hefur lagt sig fram á sviði mannréttindamála og barist fyrir friði í fyrrum Júgóslavíu þannig að þetta eru mál sem við getum átt aðild að.

Hún spurði um skatt á eldsneyti. Það er engin slík umræða uppi hér á landi enn sem komið er um að auka skattlagningu á eldsneyti. Hins vegar er þessi skattlagning að aukast mjög víða í Evrópu og það verður ekki komist hjá því að umræða muni aukast um það hér á landi. Hún spurði um efnavopnatillöguna. Það er verið að undirbúa hana í utanrrn. Ég sé ekki fram á að það mál nái fram að ganga á þessu þingi en ég vænti þess að það verði hægt að leggja það fram í upphafi næsta þings.

Herra forseti. Tími minn er á þrotum. Ég biðst afsökunar á því að geta ekki svarað öllu því sem fram hefur komið og til mín hefur verið beint, en ég vænti þess að það verði hægt að taka það upp síðar.