Samningar við Færeyjar um fiskveiðimál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 22:24:34 (5215)

1996-04-23 22:24:34# 120. lþ. 125.3 fundur 470. mál: #A samningar við Færeyjar um fiskveiðimál# þál. 14/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[22:24]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að fagna í sjálfu sér tilurð þessara samninga. Ég vil nota þetta tækifæri til að undirstrika mikilvægi þess að gott samstarf hefur tekist með Íslendingum og Færeyingum, sérstaklega hvað varðar síldveiðideilurnar við Norðmenn og Rússa. Það er enginn vafi á því að sérstaklega má segja að samningurinn á síðasta ári skipti sköpum um hlutdeild okkar í veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum á því ári. Reyndar endaði það svo að mestöll veiðin fór fram innan færeysku lögsögunnar á grundvelli gagnkvæmnisákvæða samningsins sem gerður var í fyrra, nóttina eftir að slitnaði upp úr árangurslausum samningaviðræðum þjóðanna fjögurra í Reykjavík.

Staða mála er sú í dag að samkvæmt nýjustu fréttum er síldin um það bil að ganga inn í færeysku lögsöguna og færeysk skip eru að hefja veiðar þar inni í lögsögunni. Vel gæti svo farið að á nýjan leik yrðu helstu veiðimöguleikar sem okkur yrðu aðgengilegir úr þessum stofni innan færeyskrar lögsögu. Þó auðvitað vonum við að síldin haldi áfram og komi á sínar hefðbundu slóðir innan íslensku lögsögunnar.

Það er engum blöðum um það að fletta að slík veiði af okkar hálfu er úrslitaatriði til þess að byggja á kröfugerð og tefla fram í samningaviðræðum, sem vonandi komast einhvern tíma á á einhverjum heilbrigðum og eðlilegum grundvelli, um þennan stofn. Nákvæmlega eins og veiði okkar í Barentshafi er smátt og smátt að verða okkar sterkasta tromp í samningastöðu eða deilum við Norðmenn, er að sjálfsögðu rík nauðsyn að sýna fram á veiðanleika þessa stofns utan norskrar lögsögu og einkum og sér í lagi innan íslenskrar lögsögu ef svo vel vill til. Eins og málin standa nú halda Norðmenn því fram að nánast ekkert ætti að koma í hlut Íslendinga og sáralítið í hlut Færeyinga af þessum stofni vegna þess að hann haldi sig innan norskrar lögsögu, sé í raun og veru norskur og ekki mjög veiðanlegur annars staðar. Þetta þarf að afsanna efnislega og beint með veiðum úr því að sagan dugir ekki til í þeim efnum þó að það liggi fyrir að á fyrri árum þegar stofninn var í eðlilegri stærð, þá hélt hann sig að mestu leyti innan íslenskrar lögsögu eða að verulegu leyti, var meiri hluta ársins og veiðanlegastur hér og verðmætastur á þeim árstíma sem hann hélt sig hér.

Ég vil líka, herra forseti, minna á í þessu sambandi að það er fleira sem varðar samskipti okkar við Færeyinga sem ástæða væri til að taka fyrir og skoða í þessu samhengi. Reyndar tel ég að æskilegast væri að halda áfram að þróa samskipti á þessu sviði við okkar næstu nágranna, bæði Færeyinga og Grænlendinga í þá veru að smátt og smátt yrði til formlegt svæðisbundið samstarf þessara þjóða, ef ekki beinlínis svæðisstofnun í Norðvestur-Atlantshafinu sem færi með samskiptamál og sameiginleg mál. Ég held að það verði ekki of oft undirstrikað hversu verðmæt góð samskipti og samstarf er í tilvikum eins og þessum sem hér eru sérstaklega til umræðu, þar sem eru veiðarnar á norsk-íslensku síldinni því að það liggur nokkuð ljóst fyrir að við hefðum orðið hátt á annað hundrað þúsund tonnum af síld fátækari á liðnu ári ef ekki hefði komið til þessi samningur um gagnkvæman veiðirétt innan færeysku og íslensku lögsögunnar. Og enginn veit hverjar afleiðingarnar verða á þessu ári ef ekki væri aftur til að dreifa slíkum samningi.

Þó það sé ekki beint efni þessa máls, herra forseti, þá má líka minna á til að mynda gildi þess að Íslendingar og Grænlendingar hafa náð að stilla að nokkru leyti saman strengi í sambandi við strandríkjahagsmuni sína gagnvart Reykjaneshrygg og það er enginn vafi á því að það hefur styrkt stöðu þjóðanna í þeim efnum. Nákvæmlega það sama á við um fjölmörg sameiginleg hagsmunamál og allmörg þeirra eru reyndar sameiginleg með öllum þjóðunum þremur sem hér eru í mikilli sérstöðu í Norðvestur-Atlantshafinu.

Það er í sjálfu sér einboðið að mæla með samþykkt þessa samnings eða þessara samninga reyndar þó að það hafi kannski ekki mikil áhrif, enda var í samningnum að hluta til um flýtigildistöku að ræða þannig að eftir því sem á hefði reynt, þá hefði það ekki hindrað framgang málsins þó að hann sé til meðferðar á þingi nokkuð löngu eftir að hann var gerður og undirritaður í febrúarmánuði sl.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, herra forseti, en mér fannst vera á ferðinni mál sem verðskuldaði a.m.k. að einhverjir heiðruðu það með eins og smáræðustubbi, fleiri en hæstv. ráðherra.