Samningar við Færeyjar um fiskveiðimál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 22:36:18 (5218)

1996-04-23 22:36:18# 120. lþ. 125.3 fundur 470. mál: #A samningar við Færeyjar um fiskveiðimál# þál. 14/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[22:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek alveg skýrt fram að ég tel að þetta sé réttur framgangsmáti og ég þakka fyrir að þessir samningar eru lagðir fyrir þingið. Ég tel að það eigi tvímælalaust að halda þeirri hefð að milliríkjasamningur af þessu tagi komi fyrir Alþingi.

Það er líka að mínu mati eðlilegt, ekki síst vegna þess að það er þegar búið að ákveða að stjórna sókn í norsk-íslensku síldina af hálfu íslenskra skipa á grundvelli þessa samnings og þess þá heldur er eðlilegt að hann komi fyrir sem hluti af samningsskuldbindingum okkar og þá í tengslum við löggjöf okkar á þessi sviði.

Ég vil líka nota tækifærið til að segja að ég hef á hinn bóginn vissar efasemdir um að allar þær ákvarðanir sem hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. sjútvrh. hefur tekið í kjölfarið séu skynsamlegar. Ég hef vissar áhyggjur af því að menn kunni að hafa haft þá dagsetningu fullaftarlega sem ákveðin var sem upphaf veiðanna, þ.e. 10. maí. Ég hefði talið æskilegt að Íslendingar hefðu sent rannsóknarskip sem fyrst á miðin til þess að mæla fituinnihald og annað í síldinni og fylgjast með göngum hennar og síðan hefði verið hægt að hafa það opið hvenær veiðarnar hæfust því að staðreyndin er auðvitað sú að við höfum enga tryggingu fyrir því að síldin verði einfaldlega á því hafsvæði þar sem hún er okkur aðgengileg nema í skamman tíma ef illa fer. Það eru mjög mismunandi sjónarmið uppi um það hvort hún muni ganga suðvestur á bóginn og halda áfram gegnum færeyska lögsögu og inn í þá íslensku. Menn gera sér vissulega vonir um það og skilyrðin í hafinu eru að flestra mati eftir því sem vitað er heldur hagstæðari nú en þau voru í fyrra en það gæti líka gerst að hún tæki óvænta beygju og æddi upp með mörkum Smugunnar og íslensku lögsögunnar og endaði inni í Jan Mayen-lögsögunni fyrr en varir. Þá kynnu menn að naga sig dálítið í handarbökin yfir því að hafa t.d. beðið með það 10 dögum lengur en þurft hefði að hefja veiðarnar. Ég held líka að það væri ástæða til þess að við sýndum það m.a. með því að drífa rannsóknarskip þarna á miðin að við teljum okkur þessi mál varða ekkert síður en Norðmenn og það sé hlutverk okkar að rannsaka þennan stofn ekkert síður en Norðmanna enda eigum við hann a.m.k. að jafnmiklu leyti og þeir í öllu tilliti og það eigum við að sýna líka í verki með því að við lítum ekkert síður á það sem skyldu okkar en þeirra að fylgjast með göngum síldarinnar, rannsaka hana o.s.frv.

Ég vil nota þetta tækifæri til að koma þessum sjónarmiðum á framfæri að ég hefði gjarnan viljað sjá að menn hefðu staðið að þessu með svolítið opnari huga en þessum einum að taka ákvörðun við skrifborð í Reykjavík næstum mánuði áður en veiðarnar áttu að hefjast um að þær skulu byrja akkúrat 10. maí. Það var merkilegt að það skyldi bara ekki vera gefið út klukkan hvað nákvæmlega af því að það er dálítið eins og skot út í loftið að mínu mati og byggir á einhverjum ágiskunum um að þá hafi síldin fitnað svo og svo mikið o.s.frv. Þetta er ekki mjög vísindaleg eða nákvæm nálgun og þó að hér sé ekki við hæstv. utanrrh. að sakast eða hann beri ekki stjórnskipulega ábyrgð nákvæmlega á þessum þætti málsins þá vildi ég nota tækifærið til að koma þessu að og ítreka aftur það sem ég sagði áðan um mikilvægi þess að varðveita og viðhalda þessum góðu samskiptum.