Samningur milli Efnahagsbandalags Evrópu og Íslands

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 22:53:38 (5224)

1996-04-23 22:53:38# 120. lþ. 125.6 fundur 491. mál: #A samningur milli Efnahagsbandalags Evrópu og Íslands# þál. 11/1996, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[22:53]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Vorið 1994 óskuðu íslensk stjórnvöld eftir viðræðum við framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins um lækkun tolla á sjávarafurðum. Var óskin sett fram í ljósi væntanlegrar aðildar Austurríkis, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar að Evrópusambandinu en sem kunnugt er hafði samningur um fríverslun með sjávarafurðir á milli EFTA-ríkjanna komið til framkvæmda 1. júlí 1999. Síðan hafa staðið yfir langvarandi samningar um þessi mál og verið leitast við að ná sem bestri niðurstöðu fyrir Íslands hönd. Hér liggur þessi samningur fyrir.

Meginatriði hans eru þau að settur er 1.750 lesta innflutningskvóti af heilli hausskorinni saltsíld og 2.400 lesta kvóti af krydd- og edikverkuðum síldarafurðum. Auk þess má sérstaklega geta þess að samið var um 50 lesta kvóta af humri en þessi afurð ber 12% toll við innflutning til ESB þar sem Íslendingar hafa aldrei fyrr í samningum við Evrópubandalagið náð fram tollalækkun fyrir þessa afurð.

Þessi samningur gildir frá 1. jan. 1995 og verða því álagðir tollar frá þeim tíma fram að gildistöku samningsins endurgreiddir til innflytjenda þeirra afurða sem samningurinn nær til.

Herra forseti. Þessi samningur er hér með lagður fyrir Alþingi til umfjöllunar og væntanlega til staðfestingar. Það má vissulega halda því fram að æskilegt hefði verið að ná fram hærri kvótum í þessu máli. Ég tel að það hafi verið fullreynt og það hafi verið dregið eins lengi og nokkur kostur var að ná fram betri niðurstöðu sem ég hefði vissulega óskað eftir að sjá. Það var oft gefið í skyn að hér væri hægt að ná meiri árangri. Ég tel að þetta sé ásættanlegt að svo komnu máli en ég tel að hér sé ekki um fullnægjandi niðurstöðu að ræða og við þurfum því að halda áfram að taka þetta málefni upp á vettvangi samskipta okkar við Evrópusambandið.

Herra forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að málinu verði vísað til hv. utanrmn.