Norðurlandasamningur um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 22:58:59 (5226)

1996-04-23 22:58:59# 120. lþ. 125.8 fundur 493. mál: #A Norðurlandasamningur um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu# frv. 66/1996, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[22:58]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með frv. þessu er leitað heimildar fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Norðurlandanna um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu sem gerður var í Arendal 14. júní 1994. Frv. gerir ráð fyrir því að samningnum verði veitt lagagildi hér á landi og þegar það hefur gerst öðlast hann gildi að því er Ísland varðar.

Þegar viðræður hófust milli Evrópubandalagsins og EFTA-ríkjanna um Evrópska efnahagssvæðið var ákveðið að gera verulegar breytingar á Norðurlandasamningnum um félagslegt öryggi sem gerður var í Kaupmannahöfn 5. mars 1981. Jafnframt var ákveðið að skipta efni hans í tvo samninga og skyldi annar fjalla um almannatryggingar en hinn um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu.

Norðurlandasamningur um almannatryggingar var gerður í Kaupmannahöfn 15. júní 1992. Ríkisstjórninni var veitt heimild til að staðfesta hann með lögum nr. 46/1993 og var honum jafnframt veitt lagagildi hér á landi. Með þeim samningi var Norðurlandasamningurinn um félagslegt öryggi felldur úr gildi að undanskildum ákvæðum hans um félagslega aðstoð og fyrirframgreiðslu meðlags. Þegar Norðurlandasamningurinn um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu, sem hér er til umfjöllunar, öðlast gildi mun samningurinn frá 5. maí 1981 endanlega falla úr gildi.

Samkvæmt samningnum gildir sú meginregla að ríkisborgarar norræns lands, sem dvelja með lögmætum hætti tímabundið eða hafa löglega búsetu í öðru norrænu landi, skulu njóta sama réttar og ríkisborgarar þess lands til félagslegrar aðstoðar og félagslegrar þjónustu svo og annarra félagslegra bóta sem ákvæði Norðurlandasamningsins um almannatryggingar frá 15. júní 1992 taka ekki til. Norrænir ríkisborgarar sem dveljast eða eru búsettir í öðru norrænu landi skulu með öðrum orðum njóta jafnréttis á við þegna þess lands hvað varðar félagslega aðstoð og félagslega þjónustu sem er eitt af því mikilvægasta í norrænni samvinnu í gegnum tíðina.

Ég vil að þessum orðum mæltum, herra forseti, og að lokinni þessari umræðu leggja til að frv. verði vísað til hv. utanrmn.