Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 23:11:08 (5232)

1996-04-23 23:11:08# 120. lþ. 125.13 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[23:11]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá 1. minni hluta menntmn. sem finna má á þskj. 825. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Menntamálanefnd hefur fjallað um frumvörpin og fengið á sinn fund fulltrúa frá Háskóla Íslands og stúdentaráði. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málin frá HÍ, SHÍ, Félagi háskólakennara, Félagsstofnun stúdenta, Bandalagi háskólamanna, KHÍ, HÍK og BSRB.

Tilefni frumvarpanna er álit umboðsmanns Alþingis frá 19. maí 1995 þess efnis að ekki sé nægilega skýrt í gildandi lögum hvaða kostnaðarliði megi fella undir skrásetningargjald í háskólana og hvernig megi ráðstafa gjaldinu.

Skrásetningargjald við Háskóla Íslands var hækkað úr 7.700 kr. skólaárið 1991--92 í 22.350 kr. 1992--93. Í umsögn Háskóla Íslands um frumvörpin segir að hækkunin hafi verið afleiðing af stefnu stjórnvalda í fjárveitingum til háskólans frá og með fjárlögum ársins 1992, en samkvæmt þeim var Háskóla Íslands ætlað að auka sértekjur sínar úr 10 millj. kr. í tæpar 100 millj. kr. Fjárveitingar til háskólans voru skertar um 90 millj. kr. með því að draga sértekjurnar frá heimiluðum útgjöldum. Hliðstæð ráðstöfun hefur gilt í fjárlögum fyrir 1993, 1994 og 1995. Gjaldið var 22.275 kr. skólaárið 1995--96. Eftirfarandi ályktun í umsögn Háskóla Íslands kemur því ekki á óvart: ,,Þannig má ljóst vera að það er greinilegur vilji löggjafans, sem fram kemur í fjárlagafrv. ársins 1992 og síðar, að neytendur greiði vaxandi hluta af þjónustu hins opinbera, þar á meðal fyrir skólagöngu í framhaldsskólum og háskólum.`` Háskólinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt um leið og minnt er á að háskólaráð hefur ítrekað mótmælt því að háskólinn sé settur í þá stöðu að þurfa að innheimta gjald af stúdentum til reksturs skólans.

Undirrituð virðir það álit umboðsmanns að nauðsynlegt sé að treysta lagagrunn undir töku viðkomandi skrásetningargjalds og hvernig því er ráðstafað. Að öðrum kosti yrði að fella skrásetningargjaldið niður eða lækka það til fyrra horfs. Frumvörpin sýna að ríkisstjórnin velur fyrri kostinn. Ríkisstjórnin er með frumvörpunum að ákveða að háskólarnir skuli afla sértekna með svokölluðum skrásetningargjöldum sem nemi 24.000 kr. árlega. Hér er um lagaheimild að ræða til töku þjónustugjalds fyrir skrásetningu. Í greinargerð með frumvarpinu er útlistað hvernig umrædd upphæð er fengin og hvaða þættir falla undir þennan lið. Þar vekur í fyrsta lagi athygli að upphæðin er fengin með því að framreikna þá upphæð sem háskólinn innheimti í sama tilgangi háskólaárið 1992--93 og ætlunin er að endurskoða gjaldið árlega við setningu fjárlaga. Í öðru lagi er ljóst að ýmislegt fleira er fellt undir gjaldið en það sem kallast getur skráning, svo sem námsráðgjöf, námskynning, aðgangur að kennslusviði, deildarskrifstofum, bókasafni og alþjóðaskrifstofu, svo og tölvum og prenturum háskólans.

Af því yfirliti sem menntamálanefnd barst frá Háskóla Íslands má ætla að raunverulegur skráningarkostnaður auk kennsluskrár sé innan við 3.000 kr. Hér er því verið að lögfesta töku á þjónustugjaldi undir rangnefni. Í greinargerðinni er þó gerð tilraun til að réttlæta það að kalla umrætt gjald skráningargjald en hún er ósannfærandi. Spyrja má hvers vegna hugtakið skólagjald er ekki notað úr því að ljóst er að um dulbúið skólagjald er að ræða? Ef viðkomandi gjald kallaðist skólagjald væri rökrétt að álykta að þeir sem stunda minna en fullt nám greiddu skólagjöld í hlutfalli við það. Að þeir sem taka t.d. fimm einingar á önn í stað 15 greiddu aðeins þriðjung skólagjalda. Erfiðara er að réttlæta slíka skiptingu, sem er í raun mikið réttlætismál, ef um skrásetningargjald er að ræða. Þó má benda á að miðað við þá kostnaðarliði sem taldir eru upp í greinargerð má færa gild rök fyrir því að mun meiri ,,skrásetningarkostnaður`` hljótist af nema í fullu námi en þeim sem er í skertu námi, t.d. varðandi tölvunotkun.

[23:15]

Það er niðurstaða undirritaðrar að hér sé farið út á þá vafasömu braut að innheimta þjónustugjald undir fölsku flaggi. Sem skráningargjald er það allt of hátt og í engu samræmi við skráningarkostnað. Því er lagt til að frumvörpin verði felld og að skráningargjöld háskólanna verði lækkuð til fyrra horfs. Um leið þarf að sjálfsögðu að hækka fjárveitingar til háskólanna.``

Undir þetta álit ritar nafn sitt hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir.

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér mjög litlu við þetta nefndarálit að bæta nema að ítreka það að kjarni þessa máls er að það er verið að innleiða skólagjöld á háskólastigi dulbúin undir heitinu skrásetningargjald. Það mun Kvennalistinn aldrei líða.