Afgreiðsla stjórnarfrumvarpa fyrir þingfrestun

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 13:35:16 (5250)

1996-04-24 13:35:16# 120. lþ. 126.92 fundur 269#B afgreiðsla stjórnarfrumvarpa fyrir þingfrestun# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[13:35]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Vegna athugasemda hv. 4. þm. Norðurl. e. þá er það rétt að það eru mjög mörg mál enn þá í meðferð í þinginu, bæði í nefndum þingsins og eins bíða mál afgreiðslu og umræðna. Ríkisstjórnin hefur nýlega farið yfir þessa málaskrá og metið þau eftir þýðingu. Það er ljóst að langflest þessara mála, eins og hv. þm. reyndar gat um, eru þess eðlis að um afgreiðslu þeirra ætti að geta verið þokkaleg sátt. En eins og gengur og eðlilegt er á þingi af okkar tagi, er auðvitað ágreiningur um nokkur mál sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að séu afgreidd. Ég tel því að út af fyrir sig sé enn þokkalegur tími til þess að koma málum með góðu vinnulagi í gegnum þingið. Mér er ekki kunnugt um að hv. forsætisnefnd hafi rætt um að lengja þinghaldið frá því sem gert er ráð fyrir í starfsáætlun þingsins, en frá mínum bæjardyrum séð kemur slíkt auðvitað til greina ef þingið telur nauðsynlegt, til þess að ljúka málum, að lengja þann tíma sem við höfum gert ráð fyrir að starfa. Ég tel þó að þar þurfi að stilla okkur nokkuð í hóf því að eðlilegt sé að þingið veiti forsetakosningum og nauðsynlegum umræðum um þær eðlilegt svigrúm í þjóðfélagsumræðunni. Þar þurfum við því að kunna okkur hóf. En ég fyrir mitt leyti tel að það komi til greina að lengja starfstímann eitthvað.

Vegna bandormsins sem spurt var um sérstaklega, þá geri ég ráð fyrir að honum verði dreift við fyrsta tækifæri eftir þingflokksfundi í dag.