Afgreiðsla stjórnarfrumvarpa fyrir þingfrestun

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 13:41:37 (5253)

1996-04-24 13:41:37# 120. lþ. 126.92 fundur 269#B afgreiðsla stjórnarfrumvarpa fyrir þingfrestun# (aths. um störf þingsins), KH
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[13:41]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir orð og áhyggjur þeirra sem hér hafa talað og gagnrýnt það vinnulag sem hér er við haft. Mig undrar satt að segja að ekki skuli vera farið að ræða af neinni alvöru og reyna að komast að samkomulagi um skipulag þinghaldsins og þingstarfanna það sem eftir lifir áætlaðs þingtíma. Okkur er deginum ljósara að eitthvað verður undan að láta. Ég minni náttúrlega eins og aðrir á stóru ágreiningsmálin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og frv. um vinnulöggjöfina.

Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að það háttar svo til að það er misjafnt álag á nefndirnar og það eru mörg, stór og erfið mál og ágreiningsmál sérstaklega í tveimur nefndum þingsins, í efh.- og viðskn. og í allshn. Í efh.- og viðskn. eru komin þessi stóru frv. um fjármagnstekjuskattinn sem menn hljóta að spyrja hvort sé ætlunin að taka fyrir eða ekki. Það verður aldrei hægt að afgreiða nema brot af þessum málum sem fyrir liggja nema ætlunin sé að þingið standi fram á sumar og það held ég að enginn ætli sér, enda kom það fram í máli hæstv. ráðherra áðan. En það eru líka annir í öðrum nefndum og stórmál sem verið er að vinna að. Ég minni þar á formbreytingu Pósts og síma og frv. til laga um náttúruvernd. Það er ýmislegt í fjárln. og það er framhaldsskólafrv. o.fl. sem er eftir að afgreiða þannig að það er nauðsynlegt að fara að koma því á hreint fyrir hverju menn ætla að beita sér. Og þá hljótum við að líta á málin með raunsæi en ekki eintómri óskhyggju.