Flugskóli Íslands hf.

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 14:07:38 (5259)

1996-04-24 14:07:38# 120. lþ. 126.13 fundur 461. mál: #A Flugskóli Íslands hf.# frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[14:07]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Bóklegt nám til atvinnuflugsréttinda var um árabil rekið á vegum menntmrn. sem námsbraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Árið 1987 var námið flutt til Reykjavíkur en áfram rekið í samræmi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þessu fyrirkomulagi var breytt haustið 1991 og var þá Flugmálastjórn falið að annast þetta nám á vegum ráðuneyta menntamála og samgöngumála. Um það leyti var skipuð nefnd á vegum samgrn. til að gera tillögur um hvernig atvinnuflugnámi skyldi háttað til frambúðar. Nefndin skilaði áliti 1992 og lagði til að stofnaður yrði sérstakur skóli til að sinna atvinnuflugnámi. Formaður nefndarinnar var Þórhallur Jósefsson, deildarstjóri í samgrn., en aðrir í nefndinni voru Grétar Óskarsson, framkvæmdastjóri loftferðaeftirlits, Skúli Jón Sigurðsson, deildarstjóri loftferðaeftirlits, Ólafur Arnarson frá menntmrn., Ólafur Finnsson frá Félagi ísl. atvinnuflugmanna og Hjálmar Árnason, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Síðan nefndin skilaði áliti hefur verið unnið að undirbúningi frv. til laga um Flugskóla Íslands. Að því starfi hafa komið fjölmargir aðilar auk samgrn., þar á meðal Flugmálastjórn, flugráð, flugrekendur og flugskólar. Frv. er í meginatriðum í samræmi við niðurstöður nefndarinnar. Jafnframt þessu undirbúningsstarfi hefur bóklegu flugnámi verið haldið áfram á vegum samgrn. og hefur Flugmálastjórn annast framkvæmdina.

Á undanförnum árum hefur verið vaxandi þörf fyrir að mennta flugmenn til starfa hjá íslenskum flugfélögum. Á árunum 1978--1991 voru útskrifaðir 185 nemendur með atvinnuflugmannsskírteini með blindflugsáritun, þ.e. um 13 flugmenn á ári að meðaltali og á yfirstandandi ári er útlit fyrir að 44 nemendur verði útskrifaðir. Þetta stafar einkum af mjög aukinni eftirspurn eftir flugmönnum. Því er ljóst að þörfin fyrir að koma þessu námi í fastar skorður til frambúðar er brýn. Þetta er þeim mun nauðsynlegra sem á næstu árum munu taka gildi hér á landi nýjar evrópskar reglugerðir sem gera auknar kröfur um menntun og þjálfun atvinnuflugmanna.

Í frv. er gert ráð fyrir að veita samgrh. heimild til að beita sér fyrir stofnun hlutafélags um rekstur flugskóla sem nefna skal Flugskóla Íslands hf. Í þessu skyni verði ráðherra heimilt að leggja fram í reiðufé allt að 4 millj. kr. sem hlutafé í hinu nýja félagi og kveðja aðra aðila til samstarfs um stofnun þess. Auk þess verði ráðherra heimilt að leggja félaginu til þann búnað sem Flugmálastjórn hefur nýtt til flugkennslu og verði hann metinn til hlutafjár.

Haft var samráð við flugráð og leitað álits starfandi flugskóla og flugrekenda á því hvað þeir teldu vera eðlilegt rekstrarform slíks skóla og hvort áhugi væri af þeirra hálfu á þátttöku í hlutafélagi um skólann. Ljóst er að kostir hlutafélagsformsins eru verulegir umfram ríkisrekstur á þessu sviði. Þar sem loftferðaeftirlit Flugmálastjórnar hefur eftirlit með flugskólum samkvæmt reglugerð og Flugmálastjórn fer með framkvæmd og umsjón prófa og útgáfu atvinnuskírteina er talið rétt að höggva á þau nánu rekstrarlegu tengsl sem verið hafa milli Flugmálastjórnar og skólans með stofnun hlutafélags um Flugskóla Íslands. Hlutafélagsformið gefur aðilum sem hagsmuna eiga að gæta varðandi rekstur skólans kost á að gerast eignaraðilar og hafa þannig áhrif á stefnu skólans og viðgang. Gert er ráð fyrir að skólinn verði í meirihlutaeigu ríkisins og samgrh. fari með eignarhlut þess.

Í 6. gr. frv. er miðað við að eignarhlutur ríkisins verði aldrei minni en 51% og að enginn einn aðili annar en ríkissjóður eigi meira en 20% hlutafjár. Hlutverk Flugskóla Íslands hf. verður að veita menntun sem gerir nemendur hæfa til að taka að sér störf í þágu atvinnuflugs í samræmi við ákvæði laga og reglna þar um. Kennsla sú sem skólinn á að veita miðast við öll stig atvinnuflugnáms og að búa nemdendur undir próf loftferðaeftirlits Flugmálastjórnar til öflunar atvinnuflugréttinda. Mikilvægt er að veita nemendum bestu menntun sem völ er á hverju sinni og að nemendur útskrifist með skírteini sem viðurkennd verða af Samtökum loftferðaeftirlita í Evrópu og öðlist þar með réttindi í öllum aðildarríkjum þeirra samtaka en í þeim samtökum eru öll Evrópusambandsríkin og EFTA-ríkin. Þessi samtök vinna að setningu reglna um flugskóla sem eiga að skilgreina hvaða kröfur þeir skulu uppfylla til þess að þessum markmiðum verði náð.

Flugskóli Íslands hf. á einnig að leita samvinnu og samstarfs við aðra flugskóla um ákveðna kennsluþætti, einkum þá verklegu. Ekki er gert ráð fyrir að skólinn eigi kennsluvélar heldur semji hann við aðra starfandi flugskóla sem kenna til einkaflugprófs um afnot af flugvélum eða um aðra þjónustu. Ef Flugskóli Íslands hf. ætti að koma sér upp kennsluvélum yrði það afar kostnaðarsamt. Stofnkostnaður við flugvélar, flugskýli og búnað þess er hár, auk þess sem búast má við miklum rekstrarkostnaði. Því er gert ráð fyrir þeim möguleika að skólinn geti samið um afnot á slíkum vélum fyrir hönd nemenda sinna við framangreinda flugskóla, svo og um störf flugkennara. Þar sem nemendur í flugnámi greiða sjálfir kostnað af verklegu námi er talið eðlilegt að þeir eigi kost á að semja sjálfir um flugvélar eða leggja til eigin vélar enda verði skilyrðum skólans að öllu leyti fullnægt.

Jafnframt á Flugskóli Íslands hf. að sinna endurmenntun atvinnuflugmanna eftir því sem þörf krefur. Í þessu sambandi er hugsanlegt að skólinn taki að sér kennslu eða þjálfun fyrir flugrekendur og Flugmálastjórn.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og samgn.