Flugskóli Íslands hf.

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 14:29:12 (5261)

1996-04-24 14:29:12# 120. lþ. 126.13 fundur 461. mál: #A Flugskóli Íslands hf.# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[14:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni að þetta er nokkuð sérkennilegt mál. Að öðru leyti verð ég að hafa fyrirvara á um ýmislegt úr ræðu hv. ræðumanns. Ég náði ekki að fylgja honum alltaf eftir á fluginu, ég verð að viðurkenna það. Þó að hann sé vissulega fremstur á meðal jafningja eins og hv. þm. segir stundum um aðra menn, a.m.k. þegar þeir alþýðuflokksmenn standa í beinni línu, þá er hv. þm. fremstur í vissum skilningi.

Ég tek hins vegar mjög undir það að málið er sérkennilegt svo ekki sé meira sagt, bæði hvað varðar inntak og rökstuðning sem er fátæklegur og skrýtinn. Hér er sem sagt verið að búa til einhvers konar ,,háeff-skóla``. Ríkið er að stofna ,,háeff-skóla`` um fræðslu á tilteknu sviði. Og það er gert betur en svo. Þótt ríkið eigi stundum samskipti við einkaskóla er mér ekki kunnugt um að það leggi með beinum hætti fram tæki og búnað auk verkefnisins sem slíks, þ.e. að afhenda þessum skóla með samningi fræðslu til atvinnuflugnáms í flugi. Og nú ætlar ríkið að leggja fram peninga í viðbót sem hlutafé í þennan ,,háeff-skóla``. Satt best að segja er þetta afar sérkennileg blanda sem þarna er að verða til, afar sérkennilegur kokkteill. Er þetta einhvers konar neyðarlínusamkrull sem hér á að fara að eiga sér stað?

[14:30]

Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum þarf fræðsla á þessu sviði að vera með einhverjum öðrum hætti en á öðrum sambærilegum sviðum? Hvað er það sem gerir nám til atvinnuflugs svo sérstakt eða frábrugðið t.d. fræðslu skipstjórnarmanna? Þeir fá hliðstæð réttindi í tilteknum áföngum í kjölfar náms sem að mörgu leyti er sambærilegt, tæknilegs eðlis o.s.frv. Mér er ekki kunnut um að neinum hafi dottið í hug að það þurfi endilega að vera ,,háeff-skólar`` sem t.d. mennta stýrimenn, vélstjóra eða aðra slíka. Hvers vegna þarf þetta þá að vera með svo sérkennilegum hætti á sviði flugnáms?

Ef menn telja, og það er röksemd sem ég er tilbúinn til að ræða, að gera þurfi breytingu á núverandi fyrirkomulagi eru auðvitað margar aðrar leiðir og að mínu mati flestar nærtækari en þær að fara að búa til eitthvert einstakt fyrirbæri, ,,háeff-skóla`` sem ríkið er þó að hluta til aðili að, einhvern bastarð, kynblending. Mér er ekki kunnugt um að slíkt eintak fyrirfinnist í skólakerfi landsmanna. Ég held að hér sé verið að fara út á algerlega nýja braut. Ég tel, herra forseti, að við verðum að sækja hæstv. menntmrh. aftur til þess að ræða við hann um það hvort menntmrn. telur þetta eðlilegt sem hér er að fara að gerast og óska eftir því að það verði kannað hvað hæstv. menntmrh., sem var brosmildur og skemmtilegur í gærkvöldi eins og kunnugt er í umræðum um skólagjöld, geti ekki komið og rætt við okkur menntastefnuna hvað varðar fræðslu á sviði flugmála.

Núverandi fyrirkomulag er reyndar ekki gamalt í hettunni. Ef ég man rétt, er nýlega slitnað upp úr því samstarfi eða fallið frá því fyrirkomulagi sem verið hafði um árabil að Fjölbrautaskóli Suðurnesja annaðist þessa fræðslu, bóknámshluta atvinnuflugnámsins. Hvers vegna er þá ekki valin sú leið, ef menn ekki vilja reka sérstakan skóla á þessu sviði, að semja við skóla í höfuðborginni um þessa fræðslu? Ég sæi ýmsa kosti við það. Kannski kann að orka tvímælis að reka sjálfstæðan skóla á sviði flugnáms. Það er e.t.v. fulllítil eining og að mörgu leyti óhagkvæm nema þá sem deild eða í tengslum við Flugmálastjórn. Þar ættu að vera að mörgu leyti hæg heimatökin, þaðan kæmi þá í vissum tilvikum mannskapur. Þar er jafnvel aðstaða fyrir hendi til að kenna þessa hluti, en látum það vera. Við skulum segja að mönnum þætti ekki heppilegt að hafa stýrimannanám inni á Siglingamálastofnun, gott og vel. En það þýðir ekki að þar með verði að stofna einkaskóla um stýrimannafræðsluna. Frá svona aðskilnaðar- og hreinlífissjónarmiðum eru e.t.v. rök fyrir því að skilja á milli skólans og Flugmálastjórnar og kannski sérstaklega loftferðaeftirlitsins sem er hluti af þeirri stofnun. En það er alveg út í hött að nota það sem einhver rök fyrir því að fara út í þau ósköp að búa til þennan sérkennilega kokkteil af einkavæddum skóla en þó með framlagi ríkisins. Og hvað gerist í kjölfarið? Það er augljóst mál að þessi skóli öðlast samstundis einkarétt á kennslu til flugnáms. Það liggur í augum uppi að atvinnuflugnámsþáttinn munu ekki aðrir reyna að starfrækja með tilheyrandi kostnaði, kaupum á tækjum o.s.frv. Mér finnst þetta því mjög sérkennilegt svo ekki sé meira sagt. Það vantar í raun og veru allan rökstuðning í þessum efnum.

Flugleiðamenn telja að vísu að ágætt sé að koma þarna upp skóla í hlutafélagaformi, en þeir segja jafnframt: Ríkið á auðvitað að borga þetta nám. Þetta er nám eins og annað nám í landinu og rekstur skólans á að vera greiddur úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni. Í því sambandi er bent á að íslenska ríkið stendur nær alfarið straum af kostnaði við grunnmenntun langflestra starfsstétta og að ekki séu forsendur til að undanskilja bóklegt nám atvinnuflugmanna. Ég tel að það sé með vissum hætti verið að hártoga afstöðu Flugleiða þótt að í þeirra umsögn virðist koma fram að þeir telji hlutafélagaformið sem slíkt geta dugað þarna.

Hinn aðilinn sem sýnir þessu máli þó þann sóma að senda inn umsögn rekur kannski einn stærsta og virtasta flugskóla fyrir einkaflugmannsnám, a.m.k. utan höfuðborgarinnar. Þar á ég við Flugfélag Norðurlands. Það hefur langa reynslu af því að kenna mönnum til flugs, er sjálft með umfangsmikinn flugrekstur, ræður flugmenn o.s.frv. Það er með alveg hreina afstöðu í þessu efni og segir: Þetta á auðvitað að vera ríkisskóli. Skólinn á að vera alfarið í eigu ríkisins og rekinn af ríkinu eins og hver annar skóli í landinu. Ísland er svo lítill markaður, segja þeir, að það er afar hæpið að einkaaðili geti skapað nægilega góða kennsluaðstöðu með hæfum kennurum við skólann. Flugfélag Norðurlands telur augljóslega ekki rúm fyrir fleiri en einn slíkan skóla hér á landi, en samkeppni hlýtur að vera forsenda þess að um einkarekstur verði að ræða í þessari grein. Þessu er ég hjartanlega sammála. Ef menn ætla út í einkarekstur og einkavæðingu yrði það að vera á þeim forsendum að það gætu þá fleiri boðið fram þessa þjónustu. Ætlar ríkið þá að sitja uppi með þá stöðu að það hafi lagt einum einkaskóla til heimanmund, tæki, búnað, fé og afhent honum verkefni og ætlast svo kannski til þess að aðrir komi og bjóði upp á þá þjónustu líka? Það gengur ekki upp, það er endileysa. Hvar er hin fræga Samkeppnisstofnun þá með sína endemis úrskurði um það hvað ríkið megi og megi ekki í þessum efnum? Ég held að þetta orki allt mjög tvímælis.

Ég spyr líka um það fordæmi sem hér er verið að gefa. Hvers konar fordæmi er verið að gefa hér gagnvart menntakerfinu almennt? Nú er það svo að sumir sérskólar eru ekki undir menntmrn. Mér er nærtækt að taka dæmið af landbúnaðarskólunum. Þeir heyra undir landbrn. Það er vissulega óvenjulegt að fagráðuneyti sé að reka skóla og stjórna menntamálum, en þetta er nú einu sinni svona hjá okkur. Eins og þetta dæmi sannar heyra skólar undir samgrn. og skólar heyra undir landbrn. Hver er orðinn munurinn á því að krefjast þessa og t.d. að búnaðarskólarnir séu bara einfaldlega einkaskólar og reknir í einhverju samkrulli ríkisins og fyrirtækja eða aðila í greininni? Út á hvaða braut eru menn að fara? Ég hvet eindregið til þess að menn fari ekki út í þessa ófæru án þess að athuga málin vel. Miðað við reynsluna af samstarfinu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja gekk það í alla staði vel. Nema að einu leyti og það var ósköp einfaldlega staðsetningin. Staðsetningin mætti vaxandi andstöðu. Á köflum voru svo til allir nemendurnir úr Reykjavík og þeim þurfti að aka kvölds og morgna í rútu suður eftir með því óhagræði sem því fylgdi. Það var fyrst og fremst það, ef ég kann hlutina rétt, sem olli erfiðleikum í því samstarfi. Er þá ekki nærtækast að skoða hvort menn leysa ekki slíkt ósköp einfaldlega með því að búa starfseminni stað hér? Ef menn vilja ekki flugskólarekstur í tengslum við Flugmálastjórn eins og verið hefur ætti að kanna hvort ekki sé hagkvæmt, skynsamlegt og álitlegt til frambúðar að koma þessum skóla fyrir í samstarfi við einhverja myndarlega fræðslustofnun á höfuðborgarsvæðinu. Þar gætu fjölbrautaskólar sem eru með öflugar verknámsdeildir komið til sögunnar, en þar gæti t.d. líka Tækniskóli Íslands komið til sögunnar. Ég nefni það sem hugmynd að Tækniskólinn ósköp einfaldlega tæki að sér þetta nám. Ég gæti ímyndað mér að það færi að mörgu leyti vel saman við ýmsa þætti starfseminnar þar og þar er reyndar skóli sem er upp á háskólastig. Það ætti því að gefa mikla möguleika í þeim efnum.

Ég held líka að það sé að mörgu leyti mjög æskilegt að það verði til einhvers staðar öflug miðstöð þekkingar í þessum efnum. Hún mætti mjög gjarnan byggjast upp við einhverja rótgróna fræðslustofnun á svæðinu. Ég er ekki viss um að það verði með sama hætti ef þarna verður rekinn lítill, algerlega sérhæfður einkaskóli sem ekki sinnir neinum öðrum verkefnum en bara þessu einu. Þar af leiðandi hlýtur það eðli málsins samkvæmt að verða þannig að kennarar koma úr ýmsum áttum, stundakennarar o.s.frv. Það verður ekki grundvöllur fyrir því að hópur fastráðinna kennara með þekkingu á þessu sviði starfi við stofnun sem gæti byggst upp sem myndarleg þekkingarmiðstöð í þessum efnum. Því mundu fylgja að mínu mati miklir kostir að svo tækist til. Flugið er gífurlega mikivæg atvinnustarfsemi á Íslandi og hefur svo lengi verið. Það eru sennilega fáar þjóðir ef nokkrar í heiminum sem eru bæði jafnháðar flugi um eigin samgöngur og hafa jafnumfangsmikinn flugrekstur með höndum miðað við hina frægu höfðatölureglu eða hvað sem er. Eða t.d. gjaldeyrisöflun. Ætli það séu margar þjóðir sem eru með jafngífurlegar gjaldeyristekjur af flugrekstri einum og sér? Menn taka og flagga auðvitað mikið tölum um heildargjaldeyrissköpun í ferðaþjónustu en staðreyndin er sú að sú tala er m.a. svo há vegna þess að hinn umfangsmikli flugrekstur er allur í okkar höndum, ekki bara vegna fjölda ferðamanna. Lengst af hefur svo til allt flug til og frá Íslandi verið í höndum Íslendinga. Nú er það að vísu aðeins að breytast. Sú tala er eitthvað að lækka en er samt langt yfir 80%, sennilega nær 90% af umsvifunum enn sem komið er.

Íslendingar hafa m.a. rekið umfangsmikinn flugrekstur í útlöndum og nægir þar að nefna umfangsmikla starfsemi flugfélagsins Atlanta. Það kallar auðvitað á öfluga menntun starfsstéttanna í fluginu að þessu sé haldið úti. Þess vegna eru menn ekki með eitthvað í höndunum sem skiptir engu máli.

Eins og ég segi, herra forseti, þá geta verið rök fyrir því að aðskilja Flugmálastjórn og loftferðaeftirlitið og þennan skólarekstur í og með vegna þess að þau yfirvöld, flugmálayfirvöldin, gefa út réttindin og þau hafa eftirlit með náminu. Það má vel segja að það sé þá óeðlilegt að þau séu að hafa með vissum hætti eftirlit með sjálfum sér. Þá gerum við það. Þá skiljum við þarna á milli. En eru menn endilega að fara í rétta átt með því að taka langstærsta hagsmunaaðilann í flugi í landinu í staðinn inn í skólann, Flugleiðir? Það er það sem er í og með verið að boða hér. Flugleiðir bjóða fram hlutafé og aðild að skólanum. Það er út af fyrir sig gott og vel. Það er eðlilegt úr því að menn eru að hugsa um þessa formúlu. En ég spyr: Er það endilega framför að í staðinn fyrir Flugmálastjórn komi Flugleiðir? Ætli mönnum þyki ekki víða að þeirra olnbogar séu nógu fyrirferðarmiklir í sambandi við flugmál í landinu. Það er staðreynd að það hefur oft og tíðum gengið erfiðlega að manna stjórnir, nefndir og ráð þannig að ekki væru óumflýjanlegir hagsmunaáekstrar þar inni byggðir. Fræg eru dæmin af skipan flugráðs o.s.frv. Með þessu er ekki verið að vega að þeim ágætu mönnum sem þar starfa eða hafa setið. Ég bendi einfaldlega á þá staðreynd að menn eru með svo tiltölulega sérstaka stöðu í þessum efnum þar sem einn aðili er alveg yfirgnæfandi. Það er því oft og tíðum erfitt að forðast aðstæður þar sem menn lenda báðum megin við borðið. Ég held að langskásta lausnin á þessu sé að ríkið hafi þennan þátt með höndum, ríkið reki skólann. Og ég hefði hreinlega sagt í leiðinni: Eigum við ekki að færa hann undir menntmrn.? Er þá ekki eðlilegast að leysa samgrn. undan þessari kvöð og semja við skóla, sem tilheyrir menntakerfinu og er undir menntmrn., um að taka þetta verkefni að sér? Það mætti gera á grundvelli athugunar á því hvar væri heppilegast að koma slíku fyrir. Þá eru engin vandamál samfara því að afhenda tæki, búnað og tól. Þá þarf enga peninga væntanlega að leggja fram. Þá koma þeir á fjárlögum til reksturs skólans þegar þar að kemur. Þá þarf ekki að fara þessa, mér liggur við að segja hallærislegu leið. Meta flugherminn til fjár og leggja hann inn í hlutafélag sem fémæti. Þetta er að mínu mati alger þvæla. --- Fyrirgefðu, herra forseti, ég leyfi mér að orða það svo. Ég finn bara ekki betri orð. (Samgrh.: Ég er viss um að þingmaðurinn sýni nóga kurteisi.) Já, þetta er nú ekki mjög dónalegt orð, hæstv. ráðherra. Við höfum séð það svartara á Norðurlandi en þetta.

[14:45]

Herra forseti. Ég vona að hv. nefnd sem fær þetta til umfjöllunar geti gefið sér tíma til að fara yfir þetta. Ef svo er, sem líklegt er nú, að sá tími sé tæpast fyrir hendi á þessu vorþingi, þá er mér ekki kunnugt um að neinar brýnar nauðir reki til að afgreiða þetta nú. Væntanlega er starfsemi skólans eins og stendur þannig háttað að hann getur haldið áfram á meðan þetta mál er í vinnslu. Ég tel einnig nauðsynlegt að hv. menntmn. fái þetta mál til skoðunar því að það er þrátt fyrir allt algert nýmæli ef út á þessa braut yrði farið. Það er eðlilegt að menn staldri við og spyrji sig: Hvaða fordæmi er þá verið að gefa hér út frá áhrifum á önnur sambærileg tilvik sem þá gætu orðið, en einnig út frá því hvort hér sé verið að búa um flugnámið í landinu eins og við teljum heppilegast og farsælast og því til góðs? Því að auðvitað verðum við líka horfa í það að það má ekki kasta þessu á milli sín þannig að það sé endalaust umrót í kringum þetta nám. Það er alveg nóg sem búið er að vera frá því að þetta var fært af Suðurnesjunum og þessi skóli búinn til og svo þessar breytingar sem nú eru boðaðar. Ég held að það sé engum til góðs að vera með svona hluti endurtekið í höndunum. Yrði þetta hlutafélag stofnað, og það yrðu einhverjir að koma inn í það eða fara út úr því og hlutafjáraukningar í gangi, sala einhvers hluta ríkisins aftur o.s.frv., þá held ég að það gæti orðið bölvað rugl og mundi ekki skapa þá festu í þessum efnum sem nauðsynlegt væri. Þannig er nú það, herra forseti.

Ég segi að lokum að það er alveg óhjákvæmilegt að skoða þetta mál vandlega. Það á ekki að kasta neitt til höndunum að því að afgreiða þetta. Hæstv. ráðherra hlýtur að gera sér grein fyrir því að með því að málið er svona seint fram komið, þá er ekki sanngjarnt að gera þá kröfu að því sé haskað í gegnum þingið, enda við ýmislegt annað að sýsla eins og kunnugt er. Ég treysti því að þetta fái faglega og vandaða skoðun í hv. samgn. og gangi til umsagnar til menntmn. og verði þannig rækilega unnið áður en það verður afgreitt og þá að mínu mati vonandi og helst í gjörbreyttri mynd.