Flugskóli Íslands hf.

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 14:47:44 (5262)

1996-04-24 14:47:44# 120. lþ. 126.13 fundur 461. mál: #A Flugskóli Íslands hf.# frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[14:47]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég fór yfir þetta frv. um Flugskóla Íslands og vonaðist eftir skýringum hjá hæstv. ráðherra á því hvað lægi að baki því að setja þennan skóla á laggirnar. En þar sem ekki kom neinn skýr rökstuðningur hjá hæstv. ráðherra um málið, þá kem ég upp og tek undir þá gagnrýni sem hefur komið fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og Steingrími J. Sigfússyni í þessu máli.

Ég spyr hæstv. ráðherra, ég vona að hann heyri til mín þó hann sé í símanum, hvort það sé ekki stefna stjórnvalda að starfsmenntun verði í auknum mæli færð inn í framhaldsskólana. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu, var þessi fræðsla í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og ef rök hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar eru rétt um það að aðalgallinn við það nám hafi verið staðsetning skólans á Suðurnesjum og flestir nemendur hafi verið úr Reykjavík, þá sé ég ekki annað en það væri hagkvæmara að setja þetta nám á laggirnar í fjölbrautaskóla í Reykjavík. Ef þetta var aðalgallinn og mundi ég gjarnan vilja fá svör frá hæstv. ráðherra sem bæði er að tala í símann og við einhvern annan þarna frammi. (Gripið fram í.) Hann hlustar. Ég vil gjarnan fá svör við því hvort það sé ekki lausn á málinu, hvort það þurfi að setja upp sérstakan skóla undir samgrn.

Það kemur einnig fram í greinargerð með frv. að gert er ráð fyrir að í flugskólanum verði aðallega kennsla í bóklegum þáttum atvinnuflugnámsins, en ekki loku fyrir það skotið að skólinn veiti verklega kennslu. Síðan er gert ráð fyrir að skólinn semji við aðra starfandi flugskóla sem kenna til einkaflugmannsprófs um afnot af flugvélum eða aðra þjónustu. Þetta ætti auðvitað að vera hægt að gera í gegnum hinn almenna framhaldsskóla ef bóklega námið væri þá á framhaldsskólastiginu og síðan samið um verklega kennslu. Annars vil ég líka benda á það að ef ætlast er til þess að það verði samið við aðra einkaskóla um verklegu kennsluna, þá tek ég undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og það sem kemur reyndar fram í umsögn í greinargerð, að það eru ekki miklar líkur á því að það verði mikið um aðra einkaskóla þegar þessi skóli verður kominn á laggirnar því að það má búast við því að svona ríkisstyrktur einkaskóli muni drepa af sér aðra samkeppni.

Það er ýmislegt sem er sérkennilegt í þessu og kallar á skýringar frá hæstv. samgrh. Þetta er auðvitað mál sem ætti að heyra undir menntmrn. þar sem hér er aðallega verið að fjalla um bóklegt nám. Og ég tek undir það að þetta mál ætti að fara til umsagnar í menntmn. þar sem þetta er mál sem ég teldi að ætti að heyra undir menntmrn. eins og önnur menntamál. Ég tel að það ætti að minnka það að sérráðuneytin séu í skólarekstri eins og t.d. samgrn.

Ég mun fjalla um þetta mál í nefndinni, þar sem ég á sæti í samgn. og vonast ég til að málið verði þá skýrt þar frekar auk þess sem ráðherrann muni skýra þetta betur fyrir okkur.