Umferðarlög

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 15:43:02 (5278)

1996-04-24 15:43:02# 120. lþ. 126.15 fundur 271. mál: #A umferðarlög# (einkamerki) frv. 37/1996, ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[15:43]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Ég vil fagna niðurstöðu allshn. í því máli sem hér er til umræðu. Ég fagna samstöðu nefndarinnar og mér finnst ástæða til að fjalla um nokkur atriði, ekki síst til að minna hv. þm. Svavar Gestsson á það að hann er alveg úti að aka í þessum málflutningi sínum um einkanúmerakerfið. Ég ætla mér að benda hv. þm. á nokkur atriði sem munu leiða hann frá villu síns vegar því þrátt fyrir allt er hv. þm. Svavar Gestsson á réttri leið þótt fráhvarfseinkenni miðstýringarinnar grípi hann stundum heljartökum eins og í þessu dæmi.

Ég vil líka fagna því að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþb., var ein af þeim sem tóku vel undir þetta mál í allshn. og barðist m.a. vel fyrir því að gjaldtakan yrði lækkuð, öndvert við það sem hv. þm. Svavar Gestsson vill.

Í fyrsta lagi spurði hv. þm. hvort tvöfalt númerakerfi mundi auka öryggi í umferð landsins. Það má spyrja á móti: Eru einhverjar líkur á að tvöfalt númerakerfi ógni umferðaröryggi í lanindinu? Ég held ekki.

Það eru nokkur missiri síðan sá er hér stendur flutti þáltill. um einkanúmerakerfið. Ég fagna því hvað það hefur gengið fljótt að koma því á koppinn og fá niðurstöðu í málinu. Um langt árabil hefur númerakerfi bifreiða á Íslandi verið allpersónulegt kerfi. Það hefur verið bundið við staði eða landsvæði og það hefur líka verið bundið við persónur. Og það er kannski það sem er skemmtilegast við þetta meinlausa mál, eins og hv. þm. Jón Kristjánsson orðaði það, að það gefur færi á því að rækta í okkar þjóðfélagi hluti sem eru persónulegir, persónulegt samband og persónuleg vitneskja. Það er okkur mikils virði og verður vonandi á vettvangi okkar sem smáþjóðar í búgarði stórþjóðanna. Þetta er það fyrsta sem ætti að vera samdóma grunnáliti hv. þm. Svavars Gestssonar, að rækta garðinn okkar í eigin ranni og stuðla að okkar eigin kerfi.

[15:45]

Það skýtur líka skökku við að hv. þm. Svavar Gestsson skuli finna að því að tekið sé að þessu leytinu til fram fyrir hendurnar á fastnúmerakerfinu því að það er gegn íslenskri málvitund. Hv. þm. hefur verið þekktari fyrir annað en að berjast gegn íslenskri málvitund. Uppsetning fastnúmerakerfisins með q-um, z-um og ýmsum samsetningum er gegn íslenskri málvitund og er eina sýnilega skekkjan sem við sjáum að því leyti í íslensku samfélagi. Það brýtur meira í bága við íslenska málvitund og málmeðferð en til að mynda erlend nöfn sem eru á skiltum fyrirtækja og stofnana sem eru umboðsaðilar fyrir erlend fyrirtæki og að þessu leytinu til er ruglað með íslenskt mál og sýn fólks í þeim efnum er bjöguð. Þetta er það sem mér finnst ljótast við fastnúmerakerfið. Fastnúmerakerfið er dauður hlutur og er tölvuskráningaratriði tengt málmum sem standast ekki endalaust tímans tönn en einkanúmerakerfið ræktar þá sérstöðu Íslendinga að vilja hafa persónuleg einkenni.

Það er ósköp þægilegt fyrir þá sem vilja að Íslendingar hverfi inn í haf stórþjóðanna, hverfi inn í sameiginlegan búskap Efnahagsbandalags Evrópu og annarra stórþjóða og láti okkur týna einkennum okkar. Auðvitað er þetta smámál. En það er samt mál. Þarna er eðlilegt að sé valfrelsi og menn hafi færi á því að velja sér sjálfir það sem þeir vilja, ég tala ekki um ef menn borga fyrir það og það allnokkuð háu verði. Þetta er grunnatriðið að fastnúmerakerfið í daglegri umferð á tugþúsundum bíla bjagar íslenska málkennd. Þó ekki væri nema þess vegna væri ástæða til þess að breyta því kerfi aftur. Ekkert mælir á móti því að það sé tvöfalt skráningarkerfi, þ.e. að það séu tvö númer sem fylgi hverjum bíl. Fastnúmerið sem fylgir bílnum og einkanúmerið sem fylgir manninum sem á bílinn svo fremi hann vilji það. Það er ekkert á móti því. Þeir sem þurfa að tilkynna eða láta vita af ferðum bíls eða af einhverjum ástæðum að öðru leyti að skipta sér af umferðinni, grípa það númer sem er á spjöldum bílsins, það er skráð í tölvukerfi lögreglunnar og truflar ekkert að hægt sé að hafa eðlilegt eftirlit eða fylgjast með því að öllu leyti.

Það er svo að til að mynda í Svíþjóð og Danmörku er bæði fastnúmerakerfi og einkanúmerakerfi og einkanúmerakerfið í Svíþjóð og Damörku er mjög dýrt. Þar kosta einkanúmerin um 100 þús. kr. Þar er mikið um það að ríkisbubbar, eigendur stóru jeppanna og stórfyrirtækjanna séu með þessi númer og mér finnst líka skjóta skökku við að hv. þm. Svavar Gestsson skuli tala máli þeirra á Íslandi en ekki hins almenna Íslendings og launamanns sem á auðvitað að hafa sömu möguleika og hver annar í þjóðfélaginu til þess að hafa einkanúmer ef honum sýnist svo. Það skýtur skökku við þegar hv. þm. Svavar Gestsson vill stéttskipta íslensku þjóðfélagi á þennan hátt og ekki síst þegar hann gerist talsmaður þeirra ríkari. Þetta er annað atriðið sem brýtur í bága við það sem ég met grunnhugsun hv. þm. Svavars Gestssonar sem er á góðu módeli.

Þá má nefna að það er svolítið einkennilegt þegar menn eru að krefjast þess að gjaldtaka sé hækkuð verulega án þess að það séu nokkur sérstök rök fyrir því. Það getur verið ill nauðsyn að hækka gjöld og yfirleitt reyna menn að hafa það í lágmarki, en þegar menn krefjast þess að sem mest sé tekið af þeim sem eiga valkostinn, eiga völina og kvölina, þá er það eitthvað sem er ekki mjög trúverðugt.

Það er líka hægt að spyrja hvort þeir sem séu á móti þessu umframgjaldi sem er tekið fyrir réttinn á einkanúmerinu, 25 þús. kr., séu á móti aukinni umferðarfræðslu. Ég býst við að þegar að er gáð séu flestir sammála um að ástæða sé til að auka umferðarfræðslu og auka umferðarmenningu og bæta þannig úr mjög slæmu ástandi sem er sannarlega á Íslandi í allt of mörgum alvarlegum umferðarslysum og mannsköðum. Ég fagna því að hv. allshn. sá að sér og lækkaði þetta gjald úr 50 þús. kr. sem engin rök voru fyrir. Þau voru einfaldlega geðþóttaákvörðun. Í þeirri þáltill. sem ég og fleiri þingmenn lögðum fram á sínum tíma var gert ráð fyrir að einkanúmerarétturinn yrði seldur á tvö- þreföldu skráningarverði. Venjulegt skráningarverð á bíl er 3.700 kr. eða þar um bil þannig að 10--12 þús. kr. hefði kannski verið eðlilegt gjald til þess að afla fjár til verkefnis sem stax í upphafi þessa máls var nefnt að væri ástæða til þess að styrkja, þ.e. aukna umferðarfræðslu. Ég er sannfærður um að ef menn hefðu viljað markaðssetja númerin með það fyrir augum að afla fjár til þessa þáttar í þjóðfélagi okkar hefði verið klókara að hafa verðið lægra. Það hefðu fleiri keypt það og það hefðu komið meiri tekjur í heildina.

Ég er líka alveg sannfærður um að ef gjaldið hefði verið 50 þús. kr., ég tala nú ekki um meira, eitthvað í líkingu við það sem er í Danmörku og Svíþjóð, hefðu engar tekjur náðst til þess að auka umferðarfræðslu á Íslandi á þennan hátt með þátttöku þeirra sem eru í umferðinni. Þá hefði málið í rauninni dagað uppi af sjálfu sér með þessari háu verðlagningu en þó má segja að það sé kannski ásættanlegt að verðið sé um 25 þús. kr. þó að mér finnist það tvímælalaust í hærri kantinum. Ég hefði talið miklu eðlilegra að það væri 50% lægra. Þá væri líka hægt að tala um að það væri mjög auðvelt fyrir alla Íslendinga, bæði hálaunamenn og láglaunamenn, að ganga að þessu kerfi og mundi kannski ekki trufla mikið í þessum efnum ef menn hefðu áhuga á því á annað borð.

Þess má einnig geta að það hafa þrívegis verið gerðar breytingar á númerakerfinu á Íslandi á þessari öld. Það er skemmtilegt við einkanúmerakerfið að það gerir ráð fyrir því að hægt sé að taka upp aftur númer á svokölluðum fornbílum, þ.e. bílum frá skömmu eftir 1930 og fyrir 1947. Það er ekkert stórmál en það er skemmtilegt. Menn eru í óðaönn að keppast um að byggja upp gömul hús hér og þar um landið, vanda til þess og reyna að gera þau sem upprunalegust og vönduðust og í takt við það sem var á þeim tíma þegar þau voru byggð. Þó að fornbílarnir séu ekki nema nokkur hundruð þá setja þeir svip á umferðina, setja svip á landið, eru eins konar mublur í umferðinni og þess vegna er skemmtilegt að það sé hægt að bjóða upp á sams konar númeragerð og var á þeim tíma sem þau tæki voru og hétu. Margt í þessu mælir með því að taka upp einkanúmerakerfið. Það skemmir ekkert. Það meiðir engan en það gefur valkost og valfrelsi og það setur persónulegri svip á umferðina og þjóðlíf okkar og það er af hinu góða.

Enginn vafi er á því að mínu mati að það væru hlunnindi fyrir landsmenn ef hv. þm. Svavar Gestsson hefði þekkt einkanúmer á sínum bíl, færi um landið og fólk vissi að þarna færi Svavar Gestsson og það gæti notið þess að vita að þarna færi maður sem skynjaði brúnaljósin brúnu og yndisleikann í tilverunni eins og menn setja upp líkingar á mismunandi hátt í ræðu og riti.

Eitt vildi ég líka nefna í sambandi við nefndarálitið sem er til umræðu hjá hv. allshn. Þar segir að ekki sé verið að innleiða tvöfalt skráningarkerfi á ný með þessari breytingu heldur er þvert á móti ætlunin að eldri skráningarmerkin, þ.e. þau sem notuð voru fyrir tíð fastnúmerakerfisins, hverfi endanlega úr umferð fyrir árslok 1997. Þrátt fyrir það er auðvitað verið að stilla upp tvöföldu kerfi þannig að ég skil ekki rökfærsluna hjá hv. allshn. Auðvitað eru tvö númer skráð í tölvuskráningu lögregluyfirvalda þar sem einkanúmer er annars vegar og fastnúmer hins vegar. En það skiptir engu máli þótt númeraspjöldin séu aðgreind og ekki hægt að setja einkanúmer með sama fyrirkomulagi, þ.e. tveimur bókstöfum og þremur tölustöfum á sama átt og er í fastnúmerakerfinu.

(Forseti (ÓE): Forseti vill spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni því að nú líður að þingflokksfundatíma og forseti hugðist ljúka umfjöllun um þetta mál.)

Ræðumaður á langt eftir af ræðu sinni en þar sem ræðumaður er mjög samningslipur að eðli og upplagi lýkur hann máli sínu hér með.

(Forseti (ÓE): Það gleður forseta. Takk fyrir.)