Umferðarlög

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 15:59:26 (5279)

1996-04-24 15:59:26# 120. lþ. 126.15 fundur 271. mál: #A umferðarlög# (einkamerki) frv. 37/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[15:59]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hér hafa farið fram grafalvarlegar umræður um þetta mikilvæga mál sem er náttúrlega þess eðlis að það ryður öllum öðrum málum frá. Ég skildi ekki tilgang þessa máls í upphafi en nú hef ég fengið margar góðar skýringar á því. Ein sú besta er auðvitað hjá hv. þm. Árna Johnsen sem heldur því fram að fastnúmerakerfið sé í rauninni aðför að íslenskri tungu. Hann er því ekki bara að gera lífið svolítið skemmtilegt heldur er hann að bjarga ástkæra, ylhýra málinu líka. Með vissum hætti hefur hv. þm. rétt fyrir sér.

Hann sagði líka eins og hv. þm. Jón Kristjánsson að þetta væri meinlaust mál. Ég er ekki viss um að þetta sé rétt vegna þess að í þriðja lagi sagði hann að þetta væri til þess að undirstrika persónulegt samband. Það held ég að geti ekki verið mjög meinlaust í öllum tilvikum. Við gætum t.d. sett upp þannig veröld að hv. þm. Árni Johnsen fer á sinni rennireið um landið og er búinn að koma upp einkanúmeri sem á stendur: Eggert. Mundi það ekki valda írafári í umferðinni og jafnvel geta orðið til þess að einhvers konar slys hlytust af? Eða ef við tökum hið ágæta persónulega samband fyrrv. formanns Alþb., hv. þm. Svavars Gestssonar, við þann sem af honum tók, hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson. Ef hv. þm. Svavar vildi undirstrika sitt persónulega samband við hann með því að hafa númeraplötu með sérnúmerinu ÓRG, mundu margir, sér í lagi alþýðubandalagsmenn, reka upp stór augu og aldrei að vita hvað mundi gerast í umferðinni þann dag.

En mér þótti merkilegt að hv. þm. Jón Kristjánsson lýsti því yfir að hann hefði fallist á að lækka verðið úr 50.000 kr. niður í 25.000 kr. vegna þess að eftir því sem verðið yrði lægra mundi ríkissjóður græða meira. Þá verður mér hugsað til þess, herra forseti, að andspænis Alþingishúsinu er skemmtileg verslun sem selur góðan vökva á flöskum. Margir kvarta undan því að hann sé allt of hátt verðlagður og ég er viss um að ef við notuðum þetta nýja efnahagslögmál formanns fjárln. og lækkuðum verðið mundu menn selja miklu meira. Afleiðingarnar kynnu hins vegar að verða dálítið drastískar þegar fram í sækti.

Ég tek hins vegar undir með hv. þm. Árna Johnsen að ef menn eru að fara í svona breytingu á ekki að vera með svona há gjöld. Svo að maður tali hreint út þá nærir þetta vissar kenndir hjá fólki sem sumir mundu kenna við snobb. Það er í lagi. Menn mega vera snobbaðir ef þeir vilja. En það á að gera öllum kleift að vera jafnsnobbaðir. Ef menn vilja setja upp sérnúmer til þess að skera sig frá öðrum eiga menn líka að eiga kost á því án tillits til þess hvort þeir eru ríkir eða fátækir. Þess vegna er ég sammála hv. þm. Árna Johnsen um það að 50.000 kr. er allt of hátt verð og 25.000 kr. er það líka.

Þá kem ég að þætti hv. þm. Svavars Gestssonar. Það er sá þingmaður sem hér í sölum hins háa Alþingis hefur barist hvað harðast fyrir rétti lítilmagnans, rétti þeirra sem ekki hafa mikið umleikis. Hann vill að þeir eigi að njóta allra lífsins gæða til jafns við aðra. Nú hefur það komið fram að þetta er sérlega eftirsóknarvert sem hér er verið að lögfesta. Það gerir lífið skemmtilegt, sagði hv. þm. Árni R. Árnason og undir það tók annar gleðigjafi í þessum sölum, hv. þm. Jón Kristjánsson. Þá spyr ég hin fjarstadda hv. þm. Svavar Gestsson: Hvernig í ósköpunum stendur á því að hann ætlar að meina þeim sem hafa lítið umleikis að verða sér úti um þessa saklausu skemmtun með því að vera fastur í því að fjárhæðin eigi að vera 50.000 kr. eða jafnvel meira? Ég vil ekki segja að það eigi að gera það í tilefni af 1. maí, en ég held að það væri rétt að fella niður öll sérstök gjöld af þessu tilefni.

Að lokum þetta: Þótt hin háa allshn. sé að reyna að blekkja sjálfa sig og aðra með því að það sé ekki verið að setja upp tvöfalt skrásetningarkerfi, er mergurinn málsins nákvæmlega það sem hv. þm. Árni Johnsen sagði hér áðan: Það er verið að setja upp tvöfalt kerfi og menn eiga ekkert að vera að reyna að fela það. En þetta hefur skemmtigildi og þótt það kosti að það verði sett upp tvöfalt eða þrefalt númerakerfi er það allt í lagi. Eins og komið hefur fram á lífið á að vera skemmtilegt. Um það geta allir þingmenn orðið sammála á þessum góða degi.