Eignir húsmæðraskólanna

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 15:05:29 (5282)

1996-04-29 15:05:29# 120. lþ. 127.1 fundur 270#B eignir húsmæðraskólanna# (óundirbúin fsp.), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:05]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. menntmrh. Fyrirspurnin hljóðar svo: Hvernig er fyrir komið gjöfum sem gefnar voru hússtjórnarskólum í landinu? Eins og þingheimur veit hafa flestir hússtjórnarskólar landsins verið niður lagðir og hafa hætt starfsemi sinni. Ég hygg að aðeins einn slíkur skóli sé starfræktur, þ.e. Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað.

Skólunum voru gefnar margs konar verðmætar gjafir, svo sem listmunir í formi hannyrða, málverka, höggmynda o.s.frv. Mikil verðmæti liggja í munum þessum, bæði peningalega og ekki síst tilfinningalega hjá því fólki sem starfaði í skólunum og eins nemendum sem þar stunduðu nám.