Mál starfsmanna Úthafsafurða hf. í Litáen

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 15:13:17 (5290)

1996-04-29 15:13:17# 120. lþ. 127.1 fundur 272#B mál starfsmanna Úthafsafurða hf. í Litáen# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:13]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Utanrrn. hefur fylgst með þessu máli frá upphafi. Þetta mál er til sérstakrar meðhöndlunar í Litáen og er þar til rannsóknar. Mál þetta var tekið upp á fundi sem ég átti með utanrrh. Litáens mánudaginn 15. apríl sl. Þar tjáði ráðherrann mér að þeir hefðu fylgst með málinu og við fórum fram á að það yrði reynt að sjá til þess að allrar sanngirni yrði gætt í máli þessu.

Tveimur dögum síðar eða 16. apríl fór lögfræðingur á vegum utanrrn. til Litáens til að fylgjast með málinu. Hann hefur tekið saman skýrslu um það og utanrrn. mun fylgjast með málinu áfram. Hér er í eðli sínu um einkaréttarmál að ræða en þar sem hér koma fram ásakanir um mannréttindabrot hefur ráðuneytinu þótt rétt að fylgjast með málinu. Þar að auki er rekið mál út af samningnum sem slíkum sem er rekið fyrir gerðardómi í London en það er alveg ljóst að allt þetta mál er hið erfiðasta og ekki gott að segja hver verða úrslit þess og hafa valdið þeim einstaklingum sem hér eiga hlut að máli verulegum skaða.

Ráðuneytið mun sem sagt áfram fylgjast með málinu og reyna að gæta réttar íslenskra þegna eftir því sem við verður komið.