Brunamálastofnun

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 15:25:19 (5298)

1996-04-29 15:25:19# 120. lþ. 127.1 fundur 274#B Brunamálastofnun# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:25]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. félmrh. lýtur að Brunamálastofnun og brunamálaskólanum. Brunamálastofnunin hefur verið án stjórnar og brunamálaskólinn án skólanefndar í tæpt ár.

Það kom fram á þingi Landssambands slökkviliðsmanna sem haldið var 9. mars sl. að í framsögu sinni hafði fulltrúi félmrn. boðað það að vinna væri í gangi með undirbúning að því að flytja þennan málaflokk til umhvrn. Landssambandið reyndar lýsti yfir stuðningi við það mál og hvetur til að fljótlega verði unnið að úrlausn málsins, ítrekaði vilja um gott samráð og gott samstarf við alla aðila sem að því vinna en hefur reyndar þungar áhyggjur. Landssambandið vísar til þess að á þeim tíma voru níu mánuðir liðnir frá því að afsagnir stjórnar Brunamálastofnunar og skólanefndar áttu sér stað og þeir leggja mikla áherslu á að stjórn verði sett yfir stofnunina og að kveðið verði á um starfrækslu brunamálaskólans í lögum.

Það hefur alltaf verið stjórn yfir þessari stofnun og skólanefndin hefur séð um málefni brunamálaskóla. Nú er það svo að brunamálastjóri einn er með allt forræði þessara mála. T.d. er það í höndum stjórnar að sjá um svokallaðan fræðslusjóð og úthlutun úr honum. Þar hefur stjórn úthlutað samkvæmt ákveðnum reglum og er erfitt að átta sig á hvernig með þau mál er farið og hefur verið farið nú þegar engin stjórn er. Sömuleiðis á skólanefnd að sjá um málefni brunamálaskólans. Það hefur t.d. orðið ágreiningur um skólagjöld og þau jafnvel verið talin brot á reglugerð og áhugavert að vita hvaðan heimildir voru til að taka gjöld í þeim skóla.

Virðulegi forseti. Tíminn líður og ef stjórnsýslubreytingar standa fyrir dyrum, þá er áhugavert að vita hvort von er á frv. frá félmrh., en annars: Hvar stendur málið og hversu lengi mun þessi þýðingarmikla stofnun verða stjórnarlaus og skólinn skólanefndarlaus?