Brunamálastofnun

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 15:29:14 (5300)

1996-04-29 15:29:14# 120. lþ. 127.1 fundur 274#B Brunamálastofnun# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:29]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég er fullkomlega ósammála hæstv. félmrh. varðandi það að ekki hafi skipt máli að það vantar stjórn yfir þetta fyrirtæki. Þarna var mikið samskiptavandamál á ferð. Það var vandi í stofnuninni og það hafa fleiri ráðherrar komið að því og það sauð upp úr á þessum tíma sem ég benti á, í kringum 9. maí í fyrra, með mjög afgerandi hætti. Það varð niðurstaða félmn., m.a. eftir að hún fór yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar, að það væri á ábyrgð ráðuneytis og ráðherra að reyna að ganga frá þessum málum. Þrátt fyrir það að brunamálastjóri sendi sínar tillögur til ráðherra varðandi úthlutun styrkja, þá er mér til efs að það sé lausn í málinu að það verði slík stjórn yfir stofnuninni að það séu ráðherra og brunamálastjóri sem fari með það sem áður var í höndum stjórnar.

Hins vegar vil ég árétta spurningu mína um skólagjöldin. Og ég vil spyrja ráðherra: Ef ekki verður af flutningi Brunamálastofnunar til umhvrn. núna í vor --- nokkuð sem ég held að sé alveg ásættanlegt og að þar eigi hún heima --- mun hann þá skipa stjórn til að þessi mál verði ekki í lausu lofti til hausts, því að það er mikill vandi að mati allra þeirra sem eiga sitt þangað að sækja?