Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 15:57:08 (5308)

1996-04-29 15:57:08# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:57]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það sem hér er verið að gera er að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis. Hann benti á að það væri nauðsynlegt að setja skýrari lagastoðir undir innheimtu skrásetningargjalds í Háskóla Íslands en verið hafa við lýði um langt árabil og stúdentar hafa staðið að jafnt sem háskólayfirvöld. Eins og áður hefur komið fram snúast þessar deilur um fjárhæðir en ekki um það hvort hér eigi að leggja á skrásetningargjald eða ekki. Og það liggur fyrir að brtt. frá Alþb. og Þjóðvaka, ef ég man rétt, eða Alþb. og Alþfl. ganga út á það að (Gripið fram í: Þetta er það sama.) fjárhæð gjaldsins eigi ekki að vera jafnhá og hér er lagt til. Menn eru því ekkert að taka upp þessa stefnu nú og lögfesta í fyrsta sinn skrásetningargjöld við Háskóla Íslands. Það er verið að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis vegna gjalda sem innheimt hafa verið og skýra réttarstöðu þeirra sem að málinu koma og ákveða þannig þessa fjárhæð.

Ef Alþingi ákveður að fara með fjárhæðina upp í 100 þús. kr. eða 150 þús. kr., þá þarf að vera meiri hluti á hinu háa Alþingi til þess að slíkar ákvarðanir séu teknar. Hér er lagt til að gjaldið verði 24 þús. kr. Ef meiri hluti er fyrir því að það verði 100 þús. kr., þá mun það koma í ljós. Sumir vilja að það sé 9 þús. kr. Ég og ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir standa að því að það verði 24 þús. kr. og skiptist eins og gerð er grein fyrir í frv. og greinargerð með því.